27.01.2017 22:13
Bonnie.

Hvað skyldi nú búa í þessum hundshaus ?
Bonnie er ársgömul síðan í maí, skyldleikaræktuð undan Korku og Dreka frá Húsatóftum.
Þar var ég að leita eftir vinnuáhuganum, ákveðninni, vinnulaginu og síðast en ekki síst þessu 100 % öryggi í að fara fyrir það fé sem sést , ná því saman og koma því þangað sem það á að fara.
Ég hélt eftir 5 hvolpum úr þessu goti og eftir að hafa farið með Bonnie nokkrum sinnum í kindur ákvað ég að henni yrði haldið eftir.
Því miður varð hún svo útundan vegna annríkis í tamningum.
Nú er hinsvegar verið að vinna í henni á fullu enda betra seint en aldrei.
Bonnie stendur undir væntingum með áhugann , vinnulagið, ákveðnina og mun örugglega búa yfir eiginleikum foreldranna með öryggið í því að ná kindum saman og halda þeim þegar þar að kemur.
Þegar ég tala um vinnulag á ég m.a. við að hundurinn vinni af fumlausu yfirveguðu öryggi . Sé með útgeislun sem hundvanar kindur lesa úr órafjarlægð og hagi sér samkvæmt því.
Hún er skemmtileg i umgengni , hæfilega frökk en kannski óþarflega sjálfstæð fyrir einhverja.
Sæi hún kindur einhverstaðar í dag myndi hún fara ,smala þeim saman og koma þeim heim. Og ekki skilja neitt eftir.

Þegar hún verður búin að læra að fara ekki í kindur nema fá grænt ljós á það, er þetta frábær eiginleiki.
Stærsti gallinn við Bonnie er að ræktunin hefur farið yfir strikið með yfirvegunina. Eins og sést vel á meðfylgjandi myndbandi svarar hún skipunum af óþarflega mikilli yfirvegun og mætti gjarnan vera ágengari en hún er enn. í gamla daga var talað um " of mikið auga "
Ég hef oft sagt og segi enn að útlitið skipti mig ekki máli á góðum vinnuhund ef hann bara virkar fullkomlega.
Hitt er ekkert leyndarmál að stórir sæmilega loðnir hundar eru uppáhald.

Korka er nú ekki sú smágerðasta
Ef tíkurnar eru svo til viðbótar grófar eða kannski rétt að segja myndarlegar í útliti er ég alsæll.
Einhverra hluta vegna hafa mínar bestu tíkur í gegnum tíðina verið þannig.

Þegar maður gengur dálítið langt í skyldleikarækt finnst mér skynsamlegt að taka vinkilbeygju útúr henni með algjörlega óskyldu.
Það er verulegt tilhlökkunarefni í fyllingu tímans að para saman Bonnie og Sweep, sem er algjör andstæða hennar í rólegheitunum .
Spennandi að sjá hvað kemur út úr því.
Nú bý ég hinsvegar við það lúxusvandamál að eiga 2 -3 tíkur sem ég tel góðar til ræktunar, ásamt því að hafa aðgang að áhugaverðum tíkum til pörunar.
Tíkum sem ég hef kynnst í gegnum tamningarnar.
Ég er hinsvegar á þeirri vegferð í ræktuninni að gera þá kröfu að allt sem frá mér fer verði tamið og notað við sauðfjárvinnu. Annaðhvort frumtamið af mér eða fari til aðila sem kunni með að fara.
Þ.e.a.s. það sem verður nothæft til þess
Setur ágætis takmörk á framleiðslugleðina .

Og þar sem enginn nennir að horfa á löng myndbönd voru þessi skot með Bonnie skorin niður við trog.
Smella hér til að sjá þau.
Skrifað af svanur