28.08.2008 21:31

Byggið.



  Nú er bara beðið eftir þurrki svo hægt sé að hefja þreskinguna. Þar sem byggið er þurrkað, eru uppi nokkrar kröfur um þroskastigið og Olsokakurinn sem fyrst var sáð í, telst vera tilbúinn í þreskingu. Einar sem er ekki búinn að gleyma fokinu s.l. haust er  allur á nálum í rokspánni, en ef þetta verður s.a. átt ætti öllu að vera óhætt því hún nær sér ekki á strik hér. Það fer svo að styttast í einn Skeggluakur og svo frv.


 Olsokið fyrir rúmum hálfum mán. Vaskur á leið inní akurinn að mæla hæðina.

                    Hérna er meðalhæðin á akrinum Svanur minn.



 Lómur er nýtt yrki sem við bindun nokkrar vonir við hér á Nesinu. Sexraða, ákaflega lágvaxið(lítill hálmur) en veðurþolið. Þessi akur er að vísu um tíu dögum yngri en Olsokakurinn en hæðin á bygginu er miklu minni.



  Og hann er vel grænn enn (10 ág.) Lómurinn er með mikla títu sem losnar bæði seint og illa af. (Er mér sagt.)

 Og ef veðurkortin ljúga ekki hefst þreskingin væntanlega á laugardaginn.

27.08.2008 23:11

Dapurt í sauðfénu.



    Þegar fyrstu verðtölur í sauðfjárafurðunum litu dagsljósið um daginn vonaði ég að þær myndu fara hækkandi þegar fleiri afurðastöðvar bættust við en það rættist ekki.

   Þó flestir rollukallarnir séu þungir yfir þessum verðum, hef ég á tilfinningunni að margir þeirra hafi ekki áttað sig á hve slæm staðan er/verður.
 Það er ekki langt síðan bjartsýnin ríkti og menn voru að rétta úr kútnum eftir mögru árin.
Vítahringurinn sem menn standa nú  frammi fyrir er sá að rekstrarkostnaðurinn( olía, áburður,lánakjör) hefur vaxið alveg hrikalega en markaðurinn þolir ekki þær verðhækkanir á afurðinni sem þarf. Hærra verð þýðir  minni sölu,þ.e. neyslan færist á aðrar kjöttegundir. Reyndar fyndist manni að hækkunarþörfin ætti að vera fyrir hendi á öðrum kjöttegundum líka en sauðfjárræktin verður því miður alltaf döpur hvað arðkröfur varðar. Annaðhvort verður því að lækka tilkostnað á ferlinum eða auka aðstoðina við greinina en sú leið er örugglega ekki inni í dag.

  Því miður virðist staðan sú að þó veturinn verður þraukaður, enda búið að leggja út fyrir vetrarfóðrinu, mun nokkuð stór hluti stéttarinnar verða að setjast yfir reiknivélina að vori.

 Og menn leika sér ekki með tilbúnar tölur/áætlanir í mörg ár eins og málin standa í dag.

26.08.2008 23:15

!! Fjárhundasýningar !


  
 Það mun hafa verið á landbúnaðarsýningu í Reykjavíkinni í upphafi aldarinnar sem Smalahundafélagið  stóð fyrir mikilli kynningu og fjárhundasýningu af miklum myndarskap. Þar mættum við Skessa meðal annarra, blaut á bakvið eyrun í þeim málaflokki. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar( þrátt fyrir þurrkana í sumar) og sýningarnar tekið talsverðum stakkaskiptum hjá undirrituðum.

 Ég geri talsverðan greinarmun á innfæddum og útfæddum þegar sýning er sett upp í dag.  Aðkomumennirnir fá mun meira spjall um leitir og landbúnað yfirhöfuð og sýnandinn gerir sig nokkuð búralegan (sem er nú eðlislægt) með smalastaf og tilheyrandi. Ef enginn innfæddur er viðstaddur má svo gera ráð fyrir allskonar kryddi í umræðunni.
  Þar sem innfæddir þekkja nú orðið, margir til góðra smalahunda er lögð áhersla á dálítið ýkta framgöngu hundanna í sýningum fyrir þá. Smalastafnum er sleppt og sýnandinn gerir helst ekkert, nema opna hliðið á kindahólfinu svo hundurinn geti rekið úr því og loka því síðan að lokinni sýningu. Í báðum tilvikum eru þó í upphafi skýrðar út helstu skipanir og hvernig hundurinn á að vinna útfrá þeim. Þar sem ég er að sýna vinnuhundana mína set ég ekki upp þrautabrautir en sýni einfaldlega hvað vinnan gengur út á.

      Já er ekki rétt að opna hliðið og koma Vask í vinnuna?



 Og út skulu þær með góðu eða illu. (Fóru með góðu.)



  Kaffikrúsin í hægri hendi og hin í vasann því allt handapat er bannað.










   Þarna er verið að undirbúa skiptingu á hópnum sem gekk náttúrulega fyrirhafnalaust fyrir sig þrátt fyrir stafleysið.


          Svo þurfti að ná þeim saman á ný.



  Að lokum þurfti þó að leggja frá sér krúsina og taka hendina úr vasanum til að loka hliðinu.
  Vaskur taldi vissara að fylgja þeim inn svo þær stykkju ekki út hinu megin.

Ætli það sé svo ekki  tímabært að setja upp bindi og hafa eitthvað sterkara í krúsinni.

Athuga það næsta sumar.
Flettingar í dag: 411
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 219
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 803536
Samtals gestir: 65137
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:40:43
clockhere