Færslur: 2008 Desember
30.12.2008 09:45
Sauðféð, tap eða?
Hér er stunduð beingreiðslulaus sauðfjárrækt. Reyndar eru farnar að berast greiðslur gegnum gæðastýringingarkerfið en þær vega lítið í dæminu.
Ég held því hiklaust fram að sauðfjárbúskapurinn í Dalsmynni sé fyrst og fremst til að geðheilsan haldist eitthvað skárri en annars. Nóg er samt. Ef grannt er gáð bætir hún nú trúlega ekki geðheilsu yngri bóndans en þar er af nógu að taka enn, áður en til vandræða horfi.
Eftir að hafa skoðað afkomuna nokkur ár aftur í tímann er þó ljóst að þessi hliðarbúgrein er ekki arðvænleg . Botninum í afkomunni á því sem af er þessari öld, var trúlega náð í kringum 2004 og síðan hefur afkoman batnað þar til nú, að línuritið er farið að vísa niður á ný.
Féð er trúlega að borga kostnaðinn við fóðrið og annan greiddan kostnað en ljóst að vinnulaun og húsaleiga eru lítil. Þar sem aðstaða til nautakjötsframleiðsu er ekki fyrir hendi á búinu, er litið svo á féð komi í staðinn, enda óvíst að nautakjötsframleiðslan skili meiru.
Aðalvandamálið er þó að fjárbúskapurinn er farinn að rekast á álagstoppana í akuryrkjunni, vor og haust. Nýtingin á niðurlandinu er svo farin að skarast, þar sem byggið er farið að koma upp áður en fénu er sleppt til fjalls og þreskingu ekki lokið þegar leitir hefjast og féð er tekið heim á ný.
.
Þetta hobbý ber því engan aukakostnað og aðstaðan verður svo að kosta lágmarksvinnu.
Flatgryfjunni er skipt í tvennt með jötu og yfir fengitímann er lokað fyrir enda jötunnar.
Komið er með rúlluna á dráttarvél og hún skorin með vökvahnífnum.
Þessari jötu var rubbað upp með hraði haustið sem fjárhúsum var breytt í fjós, og átti að endurnýjast sem fyrst. En Jóhann Pétur liggur á hönnuninni sinni eins og ormur á gulli.
Þetta kostar því heimsókn vestur með málband og myndavél svo endurnýjunin verði í lagi, nema þjónustan skáni eitthvað.
Og hundarnir eru svo ljós punktur í tilverunni.
Já , er maður ekki alltaf í tómu tjóni hvort sem er ??
29.12.2008 09:23
Jólaball litla fólksins.
Það var orðið dálítið svartnætti í mannfjölgunarmálum í sveitinni á tímabili. Nú lítur þetta allt betur út og ungt fólk farið að setjast að í sveitasælunni. Unga fólkinu fylgja gjarnan lítil börn og eftir margra ára hvíld frá jólaballi litlu barnanna var það endurvakið með stæl í gær.
Hér eru Ingibjörg frá Hofstöðum, Hafdís Lóa frá M. Borg og litli Ayust frá Miðhrauni.
Þetta er að sjálfsögðu orðið alþjóðlegt samfélag hér og börnin hafa kynnst í leikskólanum sem boðið er uppá 4 daga í viku yfir skólatímann.
Hér er Perla á M. Borg að spjalla við Kötlu í Hrossholti, Ingu Dóru á Minni Borg. Lítil sem var gestkomandi á Borg og Hafdís Lóa og Gísli á Minni Borg.
Giljagaur og Hurðaskellir voru enn að þvælast um í sveitinni og kíktu við til að heilsa upp á þessi þægu börn.
Finnbjörn litli sem var í heimsókn hjá afa og ömmu á Stakkhamri, var hvergi banginn við heimasæturnar í sveitinni..
Já, þetta er ungt og leikur sér.
28.12.2008 09:53
Rigninguna út, snjóinn inn.
Jólasnjórinn er löngu horfinn og það er dimmt yfir þessa hlýju vetrardaga. Hrossin kumruðu á móti mér óþolinmóð eftir gjöfinni þegar ég birtist þeim í morgun. Ég byrjaði á því að ganga um húsið og þegar kom að folaldastíunni mundi ég eftir því að folöldunum hafði fækkað um eitt þegar ég kom að gefa í gærkvöldi. Þar sem um " aðkomugrip " var að ræða hafði ég ekki velt þessu mikið fyrir mér og gleymt að hringja í eigandann til að kanna málið. Hann hafði kannski verið að færa Önnu Margréti það sem jólagjöf? Eftir á að hyggja fannst mér þetta þó mikil ósvífni og óskammfeilni, að gera þetta án samráðs við settan bústjóra. Já, það þarf að taka rækilega á þessu virðingarleysi, en samt þó eins gott að réttur eigandi hafi hirt það?
Rigningin sem koma átti í gær kom aldrei og hrossin höfðu því öll komist út í gerði. Það var eins gott því nú er farið að rigna og lá við að blotnaði í mér við að koma rúllunni inn á Sjeffanum, því nú þurfti að bæta á fóðurvagninn.
Mér varð hugsað til sýkingarinna á Kjalarnesinu þar sem 21. hross er dautt og 6 veik enn.
Þetta er álíka fjöldi og hér var verið að gefa og þó gömlum sveitarmanni blöskri þegar hann les í fréttum um málið að hrossin hafi látist og eða andast, er það kannski réttlætanlegt orðafar í svona tilvikum.
Ekki er ótrúlegt að sú hörmungarsaga vekji kröftuga umræðu um dreifingarform búfjáráburðar, og nýtingu landsins í framhaldinu, þegar búið verður að staðfesta hvað þarna gerðist.
Svo er vonandi að nú fari að slá á þessa umhleypinga sem fara illa með útiganginn.
Hér með er því óskað eftir stillum með hæfilegu frosti og snjó því nú eru fjöllin farin að bíða eftir mér.
Og yngri bóndann farið að klæja í benzínputtann.