01.11.2010 10:37

Haustið út, veturinn inn.

 Langvarandi lognmollurnar sem gera náttúrulega hvern mann að aumingja, hafa fyrir löngu yfirgefið okkur  Nesbúana.

 Norðaustanáttin hefur hinsvegar lagt undir sig svæðið með miklum gassagangi og verið ansi nöpur stundum.

 Nú er allur nautpeningur kominn á hús en kvíguhópurinn sem var tekinn inn í síðustu viku samanstóð af kvígum sem fá eiga í vetur eða eiga von á sér uppúr miðjum vetri.
Við eru með hluta af kvígudótinu í gamla fjósinu í slæmri aðstöðu en ýmiskonar breytingar á  uppeldisaðstöðu hafa verið í íhugun en frosti síðan í hruni.

Allt frá nýbyggingu í breytingu á eldra húsnæði.

Nú er von á Unnsteini Snorras. í næstu viku að segja okkur hvað við eigum að gera.

Reyndar hefur þessi öðlingur ætlað að koma í " næstu " viku síðan í vetur en nú hef ég tilfinningu fyrir því að rétta vikan sé alveg að koma.

 Burðarhrinan í fjósinu er á enda en reiknað með að 3 kýr beri í nóv.

Tvær fyrsta kálfs kvígur hafa verið afskrifaðar með ónýt júgur og ljóst að í einhverri stíunni hefur sog verið stundað án vitneskju og leyfis bændanna.
Nú er verið að lauma óbornum kvígum með í mjaltabásinn og fylgjast með júgrum þeirra svo hægt verði að grípa inní málin í tíma fyrir burð.


Hér er hluti af uppskeru okt.mán. og vonandi að þær sleppi ótjónaðar gegnum uppeldi.

Lömbin og þær veturgömlu voru hýstar í gær og stefnt að því að rýja þær á morgun. Það var ekki seinna vænna því í morgun var allt orðið alhvítt og slæmt á jörð fyrir útigang því það er bloti í snjónum.

Dagurinn í dag verður svo tekinn í lokaplægingu haustsins.

31.10.2010 23:22

Smalahundakeppni á Snæfellsnesi.


Frétt frá Smalahundadeild Snæfells og Hnapp. (Myndir og myndatexti frá síðustjóra.)

Smalahundafélag Snæfells og Hnappadalssýslu stefnir á að halda sína árlegu keppni laugardaginn 6 nóvember ef veður og aðstæður leifa emoticon

Dalsmynnisbóndinn að leggja Vask lifsreglurnar á erfiðri stundu í fjárhundakeppni. Hann gætir þess vel að missa kindurnar ekki úr augsýn meðan á tiltalinu stendur.

Keppt verður í 3 flokkum

Unghunda flokki þar geta hundar fæddir 2008 og seinna tekið þátt, vaninn er að hafa brautina fyrir þessa hunda frekar létta

B flokkur þar hafa allir óvanir keppnis menn og hundar rétt  til þáttöku hugmynd stjórnarinnar er að hafa brautina óvenju létta í þeim tilgangi að sem flesti geti tekið þátt þ.e. reglur verða frjálslegar og ef illa gengur mega menn sleppa vissum hluta brautarinnar og halda áfram að næsta verkefni.
Þetta er tilraunaverkefni til að laða fleirri að þ.e. þá sem eiga kannski fína vinnu hunda en treysta sér og hundinum ekki til að fara í fulla keppnisbraut.

A flokkur þetta er flokkurinn fyrir reynda vinnuhunda og keppnishunda og er þetta erfiðasta brautin þ.e lengra úthlaup og einnig skipting og í þessum flokki verður reynt að fylgja eftir reglum ISDS þ.e. alþjóðlegum reglum .

Þar sem keppni er einnig haldin að Ytra Lóni hjá Sverri Möller höfum við hringt til þeirra sem gætu verið svo harðið að keyra þangað og enn sem komið er hefur engin sagst ætla að fara svo við vonum að við séum ekki að gera einhverjum óleik með þessari dagsetningu og ef svo er þá endilega hafið samband við mig í síma 8466663

F.h stjórnar Gunnar



    Fjárhundakeppni er nú ekki komin svo langt hér, að notaðir séu 6 hundar.emoticon

30.10.2010 12:34

Fálkinn allur .

 Fálkinn sem ég bloggaði um á dögunum, sjá  HÉR reyndist ekki viðgerðarhæfur og sveimar nú um veðursælli veiðilendur þar sem hvorki eru rafmagns eða girðingarlínur að þvælast fyrir honum.

Flettingar í dag: 411
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 219
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 803536
Samtals gestir: 65137
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:40:43
clockhere