11.10.2016 21:11
AÐ SÁLGREINA SAUÐKINDINA.
Á árunum 2002 til 2010 var Vaskur aðalhundurinn með Skessu móður sinni.
Um margt sérstakur bæði í kostum og göllum.



Vaskur klár í slaginn í smalavestinu og með talstöðina.
Hann hafði þann sérstaka hæfileika að geta skynjað um leið og hann sá kindur í fjarlægð hvort þær yrðu honum erfiðar .
Ef hann beið fullur ákefðar en rólegur eftir að fá skipun um að sækja þær, gekk það vandræðalust.
Ef hann hinsvegar stressaðist upp við að horfa á kindurnar, jafnvel í mikilli fjarlægð, lenti hann undantekningarlaust í vandræðum með þær , - því meiri vandræðum sem stressið var augljósara.
Yrði hugarástandið þannig að skjálfti/kippir væru komnir í skoltinn á honum þurfti ekkert að velkjast í vafa um að nú væri eitthvað krassandi í aðsigi.
Ætli það hafi ekki verið með hliðsjón af þessu sem ég fór að flokka erfiðu kindurnar og velta fyrir mér ástæðum þess hvernig þær væru.
Fl. 1 voru þær sem réðust umsvifalaust á hundinn þegar hann var kominn fyrir þær og ætlaði að þoka þeim af stað. Það taldi ég vera kindur sem væru vanar kjarklausum hundi sem ataðist í þeim en forðaði sér umsvifalaust þegar honum var ógnað o.sv. frv..
Fl. 2 voru kindur sem hnöppuðu sig saman og högguðust ekki en reyndu að verja sig ef sótt var að þeim . Gáfu kannski aðeins eftir en stoppuðu til að verja sig ef hundurinn sem þær treystu ekki með nokkru móti, var of nærri þeim. Þær taldi ég vera vanar illa tömdum hundum sem væru að ráðast á þær að tilefnislausu. Hundum sem létu þær ekki í friði þegar þær væru að gera allt rétt


Fl. 3 voru þær sem lögðu á hraðan flótta um leið og þær komu auga á hundinn. Verstu eintökin af slíkum tvístruðust svo í allar áttir ef hundurinn náði ekki tökum á hópnum . Sleppi því að fara nánar út í greininguna á ástæðum þessa .

Fl. 4 kannski ekki svo erfiður en einstaklega óþjáll, hlýðir engu og kann ekki að rekast. = kindur sem voru óvanar hundum .
Óþarft að taka fram hér farið afar grunnt í málið enda efni í bók að koma í letur dýpri greiningu og hvernig rétt er að beita hundunum á viðfangsefnin.

Hér er svo slóð á band með tamda hunda vinna í " aðkomukindum" sem eru að vísu í styggara lagi en fínar samt.. Smella hér.
Skrifað af svanur