26.09.2010 07:22

Er hann Tinni að ná sér??

Stundum gerist það þegar ég fæ ókunnan hund í hendurnar að það er eins og eitthvað smelli saman og við náum strax mjög góðu sambandi.

 Þannig var það með okkur Tinna þegar hann birtist hér í ág.sl.   Sjá hér.



 Það kom hinsvegar fljótt í ljós að hann stakk við á öðrum framfæti og það ágerðist þegar ég byrjaði að vinna með hann í kindum.

 Hann var því settur í bið og ákveðið að fara með hann í myndatöku og fá að vita hvað væri í gangi.
Fyrst var kíkt við á dýraspítalanum í Víðidal. Það var mikil upplifun fyrir tamningarliðið sem fór með hann þangað að setjast þar inná biðstofu með fullt af konum  sem voru með allskonar hundaafbrigði mismunandi mikið klædd og hlusta á umræðurnar um sjúkrasögu dýranna.

 Sú sem kíkti á Tinna sagði að ekki væri tími fyrir myndatöku. Það þyrfti að svelta hundinn því ekki yrði bógurinn myndaður án svæfingar. Hún lagði til að pantaður yrði tími í næstu viku , koma yrði snemma dags og þetta myndi taka langan tíma.

 Hún benti síðan vinsamlegast á að það væri fýla af hundinu og hann yrði að koma baðaður ! !

Þegar sá gamli heyrði þetta var hinn rómaði spítali í Víðidalnum afskrifaður snarlega.
Það var því mikill léttir þegar ræktendur Tinna, Staðarhúsabændur höfðu samband , sögðu Björgvin dýralækni verða hjá þeim daginn eftir og kæmi með myndavél með sér.

Engar kröfur voru gerðar um svelti eða baðferðir.
 Við Tinni mættum á staðinn, teknar tvær myndir og kveðinn upp úrskurður um leið.
Bólgur í vöðvafestingum við bóglið, sem hefðu trúlega komið af miklu höggi eða stuði framan á bóginn fyrir langalöngu.
 Taka yrði hundinn í lyfjameðferð og halda honum sem hreyfingarminnstum í 15 daga.

Með illu skal illt út reka sagði Björgvin þegar ég kvartaði fyrir hönd okkar Tinna um kvalræðið sem fylgdi 15 daga innilokun í búri, og vera svo í bandi við að sinna líkamsþörfunum utandyra.


Nú notar Tinni hægri framfót en eins og sést á myndinni er orðinn stærðarmunur á framfótunum vegna heltinnar.

 Nú fer að síga á þessa 15 daga og Tinni virðist vera óhaltur en það er ekki að marka því einhver verkjalyf eru í lyfinu.

 Hann hefur fóðrast mjög vel þennan tíma og þyngst sem hann þurfti að gera.

Það er gaman að sjá hvað honum líður vel og það er búin að safnast upp í honum gríðarleg orka og spurning hvort ekki fer allt úr böndunum þegar hann fær að leika lausum hala á ný.

Og sjaldan launar kálfur ofeldið því á sínum fyrstu dögum í sveitinni lék Tinni illa á mig og á nú von á erfingjum.


 Og aðalsmalatíkin mín hún Snilld verður víst í fríi í þriggja daga leitum sem í hönd fara næstu vikuna.

Fokkings.

 

22.09.2010 22:56

Landslagið í leitunum.

 Maður fær aldrei nóg af þvi að virða fyrir sér landslagið hvort sem það er nýtt eða notað, enda aldrei eins.

 Og það væri mun minna virði ef það héti ekki neitt.



 Hér eru Draugagilin séð ofan af Sanddalstungu. Hvernig stendur á nafngiftinni fæ ég trúlaga ekki að vita nema mæta aftur í leitir þarna.

Hér er horft suður Sanddalinn.Í fjarska sést Krókur sunnan Norðurár. Efsti bær í byggð i Norðurárdal.


 Hér sjást bílar Dalamanna og þeirra Hvammverja sem gengu efsta hluta Hvammsmúlagöngunnar á brún Svínagils.
Slóðinn sem þeir komu eftir sést liggja upp hæðina en hann kemur af veginum um Bröttubrekku.


Og hér neðar er sjálft Svínagilið. Það er leitað til suðurs af dalamönnum og taka sunnanmenn við því fé sem þar er.


 Austan Svínagilsins og rétt utan myndarinnar er Kaplagil en þar urðu eftir 10 kindur hjá Dalamönnum sem er það eina sem vitað var að yrði eftir í leitinni. Ekki nógu vel hundaðir!

 Enn austar er svo Illagilið sem ber nafn með rentu og er ekki reynt að ná fé sem tapast í það.



 Sprengibrekka  austast á myndinni( ljósa skriðan). Þetta svæði allt smala dalamenn til suðurs og taka sunnanmenn við fé af því svæði hér.

 Horft niður Norðurárdalinn af Hvammsmúlanum.



 Og til að skilja við ykkur á guðrækilegu nótunum kemur Hvammskirkja hér nýuppgerð.



Hér er kirkjuturninn kominn í upprunalegt form en hann var búinn að vera með allt öðru lagi áratugum saman.

20.09.2010 22:49

Smalaklárinn í skurð.

 Hann Neisti frá Dalsmynni er um margt sérkennilegur hestur. Hann var nokkurra daga gamall þegar ég sá hann fyrst og mér er það minnistætt þegar folaldið tók sig út úr hópnum í réttinni og gekk hiklaust beint til mín og hnusaði af mér.

 Allar götur síðan er hann ákaflega ófeiminn við mannfólkið og fær stundum frekjuköst eins og móðirin.
 Ég man nú ekki af hvaða tilefni ég gaf minni heittelskuðu hann en kannski vegna þess að þetta er nú ekki akkúrat mín hestatýpa.
 Hann er varahestur no. 2 sem smalahestur og var járnaður með hraði þegar þessir alvöru hóstuðu hvor í kapp við annan þegar átti að fara að þjálfa þá upp fyrir leitir.

 Einn af sérstæðum hæfileikum Neista er að hann vippar sér léttilegi yfir skurðgröfuskurði í fullri breidd detti honum það í hug.

 Slíka hugdettu fékk hann í dag.



 Hann hefur ekki verið að vanda sig því þetta var bara vesaldarskurður sem gamli maðurinn gæti kannski hoppað yfir ef á þyrfti að halda.


Hér var hann nú alveg búinn á því en þar sem þetta er afrennsliskurður hitaveitunna var þetta þó bara notalega volgt.


Það er svo eins gott að hann verði ekki lengi með strengi eftir átökin því nú styttist óðfluga í að bóndinn fara að leggja á fjöllin í kringum sig.

Flettingar í dag: 443
Gestir í dag: 89
Flettingar í gær: 788
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 804356
Samtals gestir: 65231
Tölur uppfærðar: 1.4.2025 09:51:59
clockhere