06.04.2009 07:15

Allt á réttri leið.


  Í svefnrofunum í gærmorgun heyrði ég einhver torkennileg hljóð utanað mér.

Mér fannst ég kannast við þau og það glaðnaði yfir mér í útkikki morgunsins að sjá stokkandaparið mætt á tjörnina.
 Þau höfðu verið að spjalla saman í fyrstu morgunskímunni ánægð yfir að hafa náð þessum áfanga enn einu sinni.

 

  Hjónakornin voru vör  um sig til að byrja með enda löngu búnin að læra það ( sem betur fer)  að engu er að treysta þegar mannsskepnan er annarsvegar.
  Til að forðast misskilning er rétt að taka fram að hér fyrir ofan eru þau að spássera á ís, því  þó  þau séu heilög hér,  er ekki gengið  á vatni enn.



   Hér er sú gamla að siða til annaðhvort dóttur sína eða tengdadóttir síðastliðið sumar.

 

 Hún hafði fullan sigur í þeirri viðureign án aðstoðar ektamakans og var mjög reigingsleg á svæðinu sínu á eftir.


   Steggirnir eru ekkert að skipta sér af svona innanríkisdeilum og eru nú yfirhöfuð slakir í uppeldinu. 

Þeir eru nú kannski ekki einir um það.emoticon 

 Já , þó aðeins hafi kólnað, þá er vorið handan við hornið.emoticon

04.04.2009 17:03

Vorið er komið og ????


  Það var stafalogn og hlýtt þegar ég gekk léttum fjaðurmögnuðum skrefum til gegninganna í morgunsárið.
 Það voru auðheyrilega miklir flotar af álftum og gæs á flugi  frá náttstað í akrana í  sveitinni.
Það er verið að hreinsa upp það sem fuglar og mýs hafa ekki komið í lóg í vetur og öllu friðvænlegra að eiga við það núna en á haustdögum.



 Eitthvað af þessum lifðu af hernað haustsins og eru mættar galvaskar í íslenska vorið.

  Það var ekki slegið slöku við í dag, því nú er allt að verða syngjandi vitlaust í sveitinni í endalausum verkefnum.
  Nú dugði ekkert góðviðriskjaftæði, heldur var lokið við að rýja féð. Þar sem ærnar eru tví eða margbreiðar hafa þær hlotið extra meðferð síðasta sólarhringinn til að auka líkurnar á að þær og bændurnir lifi þetta af.


 Þær eru skildar eftir í hálfullu til að gulltryggja að engar búsifjar verði af v.v.v. sýkingunni. Það kostar nokkurra klst. snyrtivinnu í haust en komi tímar og komi ráð.



 Amman og ömmustelpan mættu svo og byrjuðu óðara á að bæta þessum horrenglum upp lélegan viðurgjörning síðasta sólarhringinn.

  Amman og dótturdótirin brugðu sér síðan á Línu Langsokk suður í Brún. Þær gátu svo í hvoruga löppina stigið fyrir ánægju með sýninguna og hún Lína var alveg rosalega góð.


   Vonandi tekur sú stutta ekki upp ýmsa siði frá henni Línu.

  Já nú er vorið komið. - Þar til annað sannast.

  

03.04.2009 20:22

Góðir dagar og slæmir.

  Stundum kemur alveg meiriháttar gott veður hér á Nesinu.

  Þar sem dálítið vantar á að það sé ríkjandi hér 365 daga á ári, kunnum við afar vel að meta  þessa daga sem falla undir þá veðurlýsingu.



  Svona var fjallasýnin á sunnudaginn í stafalogni um hádegisbil.

 Það var ekki mjög erfið ákvörðun fyrir Dalsmynnisbændur eftir að ljúka við rúning tvævetlanna fyrir hádegi,  að fresta því að klippa þær 50 kindur sem áttu að liggja seinnipartinn og skella sér á fjöll.



   Núpáin var frekar slök þar sem hún dólaði til sjávar, alauð frá upphafi til enda.
Veðurspáin hafði verið dálítið ógnandi fyrir seinnipartinn svo gamli bóndinn var athugull á skýjafarið.



  Skýjabólstrarnir sem voru að hellast yfir Svörtufjöllin og Skyrtunnuna sögðu okkur að þarna uppi væri veðrið að snarversna.



  Þegar kom upp í Brekkurnar þyngdist færið. Greinilega ekki náð að slakna nóg þarna uppi til að gefa gott fjórhjólafæri,

  Með því að fara austar í brekkurnar komumst við upp og þar var skafrenningur og lágskýjað.
Enda ekki slugsað lengi þar.



  Það var ennþá blíða niðri en það átti eftir að breytast.

Tveim tímum seinna var kominn blindbylur og síðan búið að vera drullufúlt veður alla vikuna.

Ekki hundi/kindum út sigandi.emoticon

Já svona er lífið.emoticon

Flettingar í dag: 3062
Gestir í dag: 117
Flettingar í gær: 668
Gestir í gær: 92
Samtals flettingar: 651160
Samtals gestir: 57993
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 07:36:02
clockhere