27.06.2008 00:44

Meiri þurrkur og meindýrin.

    Það var rúllað í Hrútsholti og Söðulsholti samkvæmt áætlun í eins góðum þurrki og hægt er að hugsa sér.
Við rúllum með fastkjarnavél og höfum rúllurþvermálið 140 cm. Þetta þýðir um 40 % meira heymagn en í hefðbundnu rúllunum.(120 cm.) Hagkvæmnin sem næst með þessu í plöstun og allri meðferð er dálítil og veitir ekki af . Þessir þurrkar eru farnir að verða til vandræða sérstaklega fyrir þá sem búa við þurrlendari tún. Vinur minn á Barðaströndinni sem talaði við mig í dag sagði að stefndi í vandræði þar,  tún væru farin að brenna, enda ekki komið dropi úr lofti í 3 vikur + .

 Kvöldið var síðan tekið í að slá restina af Vallarfoxinu sem var farið að leggjast þó aðeins væri eftir í skrið.  Það á að rúllast seinnipartinn á morgun. Er þá lokið fyrri slætti fyrir kýrnar en hross og rollur geta étið það sem úti frýs eða þannig.
 Yngri bóndinn fór hinsvegar að glíma við yrðlinga á greni sem hann vann á mettíma í gærkveldi. En eins og fyrri daginn er lágfóta óútreiknanleg og grenið hátt í Hafursfellinu sem við vorum búnir að bóka autt, reyndist í fullri ábúð( reyndar nýflutt á það) þegar kíkt var á það til öryggis í gærkveldi.

   Því betur sem maður telur sig þekkja tófuna því meira kemur hún manni á óvart.

  
 

26.06.2008 00:33

Þurrkurinn,landvættir og sauðfjárrækt.


  Það var þessi fíni þurrkur í allan dag. Það tók hinsvegar verulega á taugarnar að það voru hellidembur bæði fyrir sunnan mig og vestan. Ég hafði mun meiri áhyggjur af skúrunum fyrir sunnan mig enda nálguðust þeir stundum ískyggilega Vesturbakkann.
  Landvættir okkar vesturbakkamanna hafa trúlega haldið hlífiskildi yfir okkur Jóni í Kolviðarnesi sem átti mun meira undir en ég. Spurning hvort hægt væri að fá þá
( landvættina) til að verja Vesturbakkann fyrir rollum þeirra Austurbakkamanna sem eru hér til óþurftar á ökrum og túnum . Þessar rollur eru örugglega sér ræktunarlína  með mjög öflugan þrjóskuglampa í augum og þær sem best hefur tekist til með, koma alls ekki til byggða í hefðbundnum leitum heldur  er verið að tína þær  niður fram eftir vetri. Já þeir eru ótrúlega lunknir í fjárræktinni vinir mínir á Austurbakkanum .
 Við Halla Sif fórum síðan í verslunarleiðangur í Borgó því Aðalstjórinn hér er farin í fimm daga gönguferð um Lónsöræfi og geri aðrir/ar betur .Þetta er trúlega hennar sleppitúr. Enda var verslað vel inn því nú er dekurvika framundan .

  Og er svo ekki einhversstaðar landsmót í framhaldinu??
 

24.06.2008 23:22

Sláttur og stóðhestar.

                         Funi Parkersson er tveggja vetra.


  Sláttuvélarnar voru teknar fram í dag og rifnir niður 12 ha. sem er næstum því restin af fyrri slætti fyrir kýrnar.  Það hefði ekki mátt dragast lengur að slá það. Restin er 7 ha. vallarfoxtún sem er ekki komið að skriði enn. Það verður ekki slegið aftur og fær því að bíða í lengstu lög.
    Það stóðst á endum þegar slætti lauk um tvö leitið gerði þvílíkt skýfall/haglél  að annað eins hefur ekki sést hér í óratíma. Gamli veðurspámaðurinn stóð bara og gapti í forundran. Látum vera að veðurfræðingar spái tómu rugli en að ég sæi þetta ekki fyrir er ófyrirgefanlegt. Það var hinsvegar betra að fá ofaní nýslegið en fullþurrt og rúllunin á fimmtudag stendur óhögguð.
 Það var síðan farið með Funa í girðingu að Minni Borg þar sem hann verður í sumar.
Hann er orðinn eins og fjögurra v. hestur að stærð og var alveg rosalegur þegar hann óð í kringum merarnar,  alveg með réttu taktana.
 
  Nú þegar mesta stressinu er að ljúka, verður hægt að fara að sinna hestum og hundum af einhverju viti.

Eins og ágætur granni minn segir," skipuleggja nú hlutina Svanur minn".
 
Flettingar í dag: 411
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 219
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 803536
Samtals gestir: 65137
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:40:43
clockhere