03.04.2011 06:41

Stokkendurnar mættar á tjörnina.

 Það fór ekki milli mála þegar ég renndi hundaflotanum út í morgunaftöppunina að stokkandaparið mitt var mætt í tjarnarvökina.

 Mér fannst reyndar auðheyrður feginstónn í garginu hjá þeim þegar þau sáu að ég og hundarnir hefðu haft veturinn af. Og það var fyllilega gagnkvæmt allavega hjá mér.



 Þó ég viti innst inni að þetta hljóti að vera einhverjir afkomendur upphaflegu andanna lít ég algjörlega framhjá því.
 Þær eiga eftir að halda hér til fram að varpi en þá hverfa þær í nokkurn tíma þar til þær birtast á ný með ungahópinn sinn. Trúlega eru það kettir og hundar sem sjá til þess að
hreiðurstæðið er valið annarsstaðar.


Fljótlega mun svo Álftaparið birtast en það stoppar nú ekki mjög lengi fram á vorið.



 Kannski láta Urtendurnar sjá sig en það er nú með andirnar mínar eins og saklausa almenna borgara í miskunnarleysi styrjalda í útlandinu, að haustið og reyndar veturinn verður mörgum
 þeirra skeinuhætt á vígvöllum veiðimannanna.



 Þessi er nú bara til að minna á sumarið sem mun óumflýjanlega mæta á svæðið líka.

Bara spurning hversu snjólétt það verður?

01.04.2011 04:47

Hafernir. Margskotið á 3 haferni í Eyjarhreppnum.

 Þegar ég ræði um haferni við vini náttúrunnar og rebbanna tala ég gjarnan um þá sem " þessar dj. hræætur."

 Við æðarbændurna og aðra ekta náttúruunnendur tala ég hinsvegar um " þennan konung fuglanna" í miklum lotningartóm.

Þegar önnur aðal myndaskytta heimasíðunnar var í vinnunni í gær( útreiðum) rakst hún á þessar hræætur, nú eða konunga fuglanna að gæða sér á rjúpu.

Spekingslegir og öruggir með sig hér þó þeir séu það kannski ekki alveg allstaðar.



 Hér líta þeir til himins því sá þriðji var að bætast í hópinn.
 Alltaf jafn blíðlegir til augnanna.


 Sá þriðji missti af veislunni því lítið var eftir af rjúpunni.



 En lendingin tókst ágætlega.



 Þessir fuglar eru nú alltaf mun flottari á lofti svo vægt sé til orða tekið.



 Svo var tekið listflug fyrir Iðunni Silju.



 En Krummi ræfillinn fékk dálítið ógnandi móttökur þegar hann kíkti við.



Fleiri myndir . Hér

29.03.2011 08:50

Allt að gerast í sveitinni.

 Þegar dagurinn er búinn að ná yfirhöndinni í sólarhringsvaktinni fara öll hjól að snúast í sveitinni og vorið mun bresta á fyrr en varir.

Umpólunin í veðurfarinu er algjör eftir fleiri vikna leiðindi í tíðarfari en ég vil muna.

Logn og niðaþoka dögum saman er að vísu frekar óvanalegt hér á Nesinu en sólin er á vísum stað þarna fyrir ofan og mun birtast fyrr en varir.


Tamningdýrin 3 ásamt rollunum hafa ekkert verið hreyfð í snjónum en nú verður farið að taka þau til bæna fyrir sauðburðarfríið þeirra.
 Aldrei þessu vant er ég með hest á járnum sem leggur mér síðan nokkrar skyldur á herðar.



 Hvolparnir verða læknisskoðaðir, örmerktir og fá fyrri parvósprautuna á föstudaginn og væntanlega verður eitthvað útfall á þeim um helgina.

Þessar 7 dömur eru orðin mikli útispjót og tíminn fram á helgina verður notaður til að þjálfa þær í innkallinu, því þær eru löngu búnar að átta sig á því að það þýðir innilokun og eru farnar að hlaupa mun hraðar en ég.

Nú styttist í að farið verður í kvöld og morgunrúnta til að reyna að koma rebbafjölda sveitarinnar í skikkanlegt horf, því vetrarveiðin er alveg hætt að virka á þessum frostlausu vetrum og ljósaveiðin hefur nú aldrei höfðað til mín.


 Alltaf jafngott þegar skammdegið er komið afturfyrir mann eina ferðina enn.
 
Flettingar í dag: 411
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 219
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 803536
Samtals gestir: 65137
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:40:43
clockhere