19.12.2008 19:54

Comment ,trippi og dekk



  Það er eitthvað ólag á commentadæminu hjá 123 svo ég verð að svara sjálfheldukommentum hér.

  Ég veit að Ransý er aftur komin í jólaskapið eftir hrollvekjuna, því þær mæðgurnar voru búnar að baka svo  myndarlega fyrir jólin.. 
 Þessar kindur báru svo beinin á norðanverðu nesinu, Þorleifur, og eigandinn er fyrrverandi samstarfsmaður þinn í smíðunum.
 Þetta var snyrtilega gert hjá sjoppueigandanum , Bjarni, eins og við var að búast. .Allar bógskotnar á þessu færi.

 Fyrsti tripparekstur vetrarins var svo á tamningastöðinni í dag og fékk stærsti hluti hrossanna að hlaupa.



  Hér eru þau klár í reksturinn sem fengu að fara í þetta sinn. Þau byrjuðu nú á að hlaupa niður stýrispotta að fengu smá aukakrók.



  Þarna er það Vinur sem leiðir hópinn en svo var það Korinna sem var hin sprækasta og tók forystuna öðru hvoru. Það er farinn nokkurra km. hringur og við Dóri vorum í hæfilegri fjarlægð á hjólunum til að halda þeim á leiðinni. Þau voru nú ekki eins hlaupaglöð og  þau verða seinna  í vetur og þetta endaði á gutlferð í restina. Það var ansi napurt og benzínþumallinn við frystingu um það er lauk.  Og eins og sést á myndunum er orðið jólalegt og þetta var dagsbirtan sem boðið var uppá í dag.

 Svo var ekki undan því vikist lengur að koma frúarbílnum á vetrardekkin en hann var á upphaflegu dekkjunum, sem eru komin í 34.000. km. og a.m.k. eitt sumar eftir af þeim enn.
 Eftir að við Hölli í Bifreiðaþjónustunni höfðu krufið landsmálin og svikamylludæmið, gerði ég upp, og þrátt fyrir jóla, kreppu, og stórviðskiptaafslátt tókst Hölla ekki að koma þessu neðar en í 124.000. Ég vona að það eyðileggi samt ekki jólin fyrir honum.

  Og svínnelgd  dekkin komu mér svikalaust heim í hálkunni á ásættanlegum hraða.emoticon

18.12.2008 09:16

Lán í óláni.


  Ég hef oft upplifað það á lífsleiðinni hvernig tilviljanirnar virðast ráða ferðinni á ótrúlegasta hátt.
Röð tilviljana valda óhappi og önnur röð tilviljana forða kannski stórslysi.
 Á ferð um  Grundarfjörð á þriðjudaginn kom ég að, þar sem flutningabíll frá Frostfiski hafði lent útaf veginum og fram af um 10 m. háum snarbröttum sjávarbakki í mynni Hraunsfjarðar.


 Hann hittir nákvæmlega á að fara hér niður bakkann á skarði sem var í sjávarbakkanum.


 Ef hann hefði verið bílbreiddinni nær veginum hefði bíllinn lent á gaddfreðnu barðinu með ekilshúsið  og bíllinn fulllestaður. Bílbreiddinni utar hefði hann steypst fram af þverhníptum bakkanum trúlega með svipuðum afleiðingum.



  Hér er búið að fjarlægja flutningabílinn og verið að tæma tengivagninn sem var hlaðinn fiski.
Það fór betur en áhorfðist og bílstjórinn slapp ótrúlega vel , illa marinn en óbrotinn.

Já, ekki verður feigum forðað eða ófeigum í hel komið.emoticon

16.12.2008 20:08

Kindur í sjálfheldu.

 
 Þær voru komnar í sjálfhelduna einn morguninn snemma í ágúst.
Tvær ær og 3 lömb.
Sú von að þær yfirgæfu sylluna af sjálfsdáðum sem örfá dæmi voru um, brást.
Ekki dugði að síga til þeirra því þá leituðu þær út í endana sem enduðu í snarbröttum fláa.


 Rauðu örvarnar ( næstneðstu syllunni, ganginum) vísa á þær þrjár sem eftir voru, en tvær hröpuðu í s.a. hvellinum á dögunum.

 Þeirra beið því að hrapa til dauðs, annaðhvort við að teygja sig eftir gróðri þegar fór að þrengjast um beit eða vegna ísingar .

 Ég var mættur þarna um kl. 3  í dag. Ekki með hundana og Sakóinn var líka skilinn eftir heima. Það átti að gera tilraun til þess að skjóta féð enda orðið haglaust í syllunni. Það var talið að færið væru 3- 400 m. og ég var ekki tilbúinn að reyna  aflífun dýra á því færi. Með í för var því annar félagi minn úr grenjavinnsludeildinni, ein af bestu riffilskyttum landsins.

  Það er óhætt að segja að okkur félögunum leist ekki á blikuna þegar við litum á aðstæðurnar neðan af jafnsléttu. Ekki nóg með að fjallið og aðstæðurnar væru ógnvekjandi heldur var  farið að kula hressilega, en á svona löngu færi setur hliðarvindur verulegt strik í reikninginn.



    Efri hringurinn er hægra megin við miðju í þriðju syllu (gangi)  ofan frá. Skotstaðurinn vel til hægri ofarlega í hlíðinni.

  Ef vel er gáð sést hringur utanum féð hátt í klettunum og annar hringur neðan við klettana þaðan sem skotið var.



            Aðstæður metnar og vegalengdin mæld. Færið var 313 metrar.

 Góð riffilskytta þarf að þekkja riffilinn sinn vel , feril kúlunnar, áhrif vinds o.sv.frv.
Þarna var skotið bratt upp í móti sem þýddi minna fall kúlunnar en væri skotið lárétt.
  Sem betur fer hafði ég engu logið að bóndanum, þegar ég fjölyrti um hve mikla snilldarskyttu ég myndi koma með, og almættið stóð greinilega með okkur við verkið, því það datt á dúnalogn þessar fáu mínútur sem þetta tók. Þrjú skot, þrjár kindur. Svo kulaði hraustlega  ný.



  Ærin skoðuð og það  létti yfir bóndanum þegar hann sá að hún var ekki farin að líða skort þrátt fyrir ótíðina.

  Skyttan og bóndinn voru mun léttari á fæti niður fjallið en upp, ánægðir með farsæl málalok.



  Jalonen riffillinn klikkaði ekki frekar en fyrri daginn og kíkirinn er  Zeiss  6 X 24.


   Það var þétt handtakið hjá bóndanum, þegar hann kvaddi okkur félagana. 

Flettingar í dag: 411
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 219
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 803536
Samtals gestir: 65137
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:40:43
clockhere