22.05.2011 08:11

Rok og ræktunarstefnur.

Þó norðanblásturinn mætti gjarnan ganga hraðar niður og hitinn stíga örar er þetta þó allt á réttri leið.

Féð sem komið var út ber sig alveg ótrúlega vel og þegar ég var orðinn viti mínu fjær af áhyggjum yfir því ( gerðist reglulega) dugði mér algjörlega að taka rúnt niðurfyrir og sjá rollurnar arfaslakar liggjandi í náttúrulegunm skjólum sem er nóg af , gamlir árbakkar, ruðningar o. sv. frv.
 
Það var bara búið að setja út elstu lömbin og " sæmilega " ullað fé sem hefur gert ástandið þolanlegt.


 Heyrúllan sem ég fór með niðureftir fyrir löngu er hinsvegar nær ósnert, sem er gömul reynsla og ný að þegar lambféð er komið þarna niðurfyrir lítur það ekki við heyi.
Ég hefði hinsvegar ekki boðið í ástandið ef það hefði fylgt úrkoma með í þessum hretpakka.

 Nú lítur út fyrir að tíðarfarið  fari skánandi og mikið verði sett út þegar kemur fram í vikuna enda orðið brýnt að koma elstu lömbunum út.


 Sauðburðurinn er að ganga mjög vel og frjósemin sem virtist ætla að verða í slakara lagi til að byrja með venti sínu kvæði í kross, þrílembumet síðustu ára eru fokin ( vont mál)  og tvílembuhlutfall gemlinganna er yfir 60 % sem er afleitt mál. 

 Í nótt var öðru lambinu undan júgurbólgurollu t.d.skellt undir tvílembu til að redda málum í bili en það er ljóst að það verða nokkrar með þrem lömbum í sumar og sömuleiðis munu nokkrir gemsar ganga með tveim lömbum.
 Sú ræktunarstefna að hafa alla gemsa einlemda og allar rollur með tveim er ekki að ganga upp hér þó stundum líti það þannig út á pappírunum.

19.05.2011 03:49

16 lömb á fimm árum !

Á svona míní fjárbúi og hér ( um 150 kindur) er sjaldgæft að hafa 5 ær með lambsóttina í einu.

 Þetta gerðist þó í gær og svo óheppilega vildi til að það var ekki nóg með að ég ætti vaktina heldur voru báðir fæðingahjálparmeistararnir fjarstaddir (til að byrja með.)

Þar sem einlembuhlutfallið ásamt fleirlembuhlutfallinu( 2 + ) eru ákaflega óhagstæð um þessar mundir er það sérstaklega vaktað hvort eimlemba sé á ferðinni því þá er umsvifalaust bætt undir hana af biðlista nokkrum.

 Við eru orðin algjörir sérfræðingar í því að sjá út einlembur strax í fyrstu fæðingarhríðunum þrátt fyrir litla æfingu í einlembufæðingum síðari hluta sauðburðar.

 Nú, fyrsta af þessum fimm kom með þrjú og ekki orð um það meira.

Næsta með 2 og síðan kom hún 616 sem hætti ekki fyrr en það voru komin 5 lömb í heiminn sem er nú ekki daglegur viðburður hér sem betur fer.


  616 með þrjá fimmlembinganna sem allir voru  stórir og gáfu tvílemingunum ekkert eftir í stærð.

 Þær tvær sem á eftir komu voru báðar með tveim, fengu umsvifalaust eitt í ábót svo .það voru allt í einu 4 þrílembur komnar á vandræðalistann til viðbótar.

 616 er fædd 2006 og er þetta í fimmta skipti sem hún ber.

Gemlinsárið átti hún 2, síðan þrjú lömb árlega næstu 3 árin og nú fimm. Samtals  16 lömb á fimm árum sem er ansi ríflegt.

Ekki gott ef fjárstofninn væri allur svona.

15.05.2011 22:20

Olía úr illgresi ??

 Það var mikil breyting á stillingum sáðvélarinnar að fara úr 200 kg af byggfræi á ha. niður í 8 kg af Doðrufræinu. Ekki var það svo slæmt að geta minnkað áburðargjöfina niður í um 100 kg á ha. úr 300 kg.

 Það var verið að sá fyrsta olíufræinu, Akurdoðrunni og þó að maður viti lítið um áburðarþörf og árangur og heilmargt annað þá mun þessi sáning segja okkur ákveðna hluti varðandi framhaldið.



 Doðrufræið er örsmátt og magnið í þennan 1.5 ha. sem sáð var í þessi 12 kg voru eins og krækiber í helvíti þegar það var komið í stóru sáðvélina.



 Ég var fyrir löngu búinn að ákveða að koma ekki nálægt vetrarrepjuræktun vegna óvissunnar um uppskeru en þegar útlit er fyrir að komin sé olíujurt sem nái þroska yfir sumarmánuðina þá fer þetta að  verða mun áhugaverðara.

 Kannski finnast sumarafbrigði af sumarrepju eða nepju sem ná að þroskast hér og þá verður spurning um hvað verður ofaná í ræktuninni.

 Hér í Eyjarhreppnum verður trúlega sáð í á milli 10 og 20 ha af doðrunni og gaman að sjá hvað kemur útúr því.

 Ekki síður spennandi að sjá hverju Jónatan Hermannsson kemst að á Korpu í sumar.
 Þar verða gerðar tilraunir með Doðruna, sumarrepjuna og nepjuna.


 
Flettingar í dag: 3062
Gestir í dag: 117
Flettingar í gær: 668
Gestir í gær: 92
Samtals flettingar: 651160
Samtals gestir: 57993
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 07:36:02
clockhere