02.11.2015 09:05

Tamdir hundar og hundvant fé.


 Nú þegar styttist í að fé verði tekið á hús og sauðfjárhringekjan rúlli af stað á nýjan leik er hollt að hugsa um hringekjuna síðasta rolluárið.

 Ég á væntanlega eftir a.m.k. tvo fjallaskreppi til að ná fé sem vitað er um og reyna að útiloka að eitthvað sé enn á róli hér í fjöllunum.

 Nú eru síðustu forvöð fyrir þá sem ætla að koma sér upp hundi fyrir næsta haust að fara  á stjá og verða sér úti um nokkurra mánaða hvolp sem hægt yrði að vinna í seinnipart vetrar og næsta sumar.  

   Þeir sem þurfa að endurnýja gamla snillinginn ættu heldur ekki að draga það of lengi því þeir eru í vondu máli ef hann myndi nú fara að eldast hratt á lokametrunum og of seint að hringja í mig næsta sumar og spyrja hvort ég viti nokkursstaðar af grunntömdum hundi sem væri betri en ekkert í haustvinnunni.emoticon

 Framboðið af slíkum hundum er nánast ekkert.

 Reyndar er þeirri skoðun minni, að þeir sem þekkja góða hunda  og treysta á þá megi ekki  eiga færri en tvo tamda, aldrei haldið of oft fram  emoticon  . 

 Hér eru svo nokkur myndskot af tömdum hundum í heimasmali og innrekstri, með hundvant fé.   Smella hér

31.10.2015 22:51

Tamningatrimmið.

Það er mikilvægt fyrir atorkusama vinnuhunda að fá hæfilega hreyfingu daglega og reyndar alla hunda.

  Þó hundarnir hjá mér séu lausir stund og stund  með allt á útopnu auk vinnu þeirra sem eru í námi, reyni ég að komast sem oftast með allan hópinn í smáskokk, helst nokkrum sinnum í viku.

   þá gengur stundum mikið á og eins gott að það er enginn fénaður á leiðinni. 

 Hér  á myndbandinu eru t.d. með í för tvö ný, sem mættu á svæðið daginn áður. 
Eftir svona ferð eru þau komin rækilega inn í hópinn og engar áhyggjur af þeim meira.

   En hér er slóðin á trimmferðina.  Smella hér.

27.10.2015 20:29

Mánaðartamning, - úttekt.


 Nú fer að sjá fyrir endann á  mánaðartamningunni sem fylgdi í pakkanum þegar selt var úr gotinu hennar Ronju, á fyrstu 3 hvolpunum/hundunum.

 Þeir eru f. 16 nóv og eru því að verða ársgamlir.

  Við söluna á þeim var samið um mánaðartamningu í fyllingu tímans og að kaupendurnir mættu skila þeim ef þeim litist ekki á það sem þá kæmi í ljós.

 Sá fyrsti var útskrifaður í dag. 

Kjói frá Dalsmynni.



  Það er svo að sjálfsögðu ákaflega mismunandi hver staðan er á nemendum eftir 1 mán. tamningu.

  Það er ekki nóg með að kennarinn sé eins og hann er, heldur er ákaflega misjafnt hversu nemendurnir eru vel af guði gerðir og hvaða veganesti þeir mæta með frá uppalendunum.

  Þegar farið er með nokkra hunda á dag í kindur til tamninga þá er það ákaflega mikils virði fyrir tamningamanninn ( allavega mig emoticon ) að þetta séu áhugaverð dýr að vinna með. 

 Það er jafn skemmtilegt að taka tíma með hundi sem er spólandi af áhuga og réttu taktana inngreypta í hausnum,   og það er  laust við öll skemmtilegheit að reyna að kveikja áhuga hjá daufum nemanda sem er svo kannski með takmörkuð vinnugen sem beinast ef til vill í ýmsar áttir. 

Að vera að vinna með nokkra slíka í einu er hlutur sem ég mun ekki koma mér í aftur  emoticon .

 Þetta got undan Ronju og Tinna  er að koma ásættanlega eða bara ágætlega út.

 Áhugasamir, kjarkmiklir og meðfætt vinnulag er ágætt, ekki alveg alfullkomið en samt fínt. Þeir eru að sjálfsögðu misjafnir en ættu allir að geta orðið góðir fjárhundar og sumir þeirra afbragðsgóðir ef tamningunni verður fylgt eftir. 

 Ég held því oft fram að í hverju goti leynist yfirleitt einn sem verði algjörlega vonlaus fjárhundur hversu góðir sem foreldrarnir eru. 

 Það er enginn slíkur í þessu, - enda var þetta slysagot emoticon .

Það eru svo nokkur videóskot úr útskriftinni hans Kjóa    HÉR .  


Mér skildist á eigandanum að honum yrði allavega ekki skilað emoticon .

  

Flettingar í dag: 229
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 219
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 803354
Samtals gestir: 65136
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:19:28
clockhere