08.07.2014 20:56

Hæðarleysið yfir Grænlandi og ???


 Í árdaga meðan ég var enn blautur á bakvið eyrun í búskapnum upplifði maður reglulega óþurrkasumur. 

   Stundum sumar eftir sumar. 
 
Þá dugði ekki sólarglæta í 1 - 2 daga til að bjarga málunum . Það tók langar tíma að slá , þurrka og hirða og nefndu það bara. Og að sjálfsögðu var ekki í boði að setjast við tölvuna og skoða veðurspár hjá nokkrum spámiðlum og kannski nokkrar vikur fram í tímann.

 Reyndar kannski ekki svo mikils virði á þessum síðustu og verstu að liggja yfir misónákvæmum spádómum. 

Eitt það fyrsta sem ég lærði í spádómsfræðunum var að hæð yfir Grænlandi var bjargvætturinn í óþurrkinum. Hæð yfir Grænlandi var ávísun á norðanátt og þurrk. Hún var málið. 
 
  Henni fylgdi að vísu lotteríið um hraðann á norðanáttinni. Ef hún var mikið að flýta sér gat tilvonandi heyforði endað í nærliggjandi skurðum og girðingum., en þá eins og nú er lítið gaman að lífinu ef engin er áhættan.

  Þó allt fari í hring er heyskaparbasl þessa tíma að baki og nú er málunum reddað á örfáum dögum , næstum milli skúra.
 Ungu bændurnir sem ekki hafa kynnst alvöru óþurrkasumri  ná ekki upp í það að allt í einu er grasið farið að spretta úr sér .  Og enginn þurrkur í kortunum. Túnin orðin undarlega mjúk yfirferðar  og annað eftir því.
Og  litlu hægt að ráða þurrkstiginu á heyinu við rúllunina, í plast skal það með góðu eða illu ef gefur þurran dag. 



 Allt er jú hey í harðindum eða þannig . 

Hér á bæ er nú verið að ljúka þriðju heytörninni.  Nú voru nærri 3 þurrir dagar í boði og gærdagurinn bara mjög fínn til síns brúks.
Þar sem féð er á taði verður að gera talsverðar kröfur um þurrefnisprósentuna í heyi fyrir það.




 Þá dugar ekki annað en knosaravélin við sláttinn og  það lá við að ég væri bara nokkuð sáttur við þurrkstigið þegar það small í plast áðan. 
 
 Og þó heyforðinn sé kannski aðeins ofþroskaður og í rakara lagi þá sleppur þetta vonandi til og er kannski bara mjög gott ef miða á við hæðarleysið yfir Grænlandi og helv. lægðarganginn sem er að læðast að okkur aftanfrá eða úr austri. 

  Svo ekkert misskiljist þá var vorið náttúrulega með eindæmum gott. Grasspretta alveg með fádæmum, en byggspá ársins sem byggist á sólarlitlu rigningarsumri, - segist ekki. Enda  byggið engin votlendisjurt og ljóst að frábært vor mun ekki duga til að tryggja góða uppskeru emoticon

Flettingar í dag: 1504
Gestir í dag: 18
Flettingar í gær: 1220
Gestir í gær: 122
Samtals flettingar: 806637
Samtals gestir: 65282
Tölur uppfærðar: 2.4.2025 09:52:20
clockhere