29.07.2011 23:23
Hestaferð og hrakviðri.
Það var ekki notalegt að ríða suður Litla Langadalinn móti hvassri sunnanáttinni sem færðist öll í aukana þar sem hún þrengdi sig niður innanverðan dalinn. Sunnanrokinu fylgdi að sjálfsögðu úrhellisrigning.
Þetta var þriðji og síðasti dagurinn í hestaferð með tamningagenginu í Söðulsholti og við vorum þarna 4 á ferðinni með tæp 50 hross.
Fyrri dagarnir höfðu verið mjög fínir og eftir fasta liði við að koma skikki á trippin/ hrossin í rekstrinum í upphafi gekk þetta býsna vel.

Hér lestar hrossin sig fallega norðan Bullunnar á leið inn austanverðan Heydalinn frá næturhólfi í Hallkelsstaðarhlíð, að Bíldhóli. Þetta var svo eins og í gamla daga að það beið manns veisla hjá bændunum þegar komið var með hrossin á næturstað.

Það eru einhverjir áratugir síðan ég hafði farið á hrossum þessar leiðir og margt kom upp í hugann frá gömlum dögum . Hér er áð á gamalkunnum stað í því sem eftir var af fjárhúshólfinu á Höfða.
Spáin var slæm fyrir síðasta daginn og veðrið var síðan mun verra spánni, mestan hluta leiðarinnar.
Við riðum gamlar og góðar götur frá Bíldhóli að L. Langadal í þokkalegu veðri og þó ég bæri mig vel við samreiðarfólkið þóttist ég vita að það yrði slæmt suðurúr.
Við stoppuðum vel við eyðibýlið og lögðum á öflugustu hrossin því það gæti orðið erfitt um stopp með þennan hóp í vitlausu veðri.

Reksturinn hélt forreiðinni vel við efnið og ekki náðist að stoppa þau almennilega fyrr en niður við Illagil. Hér snúa þau skutnum í veðrið, sem varð nú strax mun skaplegra eftir að kom suður á Flatirnar.

Dóri með hádegismatinn í höndunum og Illagil í baksýn.

Hér er trúlega verið að líta til veðurs í fyrsta áningastað í upphafi ferðar, búinn að spretta af aðalhestinum eftir að talsverðan barning við að kenna stóðinu guðsótta og góða siði.
Fín ferð.
Skrifað af svanur