02.11.2008 22:57

Ein er upp til fjalla.


 Rjúpnaveiðin byrjar óvanalega illa í ár og hefur þó oft ýmislegt gengið á.

  Hjá mér endaði hún dálítið snautlega fyrir margt löngu en ég stundaði hana í nokkur haust.
Á þeim árum voru menn frekar slakir í skotvopnahaldinu og byssuleyfunum og fyrst var ég með einskota rússneskt dreifararör sem mágur minn skildi eftir hjá mér svo ég hefði eitthvað til að halda á í eftirleitunum. Á þessum tíma, meðan ég var vel innan við tvítugt þurfti að hafa fyrir hlutunum og hvorki voru til fjórhjól eða snjósleðar til að djöflast á um fjöllin heldur voru notaðir tveir jafnfljótir. Já þetta var stundum alveg rosalega mikið labb.
 Þar sem rjúpan var ekki elduð á hótel mömmu, gaf ég veiðina oftast, enda var aldrei um stórar aflatölur að ræða. Reyndar þróaðist rjúpnaskytteríð með sama hætti og í gæsinni og síðasta haustið var ég eingöngu með litla riffilinn í eftirleitunum. Litli riffillinn var í eigu bróður míns sem geymdi hann í sveitinni. Ég var orðinn dálítið lunkinn með hann en það trúði mér nú enginn þegar ég sagði frá þessum tveim sem lágu í sama skotinu. En allt um það, þegar komnar voru 17 rjúpur á snúrustaurinn hætti ég að taka riffilinn með og lét nægja að telja rjúpurnar sem ég hefði náð ef hann hefði verið með í för.
  Þegar ég tók mig síðan til seinnipart vetrar og henti rjúpunum 17 sem höfðu tollað á staurnum um veturinn, tók ég þá ákvörðun að þar með skyldi mínum rjúpnaveiðum lokið. 

  Stundum biðja menn um leyfi til rjúpnaveiða hjá mér og ef það er einhverjir lítt kunnugir er svarið einfaldlega nei.
 Með vini og kunningja er þetta ögn erfiðara þartil mér hugkvæmdist það að segja þeim að ég leyfði nú ekki rjúpnaveiði en það verpti  rjúpa í garðinum hjá mömmu, sem væri þar með ungana, og þeir skyldu bara tala við hana!

 Og ég er svo löngu hættur að telja þær sem ég hefði hugsanlega náð.emoticon 

 

31.10.2008 12:03

Betri tíð með???


 Nú hefur veðurguðinn skipt um gír, 4 st hiti, niðaþoka í sveitinni og rigning.

 Það er dálítið síðan ég óskaði eftir endurskoðun á vetrarkomunni því hér átti eftir að létta á haughúsum fyrir veturinn og það þarf helst að gerast á auða jörð. Nú er bara að vita hvort snjórinn verði fjarlægður og friður gefist til þess.

  Hvað um það, ég er allavega farinn í frí um helgina með minni heittelskuðu og mun ekki stressa mig á snjó eða snjóleysi á meðan. Því síður að nokkurt krepputal verði leyft um sinn.

Gangið svo hægt um gleðinnar dyr um helgina. emoticon

30.10.2008 09:28

Hrossasprautun.


   Í gær var hrossastóð Hestamiðstöðvarinnar rekið  heim og sprautað fyrir ormum og lús.

Þetta er dálítill floti þrátt fyrir að hellingur sé kominn á hús og lá við að væri leikur í sumum enda búin að vera á lúxushaga undanfarið.



          Og eins og þið sjáið er dálítið vetrarlegt núna í þessum nafla alheimssins.

 
Tittirnir eru komnir inn um stundarsakir til þess að fara aðeins um þá höndum.
Ég sé nú reyndar bara einn þeirra ef ég á leið um hesthúsið. Sá lét ófriðlega í stíunni sinni meðan verið var að meðhöndla stóðið í ganginum.



                         Já hann Funi frá Dalsmynni er langflottastur.

  Hrossin litu mjög vel út og engir nýir hnjóskar sjánlegir þó sumum gæti verið orðið hætt, svona eins og hárafarið væri að verða úfið á lendinni.

 Svo rakst ég á aðra tvílembuna sem vantaði á heimturnar, á stað sem síst skyldi!!!

 Óvæntu uppákomurnar eru bestar.emoticon 


 
Flettingar í dag: 411
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 219
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 803536
Samtals gestir: 65137
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:40:43
clockhere