04.01.2012 09:11
Hrunið og dótainnflutningurinn.
Það má segja veisla búvélaumboðanna hafi náð hámarki árið 2007 þegar inn voru fluttar 374 nýjar dráttarvélar. Toppár á þessari öld.
Þessi tala fór niður í 19 vélar árið 2009.
Skellurinn var mikill og endaði með miklum breytingum á vélaumboðunum.Eftir því sem ég best veit eru einungis tvö þeirra enn með sömu kennitölur og fyrir hrun. Jötunn Vélar á Selfossi og Þór hf.
Nú er landið aðeins að rísa í þessum geira eins og öðrum og síðasta ár voru fluttar inn 45 nýjar dráttarvélar.
Jötunn Vélar eru greinilega á mikilli siglingu með fyrsta og þriðja sætið í dráttarvélasölunni.
13 selda Valtra og 8 Ferguson dráttarvélar. Þetta þýðir að þeir eru með um 45 % markaðshlut í dráttarvélunum.
Þór hf. vermir annað sætið með 12 seldar Kubota dráttarvélar.

Það er ljóst að þessar umboðssviftingar hafa haft mikil áhrif á vélasöluna. Vinsæl dráttarvélamerki ýmist hreyfast alls ekki, eða eru með sölutölur uppá 1 - 3 vélar.
Eitt dráttarvélamerkið er munaðarlaust í dag þar sem ekkert umboð þjónustar það.
Eins og fyrr segir eru Jötunn Vélar með mikla sérstöðu nú um stundir. Umboðið hefur aukið verulega við húsnæðið og er með verslun þar sem flestallt til búrekstursins fæst í miklu úrvali.
Það vantaði ekkert í hundafóðursrekkann í gær nema startfóður fyrir hvolpa uppí 8 vikna aldurinn.
Þeir eru ekki komnir með lambalæri í kæliborð, en þá sem langar til að dúlla sér í rauðvínsgerð í skammdeginu ættu að kíkja á þetta hér.
Hingað hringjum við bændurnir svo fullir örvæntingar þegar allt er komið í klessu í háannatímanum, hvort heldur er við akuryrkju eða heyskap.
Búvélaverkstæðið sem þjónustar Dalsmynnisbúið segir fyrirtækið í nokkrum sérflokki með að eiga til varahluti, enda verja þeir JötunnVélamenn sig með því þegar maður skammar þá fyrir verðlagninguna.
Og þeir bændur sem ekki þekkja þennan sölumann munu trúlega kynnast honum á næstu árum.