20.04.2009 18:13

Hvað eigum við að kjósa , Svanur?


  spurðu iðnaðrmennirnir mínir þegar þeir settust inn í hádeginu einn daginn.

  Ég leit á þá í forundran, því ég vissi að annar var gamalgróinn sjálstæðismaður og kunni ekki að kjósa annað. Hinn var gamall allaballi sem lenti síðan í VG.

 Sjálfstæðismaðurinn sagði síðan aðspurður ekki geta hugsað sér að kjósa flokkinn sinn eftir það sem á undan var gengið og nú væri hann í vandræðum. Helst kæmu VG til greina en hann ætti erfitt með að styðja þingmannsefni listans í kjördæminu af ástæðum sem hann tiltók reyndar.

  Hinn var sama sinnis. Þingmannsefnin höfðuðu ekki til hans og hann tiltók ýmsa sem hann hefði fullt traust til. Þau voru því miður fyrir hann og flokkinn, ýmist á listum í öðrum kjördæmum eða ekki í framboði.  Þessir snillingar voru þó á því að ef allt þryti, myndu þeir nú samt frekar skila auðu en sitja heima á kjördag.



  Já, þeir eru í þungum þönkum um vandamál tilvonandi kosningardags.  Afastelpan er hinsvegar nokkuð áhyggjulaus um þesskonar og reyndar allskonar vandamál.

  Um kvöldið spurði svo mín heittelskaða mig þessara sömu spurningar. Mér þótti vænt um það, því mér þótti spurningin benda til þess að hún væri nú loksins búin að fyrirgefa mér, að fyrir margt löngu fékk ég hana til að kjósa framsóknarflokkinn. Það var á þeim tíma sem framsóknarflokkurinn átti að bjarga heiminum og halda landinu í byggð. Síðan hefur hún ekki kosið frammarana , enda er illa komið fyrir þeim.

  Í kvöld  var ég að horfa á tilvonandi þingmenn þeirra suðvestlendinga og til að koma mér ekki verr á þeim landshluta en orðið er, sleppi ég öllum kommentum um þá.
 
  En þeim fækkaði hinsvegar um einn flokkunum sem til greina kom að ég kysi og er nú orðið ískyggilega lítið úrvalið og ekkert gott í boði.

 Jahá , sá á kvölina! emoticon

 

18.04.2009 17:50

Harðindi, hundtík og pólitík.


  Það hefur ekki gefið vel í vetur til hundatamninganna.

  Ég sem er allvel settur með verkefni í þeim málaflokki með tvær bráðefnilegar tíkur á tamningaraldri hef því þurft að halda aftur af athafnaseminni. Kunnugir telja eflaust að það hafi ekki orðið mér mjög erfitt.


 Hér er það Dáð frá Móskógum í námstíma í fyrrakvöld. Hún verður ársgömul í sumar og átti að vera komin verulega áleiðis  en er það ekki . Þetta er gott efni og dálítið spes því hún er afar róleg og yfirveguð í vinnunni.
  Hún er að byrja að læra hægri/ vinstri skipanirnar og skipunina NÆR sem segir henni( í bili) að koma með kindurnar til mín. Síðar meir segir þessi skipun henni það, að hún eigi að ganga beint að kindunum hvar sem hún er stödd. 



  Fyrir nokkrum vikum stressaðist Dáð upp í þessari stöðu, gjammaði og var ekki mjög traustvekjandi.  Nú er hún gjörbreytt, sallaróleg og aldeilis óhrædd.

  Allir fjárhundar lenda í þessari stöðu hér. Í besta falli stendur kindin framan í og haggast ekki. Í versta falli ræðst hún á hundinn. Þá reynir á, hvort hundurinn  ræður við aðstæðurnar, eða kindin tekur yfir stjórnina. Hundurinn á  að  taka í snoppuna eða framan í bóginn og gefa eftir um leið og kindin gefur sig. Því miður er þetta ekki öllum hundum gefið og þeir sem lúffa eru ekki mikils virði sem alvöru fjárhundar.
  Ég reyni að láta unghundana komast hjá öllum átökum fyrst í stað, til að tefja ekki hlutina og þarna skarst ég í leikinn.  Þegar fer að líða á sumarið mun þessi nemandi bregðast snöggt við skipun og venja kindurnar af svona framkomu.

 Já, þetta tíkarstúss er alvöru. Pólitíkin er rugl.emoticon

16.04.2009 21:01

Landbúnaðurinn í augum frambjóðenda, mykjudreifingin og vinir mínir á Austurbakkanum.


  
Á framboðsfundinum um landbúnaðarmál í Borgarnesi í kvöld var tvennt nýtt fyrir mér.

 Annarsvegar hef ég aldrei mætt á framboðsfund fyrr án þess að hafa hugmynd um hvað ég ætlaði að kjósa og hinsvegar, að þarna voru aðeins tveir frambjóðendur af 6, sitjandi þingmenn.

  Framsöguræðurnar tóku nokkurt snið af þessu en það voru samt tveir nýgræðinganna sem mér fannst nú komast best frá þeim. Þau Ólína og Guðmundur Steingríms. Þó ég væri ákaflega lítið sammála Ólínu í höfuðmálunum komst hún nú samt mjög vel frá þessu og Guðmundur er gott skáld og ágætur í pontunni. Það er samt himin og haf á milli mín og sanntrúaðra frammara um framtíðarsýnina í landbúnaðarmálum.

  Það vantaði aðeins fjörið í þetta, eins og í gamla daga þegar frambjóðendurnir sem gjörþekktu auðvitað hvor annan og stemminguna á svona fundum, settu upp svona hálfgerð leikrit með hnyttnum athugasemdum um mótherjana sem svöruðu síðan með einhverju smellnu.



  Þarna var ágætlega mætt enda sumir langt að komnir og að loknum framsöguræðunum fengu framsögumenn mikið spurningaflóð til að moða úr.

  Ræðumaður kvöldsins var samt Gunnar í Hrútatungu sem tók sér ríflegan fyrirspurnartíma og var alveg í essinu sínu.

  Það sem bjargaði samt kvöldinu hjá okkur Eyberg á Hraunhálsi, var hann Pétur á Helgavatni sem sagði okkur, að það lægju fyrir vísindalegar niðurstöður um, að mykja áborin í apríl, þegar hitastigið væri undir 10° tapað ekki köfnunarefninu.

 Ég veit að þetta gleður vini mína á austurbakkanum sem voru hryggðir með því á aðalfundi búnaðarfélagsins um daginn, að ég væri í vondum málum að hafa staðið í skítadreifingu svona snemma vors. Ég þarf að komast að því hvort ég geti ekki gengið í búnaðarfélagið hjá þeim. Þeir eiga svo þrælgott dótasafn fyrir utan það hvað þeir eru skemmtilegir.


  Þeir gætu svo kannski ráðlagt mér  hvað sé skynsamlegt að kjósa í stöðunni?emoticon

Flettingar í dag: 411
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 219
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 803536
Samtals gestir: 65137
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:40:43
clockhere