20.05.2009 20:56

Fjárhundar og lambfé.


    Það er kominn fjöldi ára síðan ég hef hlaupið á eftir kindum.

Þegar ég lagði það af, var hlaupagetan og þolið á góðu lagi. Ég get því miður ekki haldið því fram lengur.

  Nú sjá hundarnir alfarið um þennan hluta sauðfjárvinnunnar og reyndar mikið meira.

Þessa dagana er verið að sleppa lambfé af húsi og hér þarf að koma þeim niður fyrir þjóðveginn í fyrstu lotu.

 Nú er ég hættur að loka hundana inni þegar átt er við lambærnar og læt þá hafa fyrir þessu.



  Þeir sem til þekkja vita hvernig gengur að reka kindur með lömb á þessum aldri.
Þær reyna að fara allt annað en þær eiga að fara og ef þær eru nokkrar saman þá er farið sitt í hvora áttina. Ef sá gállinn er á þeim fara þær yfirhöfuð ekki nokkurn skapaðan hlut.



  Hér dóla þau, Dáð, Snilld og Vaskur vel á eftir hópnum en það er grundvallaratriði að góð fjarlægð sé milli hundanna og kindanna. Annars bregðast ærnar við til varnar lömbunum og þar sem þarna eru ákveðnir hundar á ferðinni gæti það orðið harður slagur. Dáð er aðeins 10 mán og Snilld tæpra tveggja ára . Þessi vinna fellur vel að tamningarprógramminu sem þær eru í núna.



 Það er sjaldan hægt að reka viðstöðulaust yfir þjóðveginn vegna óvæginnar umferðar og hundarnir virða biðskylduna og stoppa féð af meðan bóndinn leitar lags fyrir hópinn yfir.

 Þeim fjölgar sífellt fjárhundunum í sveitum landsins sem ráða við svona vinnu þó betur megi gera í því eins og fleiru.

  En góðir hlutir gerast hægt, er það ekki ?






19.05.2009 00:06

Allt syngjandi vitlaust í sveitinni.


  Rollurnar hafa fundið það á sér að fyrirvinnan yrði í lambamóttökunni um helgina, því nú fór allt á fullt.

  Þetta minnti mig á gömlu góðu dagana þegar alvöru fjárbú  var hér og fjör í sauðburðinum.
Það gekk á ýmsu og  gott að mín heittelskaða var nærtæk þegar greiða þurfti úr fótaflækjum, sækja framlöpp sem ekki skilaði sér o.sv.frv.


 Þar sem burðarstíudæmið gerði ekki ráð fyrir svona stórskotahríð yfirfylltist allt af nýbornum rollum en þetta slapp þó allt til. Það var síðan drifið í að marka og númera í dag og slatti settur út.



Það hefði verið fínt að eiga nokkrar svona að hætti Brjánslækjarbænda klárar í lambahrotuna.

  Þar sem n.áttin er í svona vorfíling þessa dagana er ekki verið að setja út nema það elsta . Það er rúmur þriðjungurinn óborinn og þetta hefur gengið býsna vel. Einlemburnar eru einni fleiri en þrílemburnar svo ekki verður kvartað yfir of lítilli frjósemi nema síður sé.

 Yngri bóndinn er allstaðar annarstaðar en heima hjá sér þessa annríkisdaga, ýmist að plægja, tæta eða sá bygginu, enda er orðið áliðið vors og allt að falla á tíma.


 Grænfóðrið bíður sáningar og áburðurinn bíður í stórsekkjunum eftir að komast á túnin. Sérstaklega þau sem eru að koma skítlaus inn í sumarið.

  Já það er sko nóg að gera.

Þó kaupið sé lágt og fari lækkandi. emoticon

18.05.2009 04:08

Afastelpan og strákurinn.

 Það kemur fyrir að afastelpan eigi leið um búgarðinn og hér er hún að heilsa upp á bústofninn sinn, hérna megin Holtavörðuheiðar.

 Hún er fyrir löngu búin að átta sig á því hver ræður, á að minnsta kosti þremur heimilum sem hún þekkir vel til á, þegar þarf að ákveða ákveðna hluti.


 Hún og Stígandi áttu svo leið um Borgarnes á laugardaginn og hér er stund milli stríða.



 Hann Aron Sölvi er ekki búinn að átta sig á sínu valdsviði enn, en það kemur örugglega.

  Hér virðist hann hafa áttað sig á því að einhver hafi komist í ölið hans???

Trúlega pabbinn.


 Já, það verður að taka á þessu máli.emoticon
Flettingar í dag: 411
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 219
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 803536
Samtals gestir: 65137
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:40:43
clockhere