Færslur: 2008 Júlí
09.07.2008 15:01
Fjórði dagur Leiðartungur-Tröllakrókar-Víðidalur
Stórihnaus
Leiðin niður meðfram Stórahnaus
Þá var runninn upp mánudagur, frekar kaldur og nú voru dregnar upp síðu ullarnærbuxurnar hans Svans. Farið var af stað fyrir kl.10 og gengið sem leið lá inn Leiðartungur, víða kjarri vaxnar og eftir svona tveggja tíma labb var tekin góða pása því framundan var tæplega tveggja tím ganga upp á við, samt ekkert voðalega bratt. Það blés köldu enda skriðjökull þarna framundan og allir fegnir þegar pásunni lauk og hægt að fara að ganga sér til hita. Þegar upp var komið var gengið inn með gilinu og að tröllakrókum. Það eru 7 km langir og nokkuð hundraðmetra háir móbergsveggir, allir mótaðir af vindi, vatni og jökli í alls konar form. Verulega stófenglegt. Ég gætti þess að fara ekki of nálægt brúninni! Þegar allir höfðu myndað nóg var gengið þvert yfir hásléttuna í átt að Víðidal. Ekki var tími að fara niður í hann að þessu sinni. Þar var búið fram undir lok 19 aldar, langt þaðan í næsta kaupstað. Gunnlaugur fararstjóri hafði látið brúa ána, við það meðal annars notuð þyrla, en brúin hafði farið fyrir 2-3 árum. Ofan í dalnum töldum við vel á annaðhundruð hreindýr. Einn ferðafélaginn átti veiðileyfi á hreindýr á þessu svæði og var held ég strax farinn að kvíða burðinum á tarfinum sínum úr dalnum til byggða. Vonandi verða dýrin kom nær vegasambandi í ágúst. Gunnlaugi langaði að fá GPSmælingu á gömlu leiðina upp úr dalnum og fékk Ingvar með sér. Þeir skokkuðu niður í dalinn að brúarstæðinu og svo varðaða leið til baka. Við hin gengum af stað eftir stikuðu leiðinni og þeir voru ótrúlega fljótir að ná okkur. Þarna var klukkan farin að ganga sex og til stóð að grilla lambalærin um kvöldið. Gunnlaugur fékk 2 léttfætta karlmenn (karlar grilla) með sér og ætluðu þeir að hraða för til skálans og kveikja upp og undirbúa grill. Á leiðinni höfðum við tínt einiber, blóðberg og birki til að krydda með. Grillmeistaranir töltu af stað og sást síðast til þeirra renna sér fótskriðu niður skriðurnar. Við hin gengum hvert á sínum hraða eftir vel merktri slóðinni. Síðasti hálftíminn var eftir flottri giljaleið með svipuðum þiljum og í Þilgili enda beint á móti þeim. Einnig var þarna ægifagur hvítgráblár kambur sem ég held að heiti Stórihnaus. Svolítið var þetta bratt á köflum, verst þegar eru brattar klappir með steinum oná. Þá væri gott að hafa eitthvað til að halda í. En við vorum farin að sjóast og gengum þetta tiltölulega óhikað, kannski ekki eins og fjallageitur en í áttina.
Menn voru duglegir að ljúka öllu hjartastyrkjandi þegar heim kom, gengu tappar með ýmsum "meðala"tegundum milli manna. Læri og meðlæti smakkaðist vel, dregnir voru upp rauð/hvítvínskútar, ótrúlegt hvað borið hafði verið niður Illakamb. Þegar uppþvotti og tiltekt lauk hófst kvöldvaka. Gunnlaugur stjórnaði og kynnti menn til leiks. Naut hann aðstoðar þjóðþekktra landsmanna við það, enda mikil eftirherma. Þegar kvöldvöku lauk komu í heimsókn gestir úr hinum skálanum, útvarpsfólk sem ætlaði að vera 2-3 daga á svæðinu. Sif varð verulega lúmsk og náði í hitt og þetta úr matarpokunum og bauð gestum. Sá fram á að þá þyrfti ekki að bera eins mikið upp næsta dag. Ein skálareglan hljóðaði upp á að ró skyldi vera komin um miðnætti og voru gestir farnir um það leyti. Önnur regla segir að skálaverði sé heimilt að vísa mönnum úr skála, neyti þeir áfengis UM OF. Hvað nákvæmlega þetta um of merkir vissi samt ekki skálaverjan hún Katrín. En sem sagt allir komnir til kojs um miðnætti og ég get alveg viðurkennt að heiti potturinn og rúmið mitt voru farin að leita töluvert á hugann.
Tröllakrókar
08.07.2008 11:17
Þriðji göngudagur Víðibrekkusker-Sauðhamarstindur-Þilgil
Kambarnir/þilin í Kambagili/Þilgili. Kambanafnið á að tengjast hanakambi
Víðagil, fallega röndótt.
Í dag var stefnan sett á fjallgöngu fyrir þá sem það vildu. Ganga átti á Sauðhamarstind sem er rúmlega 1300 m hár. Ganga átti í Viðibrekkusker sem er milli 6og 700 metrar og þar myndu menn skipta liði. Veðrið var fínt til göngu, ekki mikil sól og trúlega kalt á fjöllum. Farið var yfir ána á göngubrúnni og farið upp nafnlaust gil sem er oft kallað Flumbrugil. Nafnið tengist henni Flumbru í bókinni Tröllin í fjöllunum, en í þessu gil er klettur sem er ekki óáþekkur henni. Gengið er í gilbotninum og frekar bratt. Síðan lá leiðin upp á Víðibrekkusker. Þarna voru nokkrir skaflar sem við gengum og eins voru skaflar efst á tindinum. Þarna skiptist hópurinn. Nokkrir voru ákveðnir í tindagöngu, sumir ætluðu að fara af stað og sjá svo til og nokkrir ákveðnir í að sleppa alveg fjallgöngu, Ég var í síðasta hópnum, Sif ætlaði að sjá til. Þau fóru svo öll upp en mér skilst að það hafi verið töluvert púl. Því miður var orðið skýjað þegar þau komu upp svo útsýnið var ekki nógu gott. Við hin héldum af stað í átt að gili sem heitir Víðagil og slær held ég allt út í litadýrð, bláhvítt, svart og svo allir gulu og bleikulitatónarnir. Síðan er gengið meðfram Þilgili eða Kambagili, en þar eru rauðir þilflekar eftir endilöngu gilinu. Þeir voru eitt það flottasta og eftirminnilegasta sem ég sá í ferðinni, fóru inn á topp 5-listann hjá mér. Þarna uppgötvaði ég líka að ég var greinilega farin að sjóast í þessum skriðum því nú stoppaði maður alveg hiklaust í bröttum skriðum og skoðaði útsýnið (enda orðið þreytandi að skoða bara tærnar) Við vorum komin í skála svona um kl 5 en fjallgöngumenn um tveimur tímum seinna. Nokkrir tindfara skriðu snemma í bólið, orðnir lúnir en við hin tókum létta söngæfingu. Það olli söngfólki nokkrum áhyggjum að eini tónlistarkennarinn í hópnum stóð alltaf á fætur þegar söngur hófst, setti Ipod í eyrun og fór inn í herbergi sitt. Hann neitaði að vísu að það tengdist söngnum á einhvern hátt. Við létum þetta samt ekki á okkur fá. Aðeins bar á kvótabraski og virtist vera töluvert til af óseldum kvóta.
Allir voru komnir í poka fyrir miðnætti, næsti dagur yrði langur.
07.07.2008 21:44
Landsmót og rolluhey!
Það má segja að við hefðum náð í reykinn af réttunum þessa tvo dagparta(og eina nótt) sem dvalið var á landsmóti. Þetta var auðvitað veisla allan tímann. Það t.d. eftirminnilegt að sjá Ingunni litlu á Dýrfinnustöðum sýna stóðhestinn sinn, hann Hágang með afkvæmunum. Það lá ekki við að hún gæti séð yfir hausinn á honum þegar hann óð með hana á flugtölti eftir vellinum. Það var líka skemmtilegt að sveitungi minn hún Guðný Margrét skyldi standa sig svona vel í barnakeppninni.
Það urðu svo miklir fagnaðarfundir þegar við hittum þarna næstum alla Hornfirðingana sem höfðu verið að lóðsa okkur um A -Skaftafellssýsluna í sleppitúrnum. Já maður var endalaust að rekast á einhverja kunningja af öllum landshornum.
Í morgun var svo farið að slá restina af fyrri slætti. Þetta verður rolluheyið sem gefið verður um miðjan veturinn.Það er vonandi orðið hæfilega úr sér sprottið svo rollurnar springi ekki alveg. Þetta voru um 4 ha. hér heima og 8 ha . í Seli.
Þá er eftir að heyja fyrir Hestamiðstöðina og ekki má það hey verða of orkumikið því offita er orðið stóra vandamálið í hestamennskunni.
Það var svo ekkert vinnuveður í dag, logn, sól og tuttugu stiga hita.