26.10.2016 07:59
Af hrútum , - og hraðri starfsmannaveltu.
Þó gerningar augnabliksins staldri kannski óþarflega stutt við á harða diskinum droppar þar stundum upp eitthvað sem ég hef upplifað, - jafnvel næstum aftur á miðja síðustu öld



Eitt af mörgum uppáhalds í húsdýraflórunni í den var hrútafloti heimilisins.
Þeir urðu að vísu misgóðir vinir mínir enda misskemmtilegir í umgengni.
Sumir þeirra urðu rígfullorðnir enda gæðaeftirlitið og kröfugerðin frekar slöpp miðað við þann harða heim sem afkomendur þeirra búa við í dag.

Fyrirtæki sem þekkt eru fyrir hraða starfsmannaveltu er oft frekar illa þokkuð en hrússarnir eiga sér hinsvegar formælendur fáa þó meðalaldur þeirra fari hratt lækkandi á þessum síðustu og verstu

Það er einkum tvennt sem veldur því.
Annarsvegar virðist hrútastofninn standa sérlega veikur fyrir kvillum sem þekktust ekki ,- allavega hér,- fyrir nokkrum árum.
Þar eru kregða, barkabólga og einhver óupplýst uppdráttarsýki drýgst.
Hinsvegar er það tæknin sem miskunnarlaust vegur og metur kynbótahæfaleika gripsins hratt og örugglega um leið og afkomendurnir eru komnir í gegn um ásetningsúrtakið og hvíta húsið , - þau sem enda þar..

Hér er hrútafloti Dalsmynnis sf. komandi vetur ( mínus 1 seldan ).
Sá veturgamli á myndinni átti 50 afkomendur sem enduðu í hvíta húsinu.
Meðalþyngd þeirra var um hálfu kg. meiri en félaga hans og jafnaldra sem átti 39 lömb í samanburðinn. Auk þess kom hann betur út í gerð og fitu.
Ég minnist þess reyndar ekki að hafa séð svona afgerandi mun milli hrúta í uppgjöri og hjá þessum Saumssyni og kollekum hans, heimaræktuðum eða sæðisstöðvarhrútum.

Nagli Saumsson
Nú er það bara spurningin hvort hann stendur af sér félaga sína næsta haust ,- ef hann missir ekki heilsuna vegna einhverra nýmóðins krankleika.
Já , Þetta var öðruvísi skemmtilegt í gömlu góðu dagana.
Skrifað af svanur