30.12.2010 22:35
Hvolpar, dýralæknar og íbúðarskipti.
Það var brunað í Hólminn í dag með tvo síðustu hvolpana en þeir komu sigldir í nýju vistina sína.
Hvolparnir voru flestir afhentir 8 vikna eftir fyrri parvósprautuna en þegar væntanlegir vestfirðingar áttu að halda til síns heima kom óvænt babb í bátinn.
Dýralæknaþjónusta á suðurfjörðunum er nefnilega með dálítið öðrum hætti en flestir búandi menn þekkja og er afar takmörkuð yfir vetrarmánuðina.
Afhendingunni var því frestað framyfir seinni sprautu til að þetta yrði nú alveg fullkomið.
Snót frá Dalsmynni á vonandi eftir að gera það gott í Ketildölunum og þessir sterklegu fætur að duga vel þar.
En að sjálfsögðu fá vestfirðingar enn betri fulla þjónustu en hinir sem fá fulla þjónustu hjá mér.
Hér er heimasætan að tala við Lubba að skilnaði en uppátækin í þessum síðustu fjörkálfum úr hvolpahópnum voru sum býsna kúnstug.
Þó þetta hafi verið erfiður ferðadagur hjá hvolpunum var þetta góður dagur hjá Dáð.
Þegar hún kom í sveitina fyrir u.þ.b. 2 árum fékk hún gotbúrið til umráða og þar hefur hún búið þangað til í haust að alltíeinu þurfti hún að minnka verulega við sig.
Hún var fljót að átta sig á því í dag hvað væri að gerast, þegar að skálin hennar og teppið voru komin í svítuna á ný. Hún leit hinsvegar rannsakandi á veggina og ég var henni sammála um að það yrði að þvo þá, allavega fyrir næsta got.
Og hvolpapabbinn sem er enn svo ungur að hann hafði gaman af að leika við afkvæmin fékk loksins alvöru búr til búsetu. Það voru smá sárabætur fyrir að missa leikfélagana.
Enda tekur nú alvara lífsins við hjá honum eftir 2 - 3 vikur þegar tekið verður til við erfitt en skemmtilegt nám.
Hann virðist vera orðinn fullgóður af meiðslunum, hefur þyngst helling og á svo eftir að massast á réttum stöðum eftir því sem líður á veturinn.
Já hvolparnir mínir dreifðust allt frá Arnarfirði í vestri austurundir Hornafjörð.
Það eru þó 5 í það hæfilegri fjarlægð frá mér að hægt verður að fylgjast með þeim.
Það er mér svo mikils virði að allir nýju eigendurnir eru harðákveðnir í að gera eitthvað úr þessum hvolpum.
Þessi sterkbyggði hvolpur er svo hún Fjóla frá S.- Skörðugili sem kemur oft í heimsókn. Hún er náfrænka hinna burtfluttu, undan Söru frá Dalsmynni og Nemó á Sleitustöðum. Afskaplega róleg , yfirveguð en íhugul og verður vonandi lík henni ömmu sinni en þá mun henni vel farnast.
Skrifað af svanur