19.10.2008 20:41

Plægingin.


   Þegar þreskingunni lýkur hefst mikið kapphlaup við  að ljúka því að plægja akrana fyrir veturinn.
Það verður hinsvegar frekar rólegt kapphlaup þegar viðrar eins og í fyrrahaust , en þá rigndi dj. ráðlausan svo  akrarnir voru varla færir gæsunum. Þegar stytti upp, fraus óðara og akrarnir fóru flestallir óplægðir inn í veturinn.Það þýðir seinkunn á sáningu að vori og meiri hættu á magasári hjá ræktendum.  Síðustu dagana hefur hinsvegar gefið fyrir plægingu þó sumir akranna séu of blautir  enn. Nú er farið að frysta og allt bendir til þess að það muni stoppa allar plægingar fljótlega.

 Eg hélt því hvíldardaginn heilagan uppi í traktor með plóginn aftaní og það var nú ekki sem verst.


   Þessi snilldargræja er að sjálfsögðu Pöttinger  (servo 25). Tiltölulega létt týpa án vökvaskekkingar.
  

  Það eru til tveir fjórskera plógar á svæðinu sem eiga að ráða vel við þessa 110 ha. sem verið er að bylta. Annar er vel búinn með vökvaskekkingu o.sv frv. en hitt er vendiplógur sem er toppurinn á tilverunni ef ekki er of blautt, því hann er eðli málsins samkvæmt töluvert þyngri.

  Það er síðan listgrein útaf fyrir sig að plægja vel og gúrúarnir í faginu telja plæginguna ekki ásættanlega nema það sé útilokað að sjá á plægðum akrinum skil milli ferða.



      Þessi plæging er trúlega ekki nema uppá 4,5 en svo var allt stillt upp í hádeginu og restin tekin upp á 10.

  Við þurfum tæpa  tvo daga til að klára Dalsmynni og Söðulsholt en óvíst að frostið gefi kost á því.
Það á samt örugglega eftir að þiðna einhverntíma aftur. emoticon





18.10.2008 18:23

Morgunflugið og ásatrúin.


  Þegar ég var í gæsaveiðinni í gamla daga var þetta óttalegt hálfkák. Lengstum lét ég nægja að laumast eftir nærliggjandi skurðum til að komast í færi. Þegar ég hafði meira við og lá fyrir þeim var ég alltaf einn og lagði reyndar lítið uppúr magninu, kom mér t.d,. aldrei upp gerfigæsum o.sv.frv.
  Gæsaskytteríð endaði reyndar með því að haglaranum var lagt og notast var við 22 cal. riffil.

  Yngri bóndinn á bænum tekur þetta af mun meiri alvöru en samt eru einhver dularfull gen í honum því þegar morgunflugið var tekið í morgun tók hann myndavélina með og náði að sjálfsögðu mun fleiri gæsum á hana en hann mun ná á næstu árum með hinni aðferðinni.



                        Skyldu þessar kíkja við hjá þeim félögunum.



                                 Þessar hafa allavega orðið fyrir einhverju.



             Þessar hafa fengið óblíðar móttökur og telja rétt að yfirgefa svæðið.


 Það var na. strekkingur og hiti um frostmark enda Núpudalurinn hættur að vera haustlegur.
   Það var hrollur í félögunum  en 40 gæsir gerðu þennan morgun góðan.
 Það er svo flottar myndir inn á gæsaveiðaalbúminu bæði fyrir þá með veiðináttúruna og hina sem vilja kaupa kjötið sitt í Bónus.

  Ég horfði svo á dómstól götunnar í kvöldfréttunum og þó mér finnist fyrir löngu kominn tími á seðlabankastjóra keypti ég ekki aðferðafræðina né rökin fyrir henni.
 Ég féll hinsvegar fyrir Ásatrúaliðinu þó Allsherjar og Kjalnesingagoðar hefðu mátt vera ögn skörulegri. Kannski verður bara farið að blóta á laun í sveitinni.emoticon

16.10.2008 19:58

Hrossaat.


 Stóð Hestamiðstöðvarinnar var allt rekið heim í dag þar sem einhverju þurfti að ná og kíkja á helv. holdhnjóskana. Þar sem það var rigning og skítaveður fékk ég náttúrulega að taka þátt í því.

 Hrossin eru í hólfi í Hrossholti sem ekki hefur verið beitt áður, en í tamningafríinu voru drifnir upp nokkrir km. í girðingum þannig að 3 ný hólf urðu til. Það var gaman að stilla sér upp í restina og horfa á hópinn renna framhjá, þó þessi árstími sé kannski ekki til þess fallinn að hrossin sýni sitt besta. Ég gaf höttótta Álfsyninum honum Ábóta hans Einars, hæstu einkunnina af folöldunum þegar hann óð áfram á flottu tölti næstfremstur í hópnum á eftir móðurinni, Sunnu frá Akri.



 Hágangssonurinn okkar Einars, já og afastelpan á 10 %, hann Sindri frá Keldudal , sem er á fjórða vetri er kominn á hús og aðeins farið að eiga við hann. Tamningafólkið gefur honum 10 + fyrir geðslag og traustleika. Svo er spurningin hvort hann búi yfir einhverju fleiru.

  Það voru að byrja hnjóskar í 4 hrossum sem voru þar með tekin á hús nokkru fyrr en annars hefði orðið.

 
Flettingar í dag: 2678
Gestir í dag: 84
Flettingar í gær: 668
Gestir í gær: 92
Samtals flettingar: 650776
Samtals gestir: 57960
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 07:13:56
clockhere