04.10.2008 20:59

Kýrnar, bygg og rollur.


   Þessar annríkisskorpur eins og nú ganga yfir hér, eiga ekki vel við kúabúið. Annar bóndinn líður um byggakrana á þreskidótinu stærsta hluta sólarhringsins og hinn er eltandi sínar rollur og annarra  dag eftir dag með tilheyrandi rollustússi. Þó það sé lítið  mál að hafa rúllur á fóðurganginum og kjarnfóður í sjálffóðruninni og auðvelt að skipuleggja hlutina útfrá mjaltatímanum vantar tíma fyrir þetta smálega og er ekki á þá vöntun bætandi. Þetta gengur þó ótrúlega vel og þetta árvissa júgurbólguskot sem virðist bresta á, um það leiti sem kýrnar hætta alveg að fara út, varð ekki mjög kröftugt í þetta sinn. Hugsanlega tengist það nú frekar mörgum nýbærum og mörgum að fara á geldstöðu frekar en hýsingunni. Allavega er engin í meðferð í augnablikinu sem vonandi varir sem lengst.
  Það sér kannski fyrir endann á þreskingunni. Akrarnir í Dölunum sem yfirleitt eru teknir fyrstir sátu eftir í þetta sinn vegna tíðarfarsins og nú eru aðeins eftir um 5 ha. hjá mér, annar er dálítið lagstur og tekur snjóinn seint uppúr legunum. Hinn mætti vera þroskaðri en hann er gríðarlega sprottinn og hefur sennilega búið við of  mikla næringu, en þetta var tún á fyrsta ári í endurvinnslu.
 Það er spurning hvort hann verður tekinn á morgun og uppskerunni haldið sér,  sem lakara fóðri. Já, því nú eru gerðar strangari gæðakröfur í bygginu en áður.  Uppskeran var betri en oft áður hjá flestum ræktenda en gæsir og Álftir ullu verulegu tjóni hjá sumum. Þetta er fyrsta haustið sem veðurfarið hefur ekki valdið miklum usla þrátt fyrir gríðarlega úrkomu á lokasprettinum. Nýja íslenska yrkið, Lómurinn sannaði sig og verður notaður hér áfram( með öðru) þrátt fyrir að það gefi ekki hálm.

  Og fyrsta gæsaskyttugengið mætir hér kl. 1/2 6 í fyrramáli og þá verð ég að
 verða klár í gædið.emoticon 

03.10.2008 19:33

Zúmmað á sveitina.

  Iðunni var laus myndavélin í fyrirstöðunni/smöluninni í gær og hér eru smá sýnishorn.




  Litið niður á ættaróðalið og tjörnin sem var nánast þurr í allt sumar býr nú við góðan vatnsbúskap.




           
  Það var verið að þreskja í Söðulsholti. Óþresktu akrarnir til hægri lágu fyrir nóttina svo Einar getur farið að safna nöglunum á ný og sefur eflaust betur. ( Ja svo það eru náttúrulega fj. efnahagsmálin.)  Kolviðarnesvatnið sem var endurheimt fyrir nokkrum árum í baksýn.



  Hér er Einar að koma með tóman byggvagninn neðan úr byggþurrkun. Þrír akrar frá mér í baksýn.
Fjær til hægri sést í þreskta akra í Hrossholti. Enn fjær glittir í Austurbakkann með Eldborgina sem stendur nú alltaf fyrir sínu í sjónarhringnum hjá mér.

  Og Hafursfellið var smalað allan hringinn í dag en það kostar heilt blogg að gera þessum kexrugluðu rollum  vina minna á austurbakkanum sómasamleg skil og bíður betri tíma.

01.10.2008 18:08

Rollur/bygg!



  Já það er allt albrjálað að gera sem aldrei fyrr.  Annarsvegar þreskingin sem er á útopnu  og þrátt fyrir að akrarnir séu dálítið mikið  meyrir fljóta Sampóinn og Atli um  þá á lýginni og hvítagullið
( byggið) streymir inn í þurrkstöðina.

  Þetta er gott bygg, vel þroskað og er  um 74 % þurrefni við þreskingu sem er fínt. Með þessu þurrefni er þurrkarinn  að afkasta um 18 tonnum á sólarhring. Það segir þó lítið  þegar allir eru í stuði og því er farið að keyra byggið inná kæligólf þar sem hægt er að halda því fersku fram að þurrkun. Blásið er undir það í stuttan tíma einu sinni til tvisvar á sólarhring .

.

  Þetta er sama kerfið og súgþurrkunin í gamla daga.


  Loftstokkar undir gólfinu og fínar ristar á loftgötunum ( eins og niðurföll) sem halda bygginu og hægt er að keyra á.
     
          Hitt puðið þessa dagana eru smalamennskurnar en önnur rétt er á laugardaginn. Þá verðum við að hafa lokið annarri leit  í Hafursfellinu og fyrstu leit hér heima en þetta svæði er það eina af fjalllendi sveitarinnar sem ekki er smalað til réttarinnar. Þetta er 3 daga dæmi og þar sem aðalhlaupagikkurinn  ( fyrir utan Hyrjar) situr hátíðlegur á svipinn í þreskivélinni allan daginn verður lífið dálítið erfitt.
                            Hundarnir raða sér upp við innreksturinn.

Nú kemur sér vel að eiga þokkalega hunda og dóttur/tengdason í sveitinni ( í þessari röð). Og dieselpramminn ( fjórhjólið ) er að standa sig hvað sem aðalbóndinn segir.

  Og þetta smalagengi stóð sig alveg rosalega vel í dag .emoticon 

 
Flettingar í dag: 816
Gestir í dag: 104
Flettingar í gær: 788
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 804729
Samtals gestir: 65246
Tölur uppfærðar: 1.4.2025 17:22:35
clockhere