22.01.2010 23:41

" Enginn er búmaður nema hann berji sér."

Það er undantekningarlítið gott hljóðið í félögum mínum í bændastétt sem ég hef hitt eða heyrt í síðustu missirin.

 Mér finnst líka fínt að sleppa við að heyra mikla neikvæðni og barlóm sem breytir engu þegar upp er staðið.

 Ég veit þó að þeir skynja það jafn vel og ég að búreksturinn er að þyngjast verulega og ekki muni séð fyrir endann á því.

 Fjósastígvélin sem kostuð 6.000 kall fyrir nokkrum mán. eru komin í 13.000 og traktorinn sem kostaði 8 millur, kostar 16 í dag. Svipuð hækkun hefur svo orðið á öllu því sem búið þarfnast þarna á milli. 
  Skattarnir sem verið er að bæta á okkur til að standa undir skjaldborginni um fjármagnseigendurnar og kollsiglingu Seðlabankans, kæta okkur svo sem ekkert heldur.

 Og við skynjum það líka að erfitt verður að velta öllum þessum hækkunum út í verðlagið eins og sjoppueigendurnir gera sem sjá okkur fyrir lífsnauðsynjunum.

 Það sem verður þó mörgum okkar erfiðast eru blessuð lánin okkar. Þau erlendu sem tvöfölduðust á einni nóttu og íslensku okurlánin sem munu ná  sömu hæðum og þau erlendu á næstu tveimur til þremur árum. Síðan munu þau svo væntanlega bera tvisvar til þrisvar sinnum hærri vexti en erlendu lánin.

  Við getum nú alveg sleppt því að endurnýja helv. traktorinn í nokkur ár og verið í plastpokum innan í stígvélunum þegar þau fara að leka, en það verða lánin sem munu koma einhverjum okkar á hliðina áður en lýkur.

 Já, við bændurnir munum setja í herðarnar, rækta góða skapið og huga að heimafengnu, allt í fullvissu þess að öll él styttir upp um síðir. Við erum vanir því.

 Og gætum þess að minnast ekki á icesave nema rétt til að koma blóðinu á hreyfingu í einhverjum tilheyrenda okkar.

 Kannski er aðal áhyggjuefnið það sem málshátturinn segir.

 Að enginn sé búmaður nema hann berji sér.emoticon

Kannski eru allir alvörubúmennirnir horfnir úr stéttinni?emoticon
Flettingar í dag: 769
Gestir í dag: 14
Flettingar í gær: 1220
Gestir í gær: 122
Samtals flettingar: 805902
Samtals gestir: 65278
Tölur uppfærðar: 2.4.2025 09:10:16
clockhere