Færslur: 2008 Apríl

16.04.2008 00:09

á fullum sving.

  Hér var allt á fullum sving í dag/gær . Yngri bóndinn fór í mykjudreifinguna en sá eldri í mjaltirnar og gegningarnar. Það að vera með 15 tonna dreifara er bylting í afköstum frá 5 tonna dæminu því mesti tíminn fer í millikeyrslurnar..  Byrjað var á nýræktunum og það var akkúrat mátuleg frostskán til að koma í veg fyrir allar skemmdir. Aðalhaughúsið verður líklega tæmt á morgun  en þá er eftir að hræra upp í því gamla og dreifa því. Notalegt að sjá túnin dökkna hvert á fætur öðru og ekki skemmir að vestangolan sér til þess að mengunarvaldurinn sleppur við peningalyktina.  Og Kolbrún Katla kom í fjósið með afa og ömmu. Sjái hún afann í drullugallanum heimtar hún að komast út og ef amman er komin í gallann sinn,  þá þekki ég engan sem getur komið í veg fyrir að hún sláist með í för.

Það var síðan afgreitt bygg á sturtuvagn og ásamt hreppstjóranum,  tekið á móti tugum tonna af byggfræi á akrana í Eyjarhreppnum sáluga og dagurinn endaði síðan með hreppsnefndarfundi. (Sem eru alltaf rosalega mikilvægir.) Svo er verið að segja að það sé aldrei neitt að gera í sveitinni.

14.04.2008 23:24

Allt á áætlun.

  Það bjargaði deginum gjörsamlega þegar Jón í Kolviðarnesi hringdi í hádeginu og kvaðst ætla að drífa í að valsa 10 tonn af byggi. Það er nefninlega þannig með blessað byggið að á annríkistímum tekur stundum í, að gera það klárt og afhenda það. Ég gat því klárað að hræra upp í haughúsinu. Reyndar er fyrsta hræring ekki fullkomin frekar en sitthvað fleira sem ég geri. Haughúsið er fyrrverandi vélgengur fjárhúskjallari og það er ákaflega ríkt í okkur hér sem og mörgum bændum þessa lands að gjörnýta allt haughúspláss til hins ýtrasta. Þegar mykjan er komin uppundir burðarbitana (2.5 m) er takmarkað hvað dælan hrærir frá sér þrátt fyrir að dótið sé öflugt sem notað er. Dreifarinn kemur í kvöld og dreifing hefst í fyrramáli. Spurningin er sú hvað hlýnar hratt næstu dagana því frostskánin er ekki þykk. En þetta er allavega allt á áætlun og magasýrurnar í lagi í augnablikinu. Ég gat meira að segja tekið smá aríu með hundana og nýi nemandinn sem fór nú í annað sinn í kindur á lífsleiðinni(held ég) er bráðefnileg þó hún sé örari en systirin sem er tær snilld.

      Já og Árni kaupamaður og Elva fá hjartanlegar hamingjuóskir úr sveitinni með litla kútinn. Hér verður trúlega að fara að stækka búið svo eitthvað verði að gera fyrir væntanlega kaupamenn.

13.04.2008 23:21

Vorstressið.

  Nú fer í hönd gamalkunnur tími þegar manni finnst allt þurfa að gerast á nokkrum dögum og ekkert gangi. Svona hefur þetta verið og svona verður þetta trúlega meðan verið er að reyna að halda sjó í búskaparbaslinu. Alltaf hefur þó vorið komið og farið misgott eða miserfitt og veturinn varla byrjaður þegar farið er að hlakka til þess á nýjan leik. Og nú brestur það á í vikunni.(Enginn heyrt þennan áður). Dagurinn í dag var síðan eyðilagður með tilgangslausum fundi(skyldumæting) og  trúlega tveir framundan í vikunni en þeir munu væntanlega skila einhverju. Ótrúlegt hvað menn sína einbeittan brotavilja í að setja alla fundi á apríl. Það var fullyrt við mig á dögunum að þetta væri arfleifð frá þeim tíma sem fjósaskóflan var aðaláhaldið við snjómoksturinn á afleggjurunum og aðalvegirnir voru opnaði tvisvar til þrisvar í viku. Ekki verri skýring en hver önnur. Reyndar veit ég hver skýringin er, en held henni fyrir mig, enda ekki vanur að slengja einhverju fram sem gæti sært einhverja viðkvæma sál. Þó hreinskilni sé góð er hún eins og annað best í hófi.
Flettingar í dag: 1504
Gestir í dag: 18
Flettingar í gær: 1220
Gestir í gær: 122
Samtals flettingar: 806637
Samtals gestir: 65282
Tölur uppfærðar: 2.4.2025 09:52:20
clockhere