Færslur: 2010 Júlí
17.07.2010 20:10
Strútsstígur - örblogg
Nokkrar staðreyndir úr gönguferðinni. Nánari lýsing væntanleg og þá með myndum.
Okkur Sif hefur ekki tekist fyrr að vera með hæfilegt af mat, alltof mikið súkkulaði á Lónsöræfum, flatkökur fyrir heila herdeild á Hornströndum, en núna bara hæfilegt af öllu. Ja, hefði kannski mátt vera meira SvissMiss.
Veðrið gott til göngu, fengum samt einhverja rigningu alla dagana en eiginlega alltaf lóðrétt og mild, svona hálf útlensk rigning. Hætti fljótlega að fara í hlífðarbuxur því nýju göngubuxurnar virtust vera vatnsfráhrindandi. Rétt aðeins í lok einnar dembunnar að ég varð rassblaut þegar rann af bakinu. Datt í hug vísan sem Einar í Hlíð orti eitt sinn þegar ég kom þar ríðandi, vot inn að skinni:
(Læt fyrripartinn ekki á prent)
Á henni Höllu allt er blautt
að því er hún segir.
Alla daga þurfti að vaða og þá stundum grýttar og vatnsmiklar ár. Fínu vaðskórnir mínir sönnuðu enn og aftur gildi sitt.
Ekki spillir græni liturinn,en hvort þetta er framsóknargrænt eða Vinstri -grænt skal ósagt.
Engar blöðrur og engar harðsperrur, en fljót að sofna eftir löngu dagleiðirnar. Ekki verra að hafa sílikontappa í eyrum.
Góður hópur, 2 fararstjórar og 18 gönguhrólfar. Þarna voru göngufélagar úr fyrri gönguferðum, Ásta Birna og Gunnar voru með á Lónsöræfum og Hornströndum, Inga og Ingvar á Lónsöræfum og Hrefna og Særún á Hornströndum. Þarna voru líka Vestlendingar, Kristín frá Kópareykjum og hennar maður sem er frá Hvammi í Hvítársíðu og heitir Guðmundur. Þetta árið voru leikskólakennarar í meirihluta og enginn veðurfræðingur sem kannski útskýrir rigninguna.
En góð ferð, lítið um fjallgöngur, lítil aska þó við værum þarna norðan Mýrdalsjökuls.
Meira seinna þegar ég hef fengið góðar myndir.
16.07.2010 21:56
Einn og hálfur á blogginu.
Þetta var nokkuð skemmtileg ferð sagði ég við kunningja minn.
Það var fyrir óralöngu síðan og ég var að segja honum frá hestaferð sem ég var nýkominn úr.
Hvað var svona skemmtilegt spurði hann.
Nú það var talað svolítið, gerðar nokkrar vísur, sungið smá og dúllað við að laga nokkur hross svaraði ég.
Voruð þið mörg spurði hann og þagði síðan lengi, þegar ég sagðist nú bara hafa verið einn.
Þú hefur þá verið einn og hálfur sagði hann svo eftir langa umhugsun.
Ég svaraði ekki svona ósvífni.
Þetta er dálítið svona á blogginu hjá mér.
Ég tala við sjálfan mig í einsemdinni hér, geri stundum vísu ef tilefni gefst en sem betur fer kemst sönglið ekki til skila á netinu, enda myndi það þýða áhorfshrun.
Og stundum leyfi ég ykkur að fylgjast með þegar ég dúlla svolítið í hundunum mínum.
Skessa frá Hæl var fyrsti hundurinn sem ég dúllaði dálítið mikið við.
Mér líður ákaflega vel með þetta, annars væri ég ekki að standa í þessu.
Þó mér líði oft ákaflega vel einn með sjálfum mér, þá finnst mér alltaf skemmtilegt að fá eitt og eitt comment og einstaka stimplun í gestabókina.
Það er ákaflega breiður hópur sem heimsækir mig hér og þó ég hefði upphaflega séð fyrir mér bændafólkið að fylgjast með gangi mála, þá er umtalsverður hluti þeirra sem kíkja hér öðru hvoru inn, ekta þéttbýlisbúar.
Gaman að því.
Og símtölin sem ég hef fengið eru af margvíslegustum toga.
Mörg þeirra tengjast hundum en önnur eru um ólíklegustu málefni.
Sá sem hringdi síðast í mig var sunnlendingur að fá ráðgjöf um hvar hann ætti að kaupa lífhrút vestan varnargirðingar. Ég kannaðist við hann af afspurn og tók þessu erindi að sjálfsögðu ljúfmannlega og benti náttúrulega sérstaklega á þá sem versla bygg af mér.
Sunnlendingurinn sagðist kíkja reglulega inn á síðuna mína og þetta væri besta
" hestabloggsíða " landsins. !
Eftir á að hyggja botnaði ég reyndar ekkert í samhenginu á þessu.
Það kemur stundum fyrir að ég fæ einkapósta um eitthvað bloggefnið, ýmist með spurningum um nánari úskýringar eða einhverjum vangaveltum um efnið.
M.a. hafa 4 þungavigtamenn í félagsmálum bænda séð ástæðu til að gera þetta.
Sumir þessarra pósta ættu fullt erindi sem athugasemd við viðkomandi blogg en ég virði það að sjálfsögðu ef menn vilja síður blanda sér beint í umræðuna.
Flettingarnar á síðunni minni eru mjög hjartastyrkjandi og segja mér það að gestirnir nenna að lesa löngu bloggin og skoða eitthvað sem þeim finnst áhugavert hjá mér.
Þar kemur mér mest á óvart stöðug umferð um sveitarfélagssíðuna mína þar sem 20 - 40 flettingar á dag eru algengar.
Já, mér hefur svo sýnst að þegar menn eru sestir niður og farnir að skrifa um bloggið sitt, þá sé stutt í að það leggi upp laupana.
Og nú er allt hey komið í plast, mín heittelskaða komin heil til byggða úr gönguferðinni og engin vandamál í kortunum.
13.07.2010 21:47
Heyskapur, - rigningarsumar, alvörufólk + hestaferðir.
Eiga þessir sveitalúðar sér ekkert líf ???
Nú sér loksins fyrir endann á fyrri slættinum en rolluheyið var tekið í síðustu viku.
Sláttulok í hrossaheyinu bæði hjá Hestamiðstöðinni og Dalsmynni sf. voru í dag og er þá fyrri slætti lokið að sinni.
Vélafloti Hestamiðstöðvarinnar í sláttuham. Að vísu á hún ekki nema tæpan fjórðung í sláttuvélunum en eignarhaldið er hinsvegar oft dálítið óljóst á dótinu þegar mikið gengur á hjá þessum grönnum.
Dalsmynnisbændur tóku þá tímamótaákvörðun að bera ekki á hána milli slátta í þetta sinn.
Það byggist annarsvegar á góðum heyfeng í ár og hinsvegar talsverðum fyrningum.
Eftir sem áður verður trúlega að hreinsa há af flestum túnum sem verður þá væntanlega lítils virði.
Það er búin að vera alveg meiriháttar heyskapartíð hér á Nesinu og rigningarsumarið sem Jón í Kolviðarnesi er búinn að spá síðan snemma sl. vetur og spáir trúleg enn, er ókomið.
Allavega hér.
Reyndar eru veðurspárnar oft alveg ótrúlega ónákvæmar svo ekki sé sterkar til orða tekið, en þegar allt gengur upp, ef maður tekur ekki mark á þeim segi ég ekkert.
Mín heittelskaða er svo lögst út í árlegri gönguferð, sem er ekki sanngjarnt þegar sleppitúrinn féll niður vegna hestaflensu.
Sleppitúr 2008 . Áð austan Hornafjarðar nýkomin niður úr Almannaskarði.
Og ég hef ekki komist í hnakk í sumar, en nú verður farið að járna og teikna upp alvöru ferð.
Ég veit ekki hvort Staðsveitungar kannast við fjöllin en þetta er nákvæmlega lífið í góðum gír.
Kannski ferðin vestur á Strandir sem fara átti í fyrra, verði vakin upp.
Alltaf gott að koma þar sem býr alvörufólk.