17.11.2008 20:27
Sveitateiti 2008.
Sveitateitið er nokkurskonar uppskeruhátíð bænda á félagssvæði Búnaðarsambands vesturlands.
Þetta hefur aldrei verið mjög fjölmenn hátíð, um 120 - 140 manns en þarna mætir að sjálfsögðu langskemmtilegasta fólkið.
Búnaðarfélög svæðisins skiptast á um að halda utanum skemmtunina og í þetta sinn var það B.f. Eyja- og Miklaholtshrepps sem sá um teitið.
Hundar Í Óskilum sáu um stjórnunina og skemmtiatriðin. Mér fannst þeir kannski ekki alveg nógu ferskir og trúlega hefði þeir ekki dugað vel í keppninni hjá mér fyrr um daginn.
Það var svo Jóhannes á Gunnarstöðum sem var ræðumaður kvöldsins. Hann sleppti ræðunni og var bara skemmtilegur. Snjallar lausavísur með skemmtilegum aðdraganda svínvirka í svona hóp.
Og lambið hjá hótelhöldurunum í Borgarnesi var alveg rosalega gott.
Vestfirðingarnir gerðu sig afspyrnu virðulega á svipinn, eftir að Dóri hafði fullvissað þá um að hann væri í vinnu hjá Skessuhorni. Innrimúlabóndinn sagði bloggara bæjarins, sitja heima að búi sínu. Vonandi er hann að safna kröftum til áframhaldandi bloggskrifa sem hann hefur sinnt hálfletilega undanfarið.
Vinir mínir á Austurbakkanum létu nægja að senda Kaldárbakkabændur sem fulltrúa sína á teitið.
Þeir stóðu að sjálfsögðu vel undir því eins og öðru sem þau taka sér fyrir hendur.
Rétt er að taka fram að þegar ég minnist á vini mína á austurbakkanum,( sem ég geri alltof sjaldan) þá á ég við upprunalega austurbakkann. Það er áður en þeir lögðu undir sig Borgarbyggð og Borgarfjarðarsveit með nokkrum blýantsstrikum.
Snæfellsbæingar mættu vígreifir til leiks enda eiga þeir mun meira í formanni sambandsins en við hin. Þeir eru verkhyggnir mjög, og settust að sjálfsögðu við borðið næst barnum. Þar sem eiginmaður formannsins sést ekki við hlið konu sinnar hér, verður að ætla að hann hafi skotist á barinn enda öll glös tóm.
En það áttu ekki allir svona ánægjulegt laugardagskvöld og einhverjir framsóknarmenn, (aðrir en þeir sem hér voru staddir) voru vondir við Guðna, svo nú er hann hættur og farinn.
Blessuð sé minning hans í pólitíkinni.