05.03.2009 21:12

Öskudagsbræður eður ei.


  Hvað sem öllum vísindum líður rennur nú hjá, hver öskudagsbróðirinn á fætur öðrum.

 Norðan belgingurinn sem á sér örugglega formælendur fáa allt frá því hann rennir á land í Hrútafirðinum, og þar til hann skilar sér á haf út, frá Snæfellsnesinu er drullukaldur og hundleiðinlegur.
  
  Það var farið í að valsa bygg í dag því nú lítur kannski vel út með snjósleðafæri og fjallaferðir næstu daga ef það verður ekki eitthvað til að glepja mann frá því.



  Það voru völsuð um 5 tonn sem dugar fyrir kaupandann sem þarf að sækja byggið um helgina og næstu áfyllingu hér.


  Þó aðstaðan sé góð og afköstin fín er nú engin biðröð eftir því hver fái að sjá um völsunina.

Nú er megnið af sölubygginu selt óvalsað og laust. Það léttir  okkur töluvert lífið og vandamálið með flutninginn sem hefur verið nokkur höfuðverkur er loksins að leysast farsællega í þessum skrifuðu orðum.
  Þeir örfáu sem við seljum valsað og sekkjað bygg hafa bara aðeins betra lag á mér heldur en hinn óbreytti almúgi.
  
  Og fræsalinn okkar hringdi í mig í dag til að hlera hvernig vorið legðist í bóndann. Það er trúlega uggur í innflytjendunum, því þetta er í fyrsta skipti í fjögurra ára viðskiptum sem hann hefur frumkvæðið í fræsölunni. Hann sagði mér þær ánægjulegu fréttir að fræið hjá þeim myndi ekki hækka nema um 10 % frá síðasta ári sem lækkar áætlunina mína þó ekki nema um 1200 kall/ hektara.

  Nú verðum við ræktendurnir að þinga um helgina og leggja línurnar fyrir vorið.

Vonandi býður Einar upp á einn öl til að létta okkur allar ákvarðanir.emoticon 
   

    
 

Flettingar í dag: 1624
Gestir í dag: 38
Flettingar í gær: 883
Gestir í gær: 50
Samtals flettingar: 661953
Samtals gestir: 58401
Tölur uppfærðar: 24.11.2024 21:01:10
clockhere