Færslur: 2008 Nóvember
06.11.2008 19:20
Haus- eða ekki haus??
Það er enginn haus, sagði yngri bóndinn spekingslegur á svipinn.
Við stóðum yfir kú með kálfssóttina og fæturnir sem sáust, virtust vera hinir eðlilegustu framfætur og þetta væri allt í sómanum. Við nánari athugun reyndist þó rétt að enginn haus fylgdi þessum löppum , enda voru þarna afturfætur á ferðinni og kálfurinn greinilega alveg á hvolfi.
Þar sem eldri húsmóðirin sér um fæðingarhjálpina var hún umsvifalaust ræst út, til að stjórna aðgerðum. Hennar sérsvið liggur að vísu í sauðfénu þar sem hún fremur hin ótrúlegustu kraftaverk en þetta er nú allt sama tóbakið, eða þannig.
Þegar til átti að taka kom upp ágreiningur um hvernig staðið skyldi að því að snúa kálfinum.
Tillagan um að toga og snúa um leið, var ekki keypt og aldursforsetinn kvað uppúr með að hér yrði ekkert gert fyrr en Rúnar dýralæknir væri kominn í hinn endann á símanum.
Hann var eldsnöggur að átta sig á málinu og kvað umsvifalaust upp með það, að löppunum yrði ýtt til baka eins og hægt væri, kálfinum snúið og svo afturábak út með hann.
Tíu mínútum seinna var svo eldsprækur nautkálfur kominn í heiminn. Þetta ætlar að verða nautkálfaár í ár, þarsem meiripartur kálfanna er naut. Í fyrra var það á hinn veginn.
Þar sem ég læt ekkert tækifæri ónotað að bögga þann yngri með þessum kúastofni sem ég er neyddur til að búa við, benti ég honum á að sú nýborna væri hvort sem er með ótækt júgur og spenalag til að nota til undaneldis. Ég sleppti því þó að bæta við, að það ætti nú reyndar við flestar kýrnar á skerinu, okkar og annarra.
Uss suss suss, best að hætta sér ekki í þessa umræðu.
04.11.2008 21:31
Perlubrúðkaup.
Það var n.a. kalsarigning og leiðindaveður þegar mín heittelskaða og ég vorum pússuð saman í Rauðamelskirkju. Eftir að séra Einar hafði látið okkur lofa öllu mögulegu og ómögulega vorum við allt í einu orðin hjón. Í framhaldinu var frumburðurinn skírður og samkvæmt þessu, því bæði getinn og fæddur í synd. Það var síðan nýmunstraður tengdapabbinn sem hélt dóttursyninum undir skírn og fórst það vel úr hendi eins og vænta mátti.
Greinilega dálítill tími þessi 30 ár!
Í dag eru 30 ár síðan þessir velheppnuðu gerningar áttu sér stað.
Já, það hefur mikið verið lagt á konuna mína síðustu 30 árin.
Það var ekki nóg með að taka mig á framfærslu sína, heldur var ég vanur því frá hótel mömmu að fara frekar létt útúr " kvennastörfunum", en stór systrahópur sá til þess að nokkuð " eðlileg " verkaskipting var á heimilinu.
Það kom sér því vel fyrir frúna að hafa kennaramenntun í farteskinu við ögun hins værukæra eiginmanns.
Það er svo best að sleppa allri upptalningu á þeim brotum og brestum sem ég tel mig hafa á samviskunni eftir þennan tíma, svo ekki sé minnst á brot og brotabrot sem mér persónulega finnst ekki ámælisverð.
Það sýnir hinsvegar þolinmæði og langlundargeð minnar heittelskuðu að á þessum tíma hefur hún nú aldrei lagt á mig hendur þó hana hafi örugglega oft langað til þess.
Þó margt skemmtilegt sé nú óðum að hverfa í blámóðu fjarskans er sagan af síðbúna veislugestinum alltaf jafnfersk.
Vinur okkar sem hafði verið að skemmta sér í bænum kvöldið fyrir brúðkaupið var svo " óheppinn " að keyra beint útúr einni beygjunni á leiðinni í sveitina. Það var vel liðið á veisluna þegar honum var skutlað heim á hlað veislustaðarins af einhverjum miskunnarsömum . Þegar hann hitti þar utandyra einn veislugestanna, gerði hann sig eins virðulegan og honum var unnt, ræskti sig og spurði svo eilítið hásum róm.
Afsakið, er það ekki hér sem verið er að gifta.?
Já svo er ég ekki grunlaus um að þetta hafi verið dálítið erfiður dagur fyrir hana tengdamömmu.
03.11.2008 23:18
Hundaræktun. Endalaust ævintýri.
Þú ert annar maðurinn á tveim dögum sem hringir í mig með þessa spurningu sagði félagi Hilmar.
Ég hringdi í hann og spurði um hvort hann hefði símann hjá Einari Jóelssyni sem á áhugaverðan nýinnfluttan hund. Hilmar, sem var að koma úr framúrstefnulegri eftirleit þar sem m.a. skotbómulyftari var notaður við að ná fé úr klettum (dugir trúlega ekki í Kirkjufellinu) mundi ekki númerið, en þar sem kom á daginn að ég átti nánast leið um hlaðið hjá Einari á ferð minni um suðurlandið. sagði hann mér til vegar svo dugði mér, jafn tregur og ég er.
Þar sem ég tel mér trú um að hafa undir höndum tveir tíkur, nothæfar í ræktunina eru bæði augu og eyru opin ef einhverstaðar er grunur um vel ræktaðan hund sem myndi henta sérviskunni í mér.
.
Jim í Brautartungu var fluttur inn í vetur ótaminn , eða sjö mánaða. Það er lítið farið að vinna í kindum með hann en Einari leist vel á hann. Ekki gafst tími til að leyfa mér að sjá hvernig hann fer að fé en sá tími gæti komið.
Já , Einar verður að taka á því í vetur og sýna okkur hvað býr í Jim.
Ég sá hinsvegar strax að Jim er góður mannþekkjari.
Hann vildi ekkert með bóndann af Snæfellsnesinu hafa.