29.11.2008 09:08

Hérar og Hart í bak.

 




Gærdagurinn sem byrjaði frekar illa og endaði ágætlega, var týpiskur þvælingsdagur sem ég hefði haft gaman af fyrir margt löngu , en umber núna með kristiIegri þolinmæði.

 Strax og frúin hafði lokið kennslu var lagt af stað í bæinn með stoppi í Borgó. Eftir að hafa skilað henni af mér til föðurhúsanna, (samt ekki endanlega) var brunað á Selfoss. Þar átti að hefjast fundur kl. 3 og þar sem nú var  orðið  ljóst  að bóndinn væri að falla á tíma, voru náttúrulega öll hraðatakmörk nýtt til hins ýtrasta. Eins og alltaf þegar sú staða er uppi, lendur maður f aftanvið gamla konu sem hefur að sjálfsögðu sína hentisemi í umferðinni. Þegar sú gamla lendir síðan aftan við enn eldri konu er gott að gengnir rebbar hafa þjálfað undirritaðan vel í þolinmæðinni.

  Eftir að hafa kvatt gömlu konurnar, sem eru fyrir löngu búnar að átta sig á því að nokkrar mín. á leiðinni R.vík- Selfoss skipta ekki nokkru máli í lífshlaupinu, var ég svo heppinn að lenda aftan við "héra" sem  ég hélt í hæfilegri fjarlægð fyrir framan mig að Hveragerði. Hérar eru ökumenn sem aka á þeim hraða sem hentar mér og eru tilbúnir að taka áhættuna fyrir mig  gagnvart vökulu auga löggæslumanna. Alltaf þegar  ég fer norður yfir heiðar eru slíkir ökuþórar vinsælir þegar ekið er um húnaþing en það ágæta hérað reynir alltaf mjög á akstursþolinmæðina einhverra hluta vegna.

 Þó að ég mætti svo í seinna fallinu gat ég sagt eins og kunninginn sem lætur gjarnan bíða eftir sér, hvort sem verið er að leggja á, eða funda." Það gerist ekkert, fyrr en ég kem."

  Það var svo ekki nóg með að fundurinn yrði mun betri en reiknað var með , heldur lauk honum á skikkanlegum tíma svo það var ekið héralaust í bæinn. Laxinn sem tengdamamma bauð uppá í kvöldmatinn hafði greinilega verið valinn af mikilli natni og lögð alúð við matseldina.
Þar sem  laxfiskur er ekki ofarlega á vinsældarlista minnar heittelskuðu, öfugt við mig styrkir þetta vonir mínar um að tengdamamma muni að lokum fyrirgefa mér það, að hafa komið í veg fyrir að eldri dóttirin kæmi með  almennilegan tengdason inn í ættina.

 Eftir að hafa séð Hart í bak í þjóðleikhúsinu var mennskælingurinn sóttur og síðan brunað í sveitina. Allir ábyrgðarfullir feður skilja þá ánægjutilfinningu að hafa dótturina í öryggi sveitarinnar sem oftast, á þessum viðsjárverðu tímum, þó fumlaust og ábyrgt uppeldi hafi skilað sér fullkomlega.

 Þetta þýðir samt að ég verð að þola tvöfalt kvennaofríki um helgina.emoticon 
 

27.11.2008 20:21

Mjaltabásinn og Remfló


  Snillingarnir frá Remfló mættu hér í gær í árlegt eftirlit á mjaltabásnum.

 Þar sem hann er orðinn fjögurra ára var þetta aðeins meiri yfirhalning en undanfarin ár og mjöltum seinkaði um klukkutíma fyrir vikið. Það má segja að básinn hafi gengið þegjandi og hljóðalaust þessi ár og gerir vonandi áfram því eðli málsins samkvæmt gengur ekki að hann sé með einhverjar uppákomur  dags daglega.



 Nú mættu nýir menn frá nýjum eiganda, því Jötunn Vélar á Selfossi keyptu fyrirtækið og nú er það flutt í húsnæði Jötunn Véla,  og er að auka vöruúrvalið hröðum skrefum.
Meðal annars skilst mér, að nú geti ég fljótlega farið inná netverslunina þeirra og verslað mér þurrfóður fyrir hundana með frírri heimsendingu.


  Og þessi framleiðslugræja hér er að mjólka yfir 40 l. á dag. Hún heitir Randalín frá Álftavatni og er ekki að spyrja að þeim Snæfellsbæingum.

  Hinsvegar er að fara fyrir henni eins og flestum íslenskum kynsystrum hennar sem komast í góða nyt, að júgrin eru ekki gerð fyrir þessi afköst, slitna niður og þetta endar síðan með allskonar skelfingum fyrir kúna og bóndann.

En nú er það ekki landnámskúin sem veldur andvökunóttum undirritaðs heldur íslenska krónan sem verður aldrei treystandi sem alvörugjaldmiðli framar.emoticon




26.11.2008 22:09

Pestir og krepputal.


  Mér finnst vont að vera veikur. Þá verð ég lítill í mér og sjálfsvorkuninn fer í hæstu hæðir.

  Eftir að fyrrnefnd sjálfsvorkunn hrakti mig inn úr gegningunum strax að loknum mjöltum reyndi ég að koma mér vel fyrir og gera mér þjáningarnar sem bærilegastar. Verst að mín heittelskaða var í vinnunni svo það gat ekkert kvabb verið í gangi.
 Vandamálið var, að þegar ég fór að hlusta á útvarp og renna í gegnum póstinn á netinu blöskraði mér alveg hvernig menn eru alveg á útopnu að tala sig inn í kreppuna. Þetta hafði hreint ekki góð áhrif á magasýrurnar sem voru líka í ákaflega slæmu ástandi fyrir.

  Nú var hver spekingurinn tekinn í viðtal á fætur öðrum til að spá falli krónunnar þegar hún verður sett á flot. Það er nokkuð ljóst að bara þessi umræða mun steypa henni niður í dýpstu myrkur enda dettur ekki nokkrum útflutningsaðila í hug að skila inn í landið gjaldeyrinum sem fellur til við viðskiptin. Rétt að bíða eftir meira falli krónunnar..

  Nú þegar ég er endanlega orðinn munaðarlaus í pólitíkinni, hlustar maður á stjórnmálamennina sem telja sig vera hreinar meyjar, í svikamylluhruninu. Þegar mér heyrist á þeim að þessar lántökur séu tómt rugl og látið eins og íslendingar geti valið úr lánum og helst sett lántökuskilyrðin sjálfir, þá detta mér allar dauðar lýs úr höfði. Svo þegar einn góður birtist á skjánum í kvöld og náði ekki upp í nefið á sér fyrir þessar dj. afskiptasemi í Alþjóðagjaldeyrisvarasjóðnum rifjaðist upp fyrir mér að hann hefur verið manna ötulastur að berja á álverum og slíkum óþurftarfyrirtækjum. Þegar hinsvegar kom til tals að setja niður áburðarverksmiðju í blómlegu landbúnaðarhéraði leist honum vel á það og virtist ekki hafa neinar áhyggjur af því að eitthvað óhollt slæddist þar með.

 Og Össur kallinn talar um stækkun á Straumsvík og álver í Helguvík sem ákveðinn hlut.

  Hversvegna Þórunn bjarndýrasérfræðingur er ekki látin tjá sig um það, er skortur á góðri fréttamennsku.

Já, svona skrifa veikir menn.emoticon
Flettingar í dag: 2678
Gestir í dag: 84
Flettingar í gær: 668
Gestir í gær: 92
Samtals flettingar: 650776
Samtals gestir: 57960
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 07:13:56
clockhere