25.05.2009 03:50
Allt að róast í sveitinni og sleppitúr framundan.
Nú er mesta annríkistímabili búskaparárhringsins í sveitinni að ljúka.
Yngri dóttirin mætt í sveitina og yfirtekur þar með stífustu næturvaktina í sauðburðinum sem er nú reyndar orðið svona eftirlit , enda fáar óbornar.
Sauðburðurinn hefur gengið vel og þegar helsta umkvörtunarefnið er of mikil frjósemi vorkennir manni enginn.
En fyrir utan gemlingana sem munu ganga með tveim lömbum í sumar eru a.m.k. 7 þrílembur sem sitja uppi með þrjú lömb.
Akrarnir eru sem óðast að taka lit hver á fætur öðrum og grasið þýtur upp, sem segir manni að ekki eru margar vikur í slátt. Búfjáráburðurinn á þeim túnum sem ekki hafa fengið áburðinn sinn hefur dugað þeim vel í vorstartið og nú verður áburðardreifingunni sem eftir er, lokið næstu daga eða um leið og gefur í það.
Rigningin sem kom í gær var vel þegin því allt var orðið skraufaþurrt enda velþekkt, að um leið og óþurrkakafla lýkur þá fer að vanta rigningu og öfugt.
Nú fer að styttast í sleppitúrinn sem verður framinn á efri mörkum suðurlandsins í ár.
Áð við jökullónið á Breiðamerkursandi í síðasta sleppiutúr.
Bæði ég og hluti ferðahestanna minna þurfa á smá endurhæfingu að halda eftir hóglífi vetrarins og nú verður farið sér í það mál.
Eftir undangengið álagstímabil er ég orðinn óhóflegur kaffifíkill en einn megintilgangur sleppitúrsins er eimmitt að afeitra mig í kaffidrykkjunni sem er undantekningarlaust afar hófleg í þeim ferðalögum.
Hér er hópurinn í síðasta túr en nú er 16 bókaðir í ferðina og er þar valinn maður í hverjum hnakk.
En bara einn alvörubóndi.
Við fengum gott veður í Suðursveitinni í fyrra og hér erum við Ingimar í Jaðri búnir að gleyma úrhellinu sem helltist yfir okkur lungann úr deginum áður og erum furðu brattir á kveðjustundinni en það var að sjálfsögðu áð í hlaðinu hjá honum og skorið utanaf einu hangikjötslæri.
Já, þetta sumar verður að öllum líkindum alltof stutt fyrir allt það skemmtilega sem þarf að gera.