Færslur: 2008 Febrúar
17.02.2008 13:17
Þorrablót á Lýsuhól.
Já við lentum á þessu fína þorrablóti í Staðarsveitinni. Þessi blót eru til skiptis á vegum Staðsveitunga eða Breiðvíkinga og héldu Breiðvíkingar það í þetta sinn.
Þarna er hefðin sú að þeir sem standa fyrir blótinu gera miskunnarlaust grín að íbúum hins sveitarfélagsins. Þegar skeytin voru sem beinskeittust heyrðist stundum muldrað . Bíðið þið bara þangað til næsta ár. Þarna voru mætt hátt í tvö hundruð manns en húsið tekur léttilega um tvöhunduð í sæti(án þrengsla). Það skemmtilegasta við prógrammið var að talsverður hluti þess var í bundnu máli og alveg prýðilega ort, en ekki er öllum gefið að geta ort góðar gamanvísur. Og það var tekið á móti gestunum með brennivínsstaupi og hákarli.
Þarna er hefðin sú að þeir sem standa fyrir blótinu gera miskunnarlaust grín að íbúum hins sveitarfélagsins. Þegar skeytin voru sem beinskeittust heyrðist stundum muldrað . Bíðið þið bara þangað til næsta ár. Þarna voru mætt hátt í tvö hundruð manns en húsið tekur léttilega um tvöhunduð í sæti(án þrengsla). Það skemmtilegasta við prógrammið var að talsverður hluti þess var í bundnu máli og alveg prýðilega ort, en ekki er öllum gefið að geta ort góðar gamanvísur. Og það var tekið á móti gestunum með brennivínsstaupi og hákarli.
16.02.2008 10:43
Þorrablót og afadagar.
Nú standa blótin sem hæst hér á sunnanverðu nesinu en Austurbakkamenn héldu sitt loksins í gær eftir að hafa frestað því vegna þrálátrar austanáttar sem þeir óttast öðru fremur. Miðað við hversu hressir þeir eru sem sóttu það héðan, hefur þetta trúlega ekki verið nema þriggja stjörnu blót. Þó skilst mér að skemmtiatriðin hafi verið með besta móti og jafnvel toppað árið sem öll atriðin voru flutt í þremur útfærslum svo menn næðu þeim örugglega.

Undirritaður mun ásamt sinni heittelskuðu blóta þorrann í Staðarsveitinni í kvöld svo fremi sem heilsan hjá henni leyfi.( Nú verður dekrað við hana í dag sem aldrei fyrr.)
Dótturdóttirin sem er ársgömul síðan í sept. er í leikskóla 3 daga vikunnar og er föstudagurinn og stundum fimmtudagurinn líka, svona afa og ömmudagur. Hún bætir nú ört við orðaforðann og áttar sig jafnframt sífellt betur á því að afinn og amman gera allt sem hún biður um. (Það er dálítið síðan ég tók þá ákvörðun að fara ekki með henni gegnum stórmarkað næstu árin.)


Skrifað af svanur
15.02.2008 09:16
Heilfóðrun og heilsufar.
Bændurnir voru Á faraldsfæti í gær. Sá yngri fór á fyrirlestur//námskeið um fóðrun kúa í lausagöngnu og undirritaður átti erindi austur á Selfoss.
Sá sem á námskeiðið fór kom til baka sannfærður um að heilfóðrunin væri kannski ekki akkúrat það sem vantaði í Dalsmynnisfjósið þvert ofaní hugmyndir undirritaðs. Fyrir þá sem vita kannski ekki um hvað málið snýst er heilfóðrun tækni þar sem blandað er saman mismunandi fóðri í þartil gerðum mixara. Eftir að blönduninni er lokið eru síðan margskonar útfærslur á mjög tæknivæddri fóðrun kúnna. Til þess að koma þessu á þarf þriggja fasa rafmagn og auðvitað fullt af peningum í breytinguna og þar sem hvorugt er fyrir hendi má segja sem svo að þetta hafi verið nytsamlegt námskeið.
Af Selfossferðinni fer hinsvegar fáum sögum nema ég hef aldrei á æfinni lent í þvílíkri svarta dj. þoku fyrr. Það var dólað vestur yfir heiðina í bílalest á 20 - 30 km hraða og ekkert sást nema ljósin á næsta bíl fyrir framan. Hann hefði getað leitt mig uppá fjöll ef því hefði verið að skipta. Reyndar renndi ég í kaffi í Hlað(dótabúð) á leiðinni austur og þar fékk ég svo margar tófusögur með kaffinu að nú fer eitthvað að gerast enda vaxandi tungl. Af heilsufari á heimilinu eru ekki góðar fréttir því húsmóðirin treysti sér ekki í vinnuna í dag og þá er hún mikið veik. Ekki fæst samt nánari lýsing á ástandinu en það að hún sé að deyja sem er alls ekki tímabært enda gert ráð fyrir því að hún ráðskist með mig næstu 30 árin a.m.k.
Og það fór eins og mig grunaði að nú koma í ljós mikil svellalög á túnunum í hlákunni.
Skrifað af svanur