Færslur: 2008 Nóvember
30.11.2008 08:52
Árshátíð Laugargerðisskóla.
Laugargerðisskóla sem þjónar gömlu Hnappadalssýslunni sækja 45 börn samtals ef leikskólinn er talinn með. Þar geta nemendur lokið tíunda bekknum.
Margir hestamenn þekkja hann sem Hótel Eldborg en þaðan er stutt á fjörurnar og er óhætt að segja að okkur fjöruriddurum Eyjarhreppsins finnst stundum nóg um traffíkina.
Skólastjórinn hún Kristín Guðmundsdóttir setti hátíðina. Hún ræddi m.a. um mannauðinn sem væri ómetanlegur og brýndi okkur nú í að standa vörð um skólann okkar. Ég sá nú ekki betur en hún liti sérstaklega á eina sveitarstjórnarmanninn á svæðinu í þeim töluðu orðum.
Formaður nemendaráðsins, Karen á Kaldárbakka kom næst. Ég sá að allir tóku vel eftir því .þegar hún sagði okkur frá heimabakstri nemandanna sem lögðu til veisluföngin, sem biðu okkar eftir skemmtiatriðin. Hún taldi nú samt öruggast að láta þess getið að mömmurnar hefðu nú kannski komið pínu að málinu. Innkoman af árshátíðinni rennur svo öll í ferðasjóð nemenda.
Settur hafði verið upp söngleikurinn Frelsi sem saminn er af tveim kennurum á Akranesi.
Og það er náttúrulega ýmislegt á sveimi hér vestra og fjölbreytni í mannlífsflórunni.
Já við erum alveg óskaplega rík hér í Laugargerði og eins gott að sveitarstjórnarmennirnir standi vaktina.
Þetta var fínt hjá krökkunum og veislan á eftir var uppá 10. Hvort sem það var nú þeim að þakka eða mömmunum.
Ég held að það sé engin kreppa í sveitinni.
29.11.2008 09:08
Hérar og Hart í bak.
Gærdagurinn sem byrjaði frekar illa og endaði ágætlega, var týpiskur þvælingsdagur sem ég hefði haft gaman af fyrir margt löngu , en umber núna með kristiIegri þolinmæði.
Strax og frúin hafði lokið kennslu var lagt af stað í bæinn með stoppi í Borgó. Eftir að hafa skilað henni af mér til föðurhúsanna, (samt ekki endanlega) var brunað á Selfoss. Þar átti að hefjast fundur kl. 3 og þar sem nú var orðið ljóst að bóndinn væri að falla á tíma, voru náttúrulega öll hraðatakmörk nýtt til hins ýtrasta. Eins og alltaf þegar sú staða er uppi, lendur maður f aftanvið gamla konu sem hefur að sjálfsögðu sína hentisemi í umferðinni. Þegar sú gamla lendir síðan aftan við enn eldri konu er gott að gengnir rebbar hafa þjálfað undirritaðan vel í þolinmæðinni.
Eftir að hafa kvatt gömlu konurnar, sem eru fyrir löngu búnar að átta sig á því að nokkrar mín. á leiðinni R.vík- Selfoss skipta ekki nokkru máli í lífshlaupinu, var ég svo heppinn að lenda aftan við "héra" sem ég hélt í hæfilegri fjarlægð fyrir framan mig að Hveragerði. Hérar eru ökumenn sem aka á þeim hraða sem hentar mér og eru tilbúnir að taka áhættuna fyrir mig gagnvart vökulu auga löggæslumanna. Alltaf þegar ég fer norður yfir heiðar eru slíkir ökuþórar vinsælir þegar ekið er um húnaþing en það ágæta hérað reynir alltaf mjög á akstursþolinmæðina einhverra hluta vegna.
Þó að ég mætti svo í seinna fallinu gat ég sagt eins og kunninginn sem lætur gjarnan bíða eftir sér, hvort sem verið er að leggja á, eða funda." Það gerist ekkert, fyrr en ég kem."
Það var svo ekki nóg með að fundurinn yrði mun betri en reiknað var með , heldur lauk honum á skikkanlegum tíma svo það var ekið héralaust í bæinn. Laxinn sem tengdamamma bauð uppá í kvöldmatinn hafði greinilega verið valinn af mikilli natni og lögð alúð við matseldina.
Þar sem laxfiskur er ekki ofarlega á vinsældarlista minnar heittelskuðu, öfugt við mig styrkir þetta vonir mínar um að tengdamamma muni að lokum fyrirgefa mér það, að hafa komið í veg fyrir að eldri dóttirin kæmi með almennilegan tengdason inn í ættina.
Eftir að hafa séð Hart í bak í þjóðleikhúsinu var mennskælingurinn sóttur og síðan brunað í sveitina. Allir ábyrgðarfullir feður skilja þá ánægjutilfinningu að hafa dótturina í öryggi sveitarinnar sem oftast, á þessum viðsjárverðu tímum, þó fumlaust og ábyrgt uppeldi hafi skilað sér fullkomlega.
Þetta þýðir samt að ég verð að þola tvöfalt kvennaofríki um helgina.
27.11.2008 20:21
Mjaltabásinn og Remfló
Snillingarnir frá Remfló mættu hér í gær í árlegt eftirlit á mjaltabásnum.
Þar sem hann er orðinn fjögurra ára var þetta aðeins meiri yfirhalning en undanfarin ár og mjöltum seinkaði um klukkutíma fyrir vikið. Það má segja að básinn hafi gengið þegjandi og hljóðalaust þessi ár og gerir vonandi áfram því eðli málsins samkvæmt gengur ekki að hann sé með einhverjar uppákomur dags daglega.
Nú mættu nýir menn frá nýjum eiganda, því Jötunn Vélar á Selfossi keyptu fyrirtækið og nú er það flutt í húsnæði Jötunn Véla, og er að auka vöruúrvalið hröðum skrefum.
Meðal annars skilst mér, að nú geti ég fljótlega farið inná netverslunina þeirra og verslað mér þurrfóður fyrir hundana með frírri heimsendingu.
Og þessi framleiðslugræja hér er að mjólka yfir 40 l. á dag. Hún heitir Randalín frá Álftavatni og er ekki að spyrja að þeim Snæfellsbæingum.
Hinsvegar er að fara fyrir henni eins og flestum íslenskum kynsystrum hennar sem komast í góða nyt, að júgrin eru ekki gerð fyrir þessi afköst, slitna niður og þetta endar síðan með allskonar skelfingum fyrir kúna og bóndann.
En nú er það ekki landnámskúin sem veldur andvökunóttum undirritaðs heldur íslenska krónan sem verður aldrei treystandi sem alvörugjaldmiðli framar.