11.09.2011 07:58

Kýrnar, sólin regnið og rokið.

Það er enn verið að setja kýrnar út þó það sé nú bara til málamynda.



 Þær eru að vísu ekki svona léttstígar út um dyrnar núna, en út vilja þær samt komast meðan það er í boði.
 Hér á bæ er lítið lagt uppúr sumarbeitinni. Yngri bóndinn er sérlega lítill áhugamaður um að hafa um 50 stórgripi sparkandi á vallarfoxtúnunum sínum og lítur klessurnar sem þær leggja frá sér í algjöru skipulagsleysi hornauga.



 Þetta er annað sumarið sem ekki er sáð grænfóðri til beitar. Kýrnar eru semsagt inni á nóttunni og hafa  aðgang að heyi allt sumarið en nú er verið að gefa síðustu rúllur fyrra árs.



 Þessa dagana er mjólkurframleiðslan í lágmarki, burður ekki byrjaður og fjósverkin ákaflega þægileg og fljótleg.



 Og engir kálfar á fljótandi fæði.



 En byggþreskingin og flagvinnan sem átti að öllu eðlilega að vera á fullu þessa haustdaga er í biðstöðu vegna vorkuldanna svona til að sýna okkur sem lifum á landsins " gæðum "  að það er ekki nóg að plana hlutina og vera með réttu græjurnar.

Við erum bændur," og  eigum allt, undir sól og regni" .

Og rokinu náttúrulega.

09.09.2011 22:37

Hestar og hundur í leit ,- en ekki ég.

Ég fer ekki í leitir þessa helgina en smalaklárarnir eru komnir norður á strandir ásamt knöpum þar sem þeir munu svitna á sunnudaginn.



 Þessi aftari er í fríi núna, enda er þetta ársgömul mynd af þeim feðgum Þrym og Neista að mæta nýjárnaðir í hauststörfin eftir hóstasumarið mikla.



 Og hann Tinni minn fer þar í sína fyrstu alvörusmalamennsku  án þess að eigandinn haldi í hendina, nú eða fótinn á honum í þeirri frumraun. Og dj. held ég að hann eigi eftir að standa sig vel þar, þetta vandamálalausa eintak af BC..

 Reyndar sé ég ekki framá að fá að hafa hann í smali fyrr en kemur að eftirleitunum en þá verður gaman að lifa.

08.09.2011 08:13

Haustar.- Og allt að gerast í sveitinni.

Nú er  haustið mætt með látum hér á Nesinu.

 Þó sumir hafi verið seint fyrir er heyskap samt nánast lokið og nú er beðið milli vonar og ótta með hvernig bygginu reiðir af.


 Það vantar aðeins of margar vikur í að það sé tilbúið.

 Aðalsmalamennskurnar verða 17 sept. og Þverárrétt kl 1 þ. 18.


               Svona viðraði eitt haustið en það er löngu gleymt þegar menn  hugsa til næstu leitar.

Það eru Svínafellið og Rauðamelsfjallið sem þá verða leituð með tilheyrandi ævintýrum og basli.



 Hér sér leitarstjórinn ( t.v.) á Rauðamelsheiðinni til byggða og rétt að halda uppá það, að nú er allt komið í réttar skorður.



 Snilld og Þrymur á Selsfjalli fyrir 2 árum. Snilld mun að öllum líkindum spreyta sig á vestfirskun fjallafálum næstu haustin.




 Það verða þau Dáð og Tinni sem munu spara smölum hér sporin í haust. Dáð mun redda málunum fyrir mig en Tinni mun ganga á milli smala eftir þörfum og reynast þeim betri en enginn.


 Já eins og vanalega , allt að gerast í sveitinni.



Flettingar í dag: 2678
Gestir í dag: 84
Flettingar í gær: 668
Gestir í gær: 92
Samtals flettingar: 650776
Samtals gestir: 57960
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 07:13:56
clockhere