24.10.2009 22:59
Dreifbýlið, grunnskólinn og skítblankt sveitarfélag.
Það var létt yfir nýkjörnum sveitarstjórnarmönnum sem voru að hefja nýtt kjörtímabil fyrir tæpum 4 árum í bullandi " góðærinu ", uppfullir af væntingum til góðra hluta sem koma átti í verk.
Nú eru breyttir tímar og menn vakna misharkalega til raunveruleikans.
Hjá Borgarbyggð er nefndin sem sett var saman til að benda á leiðir til hagræðingar í fræðslumálunumm að skila af sér.
Hvað grunnskólann varðar bendir hún á nokkrar leiðir til að ná fram sparnaði.
Allt frá óbreyttum fjölda starfsstöðva en flötum niðurskurði til málaflokksins, til þess að fækka starfsstöðvum í tvær.
Þá yrði kennt í Borgarnesi og annaðhvort á Kleppjárnsreykjum eða Varmalandi.
Síðan eru í bent á sem millileið fækkun einstakra starfstöðva , einnar eða fleiri.
Grunnskólinn er viðkvæmur málaflokkur og ein brýnasta þjónusta sem sérhvert sveitarfélag veitir.
Það byggða ból eða byggðahverfi sem ekki er í ásættanlegu umhverfi hvað grunnskólaþjónustu snertir er dæmt til glötunar á einhverjum tíma.
Þó núverandi skólar/ skólahverfi hafi byggst upp við allt aðrar aðstæður en eru í dag er samt skynsamlegt að stíga gætilega til jarðar í að gjörbylta þeim.
Skólarnir eru hver fyrir sig ákveðin þungamiðja í viðkomandi skólahverfi.
Þar hefur ákveðinn fjöldi fasta vinnu við allt sem viðkemur rekstrinum og í dreifbýlinu eru þetta staðir sem skipta verulegu máli fyrir byggðina og í sumum tilvikum algjör kjölfesta þeirra.
Verði viðkomandi skóli lagður niður er ekki nóg með að umtalsverður hluti íbúa viðkomandi byggðar missi vinnuna, heldur mun einhver hluti barna í viðkomandi skólahverfi standa frammi fyrir verulegri lengingu á skólaakstri sem í sumum tilvikum mun verða á mörkum þess sem ásættanlegur er, eða vera kominn útfyrir þau.
Og rétt eins og Íslendingar eru nýbúnir að átta sig á því að landbúnaðarframleiðslan skiptir umtalsverðu máli í kreppunni og gjaldeyrisskortinu, eru Borgnesingar væntanlega óðum að átta sig á því hvernig staðan væri, ef dreifbýlið væri ekki jafn burðugt og það er þó í dag.
Fyrir mig sem aðila að Laugargerðisskóla var einkar athyglisvert að sjá hvernig nefndin setti upp skýringatöflu um launakostnað vegna kennara og stjórnenda við einstaka skóla.
Í stað þess að láta koma fram kostnað Borgarbyggðar við þennan lið í Laugargerði var þar sett öll rekstrarupphæðin. Þannig að í stað launakostnaðar Borgarbyggðar sem er kr. 16.800.000 vegna Laugargerðis var heildarkostnaðartalan 41.000.000 kr. notuð í staðinn
Já það eru erfiðir tímar og ekki verður gert lítið úr þröngri stöðu í Borgarbyggð.
Spurningin er sú þegar reiknimeistararnir setjast niður, hvernig þeir vega saman mannauðinn og þann veraldlega.
