24.03.2011 09:50

Útigöngufé. Annar veturinn.

  Í snjósleðaæfingu í fyrradag rakst yngri bóndinn á 3 kindur sem komið hafa niður á dalinn á síðustu vikum.

 Hér er mikill lausasnjór og kolófært fjórhjólum/sexhjólum og vonlaust göngufæri fyrir menn og fé.

Það var því ákveðið að reyna að brjótast inneftir á Toyotunni, grindinni skellt á pallinn ásamt Vaski og Snilld.



 Erfiðasti kaflinn var Háholtabrekkan og gerðum við okkur klára í að geta spilað bílinn þar upp ef á þyrfti að halda.



 Það var linað duglega í dekkjunum og upp fór hann.

Kindurnar voru vestan Núpár en við austan og ef við misstum þær frá ánni uppá holtin myndu vandræðin aukast, því erfitt yrði að koma bílnum uppfrá ánni þeim megin.

Það var ótrúlegt að horfa á Snilld nánast fljúga upp ófæra driftina og fara fallega fyrir kindurnar meðan Vaskur greyið lenti í miklum vandræðum með að komast í slóðina hennar.

Það er alltaf jafnmikill léttir þegar hundarnir eru komnir með þetta í kontrol og hér bíður Snilld frekari fyrirmæla.


 Ég hafði svo ríkan skilning á því hvað Vaskur hafði þurft að ganga í gegnum eftir að hafa paufast upp skaflinn.



Og nú var auðveldur eftirleikurinn.


 Þarna var komin ær trúlega á þriðja vetri, með ómörkuðu lambi . Hún hefur gengið úti einhverstaðar á fjallgarðinum síðasta vetur, er ágætt eintak af útigöngustofni sem verið er að koma upp í sveitinni og gaman að vita hvenær þær mæðgur skila sér með afkvæmunum  á komandi vetrum.



 Hérna er brautin bein og breið þó færið sé þungt.


Komnir til byggða og Vaskur er hinn ánægðasti þrátt fyrir erfiðleikana í skaflinum.

22.03.2011 21:16

Ógeðslega flottar hvolpamyndir.

Það er mikill fjölbreytileiki í boði fyrir þá sem rækta Border Collie hunda.

 Menn geta ræktað stóra hunda og litla, loðna og snögghærða, með upprétt eða lafandi eyru o.sv.frv. Í litaflórunni er margbreytileikinn næstum endalaus.


 Dáð hvolpamamma frá Móskógum er frekar lítil, léttbyggð, snögghærð með upprétt eyru.

 Það sem skiptir þó öllu máli er hvernig dýrið virkar þegar á að fara að temja það og vinna með það.
Og þar er breytileikinn algjörlega endalaus.

Þeir sem temja hundana fyrir kindavinnu eru þó með það nokkuð á hreinu hvernig  óskahundurinn þeirra er en draumar manna í þeim efnum eru kannski eins misjafnir eins og þeir eru margir.
 Meðan einn leitar að hæfilega áhugasömum og frekar yfirveguðum hundi, vill annar helst að áhuginn sé svo mikill að venjulegir menn þurfi að fóðra þá á rítalíni svo þeir geti hamið þá.

 En allir sem vita hvað góður fjárhundur þarf að búa yfir eru trúlega sammála um að hann verði að vera nægilega ákveðinn eða harður til þess að geta tekist á við erfiðar kindur.



 Í hvolpahópnum hjá mér eru 3 snögghærðar og skemmtilegt að þær líkjast allar móður sinni í vextinum líka, eru minni og fínbyggðari en systur þeirra.



 Svo heppilega vildi til að tveir væntanlegra eigenda pöntuðu snögghærðar og ég mun síðan halda eftir þeirri þriðju.



  Húnvetningurinn sem var svo forsjáll að panta hjá mér tík áður en gotið varð til, fær völina og kvölina af því að velja eina af þessum þremur.

 Þar sem mér líst ákaflega vel á þær allar,  ætla ég síðan að leyfa eyfirðingnum að velja aðra og
halda síðan þeirri þriðju eftir. 



 Þessi mun flytja til pabba síns í fyllingu tímans og þar munu bíða hennar verðug verkefni.



 Það mætti nokkurskonar atvinnuljósmyndari á svæðið og missti sig alveg.



Takið svo eftir því hvað þeir eru rosalega gáfulegir til augnanna.emoticon

Aftast í ÞESSU albúmi eru svo fleiri myndir. emoticon

21.03.2011 08:27

Aldrei þú brást mér í ófærð og byl.

 Það verður oft eitthvað til að kalla fram úr skúmaskotum hugans gamlar minningar.

 Sumar eru geymdar tryggilega til upprifjunar síðar, en aðrar verða ekki kallaðar fram nema með nokkrum heilabrotum.

Í vikulegum blogghring mínum kem ég alltaf við hjá Aðalsteini í Kolsholti og í síðustu ferð var bloggið hjá honum  ( 19.3. 2011) enn skemmtilegra en vanalega. Ég vil því hvetja ykkur sem ekki
eru þegar búin að berja það augum að kíkja á það. http://kolsholt.123.is/ .

Og fyrir alla muni lesið fyrsta kaflann allavega tvisvar.

Þarna rifjar Aðalsteinn upp 32. ára ferðasögu vestur á Nes og kallaði þar með fram hjá mér margvíslegar minningar frá þessum árum.

Á þessum tíma var ekki búið að hækka vegakerfið uppúr landinu og snjónum, og það komu síðan flesta veturna langir ófærðakaflar sem sem reyndust vegfarendum þungir í skauti.

 Það var nokkuð algengt að ferðalangar á vesturleið brytust við illa leik vestur mýrar og Kolbeinstaðarhrepp en þegar á vesturbakkann kom varð allt alvöru og tappinn í flöskuhálsinum var oftar en ekki við Dalsmynni.

Í höllunum sunnan Dalsmynnisafleggjarans var þungt og kæmust menn þar upp tók oft við mikill skafl neðan heimatúnsins sem setti punktinn á ferðalagið.
Það var alltaf ákveðinn léttir þegar tók að líða á ófærðarkaflann að flöskuhálsinn færðist suður á Mýrar.
Ég skipti stundum dálítið ört um bíla á þessum árum en um 1978 eignaðist ég fyrsta alvörujeppann , gamlan Bronco sem ég átti óvanalega lengi. Það var með honum sem ég uppgötvaði að snjóruðningarnir meðfram vegunum voru oftast greiðfærari en vegurinn og saman fundum við allskonar hjáleiðir um tún og flóa þó þetta væri fyrir tíma blöðrudekkjanna.


Þegar sló virkilega í harðbakkann var Broncóinn keðjaður á öllum og þó kennileitin væru óljós úti í flóunum í byljum, skilaði hann mér alltaf í hlað rétt eins og hesturinn skilaði eigendum sínum að hesthúsdyrunum gegnum aldirnar þó dimmt væri yfir.

 Ég átti það til að kveðja þá bíla sem höfðu meira tilfinningalegt gildi en aðrir, með góðri vísu og við að rifja þetta upp kom Broncóvísan fram, en hún komst nú trúlega aldrei á blað frekar en annað á þessum árum.
 Trúlega hefur hún samt komið fram á varirnar við réttar aðstæður sem enn urðu til á þessum tíma, þó það tímaskeið æfinnar væri á hröðu undanhaldi og bláköld alvara lífsbaráttunnar að taka við.

 Hún hefði t.d. átt vel við á eftir " Eg hef selt hann yngri Rauð" o.sv frv.

Aldrei þú brást mér í ófærð og byl.
Til afreka virtist þú gerður.
Af bölsýni fullur við Broncóinn skil.
Í bílskúrnum tómlegt nú verður.
Flettingar í dag: 3062
Gestir í dag: 117
Flettingar í gær: 668
Gestir í gær: 92
Samtals flettingar: 651160
Samtals gestir: 57993
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 07:36:02
clockhere