11.01.2011 10:03
Búskaparbaslið og " velgengnin".
Ég fer ekki oft inná heimasíðuna hjá þér sagði vinur minn úr Húnaþingi.
Hvers vegna, spurði ég hneykslaður yfir þessu tómlæti gagnvart svona frábærri síðu?
Það gengur allt svo vel hjá þér, engin vandamál svo manni fer að líða illa með sjálfan sig, svaraði vinur minn glottandi.
Ég játti því að ef hann gæti ekki lesið milli línanna á blogginu hjá mér og dregið hæfilega frá því sem þar komi fram, væri trúlega best fyrir hann að lágmarka heimsókirnar.
Nú er búið að ganga á ýmsu í búskapnum síðustu vikurnar.
Um jólin fór vökvarör í flórsköfukerfinu sem hefur nú reyndar aldrei virkað fullkomlega síðan það var sett upp 2004.
Býsna langt síðan maður hefur komist í að moka flór og trúlega í fyrsta sinn á ævinni sem yngri bóndinn kynnist þessu þroskandi starfi.
Í kuldahvellinum í síðustu viku fraus svo allt sem frosið gat í gamla fjósinu þar sem kvíguuppeldið er til húsa: Það hefur ekki gerst svona verklega síðan kýrnar fluttu út.
Það slapp nú samt allt til án þess að rörin tjónuðust.
Snigillinn úr fóðursílóinu sveik okkur svo á dögunum og mun fyrst komast í lag í dag.
Það er að vísu ágætt að fá svona líkamsræktandi bilanir samhliða og uppúr jóladekrinu.
Og nú er norðanbelgingurinn að byrja að taka á taugarnar en ég þoli hann nú ekki með góðu móti nema svona í rúma viku.
Ég hefði svo gjarnan viljað hafa eitthvað af snjónum sem norðlendingum er boðið uppá þessa dagana því þessi frostakafli á auða jörð gæti sett strik í reikninginn við akuryrkjuna í vor.
Ég og mín heittelskaða brugðum okkur svo í borg óttans á föstudaginn. Viðvaranir útvarpsins um
" ekkert " ferðaveður höfðu mjög góð áhrif á umferðarþungann til og frá höfuðstaðnum og hafa væntanlega sett mark sitt á útsölurnar , en á röltinu gegnum Kringluna fannst mér traffíkin vera minni en á venjulegum degi.
En nú lengir daginn hratt og allt að komast á fullt hjá mér í ýmsum málaflokkum.