28.12.2008 09:53

Rigninguna út, snjóinn inn.


   Jólasnjórinn er löngu horfinn og það er dimmt yfir þessa hlýju vetrardaga. Hrossin kumruðu á móti mér óþolinmóð eftir gjöfinni þegar ég birtist þeim í morgun. Ég byrjaði á því að ganga um húsið og þegar kom að folaldastíunni mundi ég eftir því að folöldunum hafði fækkað um eitt þegar ég kom að gefa í gærkvöldi. Þar sem um " aðkomugrip " var að ræða hafði ég ekki velt þessu mikið fyrir mér og gleymt að hringja í eigandann til að kanna málið. Hann hafði kannski verið að færa Önnu Margréti það sem jólagjöf? Eftir á að hyggja fannst mér þetta þó mikil ósvífni og óskammfeilni, að  gera þetta án samráðs við settan bústjóra. Já, það þarf að taka rækilega á þessu virðingarleysi, en samt þó eins gott að réttur eigandi hafi hirt það?

  Rigningin sem koma átti í gær kom aldrei og hrossin höfðu því öll komist út í gerði. Það var eins gott því nú er farið að rigna og lá við að blotnaði í mér við að koma rúllunni inn á Sjeffanum, því nú þurfti að bæta á fóðurvagninn.

  Mér varð hugsað til sýkingarinna á Kjalarnesinu þar sem 21. hross er dautt og 6 veik enn.
Þetta er álíka fjöldi og hér var verið að gefa og þó gömlum sveitarmanni blöskri þegar hann les í fréttum um málið að hrossin hafi látist og eða  andast, er það kannski réttlætanlegt orðafar í svona tilvikum.
  Ekki er ótrúlegt að sú hörmungarsaga vekji kröftuga umræðu um dreifingarform búfjáráburðar, og nýtingu landsins í framhaldinu, þegar búið verður að staðfesta hvað þarna gerðist.

 Svo er vonandi að nú fari að slá á þessa umhleypinga sem fara illa með útiganginn.

Hér með er því óskað eftir stillum með hæfilegu frosti og snjó því nú eru fjöllin farin að bíða eftir mér.



  Og yngri bóndann farið að klæja í benzínputtann.

Flettingar í dag: 237
Gestir í dag: 18
Flettingar í gær: 3095
Gestir í gær: 75
Samtals flettingar: 808465
Samtals gestir: 65357
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 08:51:13
clockhere