01.02.2012 21:07

Korka Tinnadóttir toppaði tilveruna.

 Hundatamningunum var startað í dag hvernig sem framhaldið verður.

 Það voru ekki hefðbundnar aðstæður, því byrja þurfti á því að troða slóð út á nothæft kennslusvæði áður en ballið hæfist.



 Það var dálítill spenningur hjá þjálfaranum því nú átti að fara í fyrsta sinn með 3 tíkur í alvöru kennslustund en engin þeirra var komin með vinnuáhuga í nóv.

  Mér finnst reyndar ágætt að byrja einhversstaðar í nógu rými þar sem ekki er hætta á að kindurnar þrengi sér upp að húsvegg eða girðingu til að verja sig.

  Þegar til kom fannst mér áhuginn hjá þeim systrum Æsu og Spes ekki alveg kominn á rétt stig en þær eru rétt um ársgamlar. Mamma þeirra hún Dáð var reyndar orðin ívið eldri þegar hún var komin í tamningartækt form svo ég er alveg slakur enn með þær.



 Þær  hringfóru samt hópinn í ágætri fjarlægð og hér er Æsa  að stoppa ærnar af. Ég reikna nú samt með að halda aðeins áfram með systurnar sjá hvernig málin þróast.

 Það var hún Korka Tinnadóttir frá Miðhrauni sem kom skemmtilega á óvart en hún er aðeins yngri en systurnar.

 Tilfinningarnar hjá bóndanum voru blendnar þega hann sá hana fara fyrsta hringinn því nú er rétt rúmt ár síðan ég byrjaði að temja Tinna sáluga.



 Það var bara eins og hann væri mættur til leiks á ný. Vinnufjarlægðin og taktarnir þeir sömu.

 Það er alveg innbyggt í Korku að fara vítt fyrir , halda hópnum að mér og koma beint inn. Gamla rollan sem ætlaði að sýna þessu hvolpfífli í tvo heimana fékk tennurnar í andlitið og nart í óæðri endann á flóttanum.



 Sama yfirvegunin, svo ég stóðst ekki mátið að prófa að stoppa hana af og láta óánægju í ljós þegar skæruliðahvatirnar brutust fram.



 En snjórinn var talsvert minni fyrir ári síðan þegar Tinni var að taka fyrstu sporin í rolludansinum.



 Já þetta var ekki slæmur dagur.

28.01.2012 12:26

Krosslagðir fingur, og úrkoma í fljótandi formi.

 Nú er brugðið  til betri tíðar eins og einhver sagði og endalaus hlýindi og rigningar í kortunum. Rétt eins og þegar beðið var þurrks á rigningarsumrunum í gamla daga.

 Nú er votviðrið betur þegið og maður situr í hljóðri bæn með krosslagða fingur, andaktugur á svipinn í þeirri von að ekki linni fyrr en allir klaki er af túnum.



 Svona litu túnin út í morgun og svellin sem koma í ljós undan snjónum hafa trúlega verið þarna í um 2 mán. eða svo.

 Gæti sloppið til með kalið ef þetta tæki nú upp núna.



 Þó aðeins hluti af affalli hússins sé notaður undir planið er það eins og lítil vin í eyðimörk skafla og svella a.m.k. þegar slær á frostið og sjókomuna.



 Kemur sér vel fyrir litlu dekurprinsessuna og bræður hennar sem eru farin að skondrast úti þegar viðrar í það.

 
 Það er svo rétt að játa það, að tekið er skýrt fram í ofangreindum bænastundum að algjör óþarfi sé að vera nokkuð að eiga við snjó ofan 100 m. hæðarlínu.

 Óþarfi að vera með einhverja frekju eða óhóflegar kröfugerðir.

26.01.2012 22:36

Eyja og Miklaholtshreppur, fjárhagsáætlun og flókin stjórnsýsla.


 Hér er slóðin á hógværa og látlausa úttekt á stöðu sveitarfélagsins míns í tilefni af fjárhagsáætlun þess fyrir árið 2012. Hér.
Flettingar í dag: 229
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 219
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 803354
Samtals gestir: 65136
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:19:28
clockhere