11.04.2008 19:52

Afadagur.

  Það var rennt í morgunkaffið niður í hestamiðstöð. Að því loknu var sturtuvagninn okkar Einars græjaður fyrir skeljasandsflutningana sem Atli og hann voru að dunda við í dag. Við Kolbrún Katla fórum hinsvegar heim því nú var afadagur fram á hádegi  en þá tók ömmudagur við. Sem sagt góður dagur fyrir litlu dömuna.
 Þær bókmenntir sem eru inni í dag eru myndasögur þar sem eitthvað kvikindi er falið í hverri mynd. Nú var farið yfir myndabókina með gula andarunganum og kanínunni.
 Það þýðir ekkert að fletta þessu í einhverju kæruleysi því sú litla hefur mjög ákveðnar hugmyndir um hvernig á að fara með þessar bókmenntir.Til þess að ná upp réttu stemmingunni á að fletta ofurhægt og afinn á að spyrja með mikilli eftirvæntingu ,"Hvar er litla greyið?" og þó sú litla þekki þetta allt nákvæmlega lítur hún með spurnarumli fram og aftur um myndina og rekur síðan upp mikið fagnaðaróp og bendir á andarungann sem kíkir framfyrir eitthvað. Þá er eins gott að afinn sé klár með sín fagnaðarlæti í framhaldinu því annars fær hann mjög alvarlegt augnaráð og í versta tilviki verður að fletta til baka og endurtaka gjörninginn. Þegar afinn er búinn að fá sig fullsaddan á þessum leikrænu tjáningum finnur hann myndasögu sem farið er að lesa uppúr fyrir hana. Með því að stilla öllu rétt upp og biðja fallega þykist hún vera að lesa sjálf. Þetta fer  fram á mjög trúverðugan hátt ,augunum rennt fram og aftur um síðuna og þulið eitthvað hrognamál sem er að vonum óskiljanlegt en það er þó greinilegt að hún er mun hraðlæsari en faðirinn og tal og framburður minnir óneitanlega á afa hennar þegar hann er kominn á sjöunda glas. Að öðru leiti er ljóst að foreldrarnir þurfa að fara að sinna aganum betur , enda bersýnilegt að afinn og amman eru töluvert frjálslynd í agamálunum.

09.04.2008 23:21

Heimasíðan og höfundarétturinn.

  Áður en skilið er við boðsballið verð ég að segja frá frábærri uppákomu þar, en að loknu prógramminu kvaddi sér hljóðs (utan dagskrár) fulltrúi þorrablótsnefndar þeirra austurbakkamanna.(Kolhreppinga.) Hann hélt þarna ljómandi ræðu sem fjallaði að mestu leiti um mannkosti undirritaðs. Þetta var ræða af því tagi sem ég hefði kannski  búist við að heyra rétt áður kastað yrði úr rekunum yfir kistuna mína og var fínt að heyra um mannkosti mína nú, því það er alltaf spurning um athyglina hjá mér í hinu dæminu. Það skemmtilega var að hvert orð um mig var dagsatt en þegar austurbakkamenn fara að tjá sig um menn og málefni er ekki á vísan að róa hjá þeim hvað það varðar.. Að lokinni þessar góðu ræðu afhenti hann mér tvo DVD diska sem innihéldu skemmtiprógramm liðinna .þorrablóta þó nokkur ár aftur í tímann.
 Forsagan að þessu er sú að þarna á austurbakkanum var farið að blóta þorrann fyrir einhverjum áratugum og voru þetta til byrjunar fjölsótt blót og haldin með kröftugum hætti. Síðan fór fyrir þeim eins og Rómaveldi til forna að blótunum fór að hnigna mjög svo horfði til vandræða vegna mannfæðar. Þar kom að haldinn var neyðarfundur um framtíð þeirra og sannaðist þar hið fornkveðna að því betur reynast heimskra manna ráð sem fleiri koma saman. Þarna komust menn sem sagt að þeirri skynsamlegu niðurstöðu að til að upphefja aftur gengi blótanna þýddi ekki að beina spjótum sínum að innansveitarmönnum eingöngu í skemmtiatriðunum , heldur yrði nú að leita út fyrir hreppamörkin eftir litríkari karakterum. Er skemmst frá því að segja að með því að landa mér á austurbakkann meðan þorrinn var blótaður jókst vegur blótanna með undraverðum hætti og er nú svo komið að troðið er í húsið langt umfram öll velsæmismörk. Þegar síðan þessi ágæta heimasíða sem við erum stödd í, var stofnuð má segja að opnast hafi ný vídd fyrir þeim austurbakkamönnum. Hef ég fyrir satt, að þeir sem höfðu hina mestu skömm á tölvuvæðingunni hafi nú tölvuvæðst af fullum þunga . Fótaferðatíma hefur verið flýtt svo hægt sé að fara yfir bloggið í upphafi vinnudags. Mun sá tími mismunandi milli bæjar eftir því hversu hraðlæsir menn eru. Þegar svo fór að líða að síðasta blóti fór fyrir þeim austurbakkamönnum sem Jóakim aðalönd þegar hann steypti sér til baðs í peningatankinn sinn. Þeir misstu sín gjörsamlega á heimasíðunni minni, enda af miklu að taka af allskonar perlum, gullkornum og andlegum auðæfum. Fór fyrir þeim eins og hjáguði þeirra Hannesi Hólmsteini, að þeir höfðu minni en engan grun um að eitthvað væri til sem héti höfundarréttur. Það glaðnaði því heldur betur yfir mér þegar ég fékk afhent sönnunargögnin í beinni útsendinu á boðsballinu en því miður hef ég ekki náð að fara yfir þau enn, því frúin lánaði nágrannanum þau strax morguninn eftir og hafa þessi mikilvægu gögn ekki sést síðan. Þetta sýnir auðvitað hversu mikils virði er að hafa góð nöfn í framleiðslu sem er að öðru leiti í þeim gæðastandard sem hér um ræðir. Og nú þurfa austurbakkamenn að boða til fundar hjá sér fljótlega  og ákveða hvort byggja eigi við félagsheimilið fyrir næst blót eða vísa frá hundruðum manna.

08.04.2008 23:07

Nú er hann enn að norðan.


  Norðan blásturinn var ansi napur í dag tók vel í þar sem ég var að þvælast á fjórhjólinu  niður með Laxá og síðan austur fjöruna. Ég gat ekki stillt mig um að kíkja aðeins á tvö gren sem voru þarna í leiðinni og það hafði greinilega stungið sér tófa nokkrum sinnum í  vetur, inn í annað þeirra. Annars var deginum varið í að hræra upp í haughúsi því nú á allt að fara að gerast. Það er tveggja daga prógramm að hræra upp og síðan er 15 tonna mykjudreifari tekinn á leigu til að drífa mykjuna á túnin. Nú á að prufa að skella mykju á einhverja byggakra og sjá hvað gerist. Til að koma taði, hálmskít og skeljasandi á akrana er  tekinn á leigu fjölnota Sampson dreifari.
 Svo eru fundirnir  sem fylgja aprílmánuði að bresta á hver á fætur öðrum. Þó ég reyni að "gleyma" eins mörgum og ég get eru samt þó nokkrir sem ég vil ekki sleppa og aðrir sem ég verð að mæta á nauðugur viljugur. Ég held því þó afdráttarlaust fram að 90 og eitthvað % af þessum fundum skili ekki neinu og séu hrein tímasóun.. Það er nefninlega þannig að ég hef alltaf dálitla þörf fyrir að ganga fram af fólki. Það er þó alltaf að lagast með aldrinum.(Held ég.)
 
 
Flettingar í dag: 229
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 219
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 803354
Samtals gestir: 65136
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:19:28
clockhere