16.11.2008 12:31
Fjárhundakeppnin.
Fjárhundakeppnirnar eru nokkurskonar próf hjá hundunum sem eru að lenda í allskonar uppákomum í brautinni. Taminn góður hundur á samt að geta lokið rennslinu með 60 stig plús, sama í hverju hann lendir.

Hér erum við Vaskur búnir að skipta hópnum og eigum eftir að koma honum inn í réttina.

Og hér sjáum við fyrir endann á því.
Við lukum rennslinu með 82 stigum eða 18 refsistigum. Sterkasta hliðin hjá Vask er úthlaupið og að koma með. Þar náði hann 48 stigum af 50 mögulegum.
Í unghundakeppninni verður hinsvegar reynsluleysið oft til vandræða þó dýrið sé orðið töluvert tamið. Nú var Snilld að taka þátt í fyrstu keppninni sinni. Henni gekk vel til að byrja með en svo fór stressið með hana, enda áhuginn alveg gríðarlegur.

Hún náði 58 stigum af 80 mögulegum og eins og hestamennirnir segja stundum , held ég að hún eigi kannski aðeins inni fyrir framtíðina.
Það eru skiptar skoðanir um það hjá okkur sem erum að temja hundana okkar hversu fljótt á að setja pressu á unghundana með að vinna hægar og gera erfiðari verkefnin. Ég geymi það til vetrarins að gíra Snilld niður og slípa hana til.


Fyrir þá sem vilja sjá útá hvað þetta gengur, bendi ég á myndaalbúmið með Vask þar sem myndirnar eru textaðar.
Síðan eru á fjórða hundrað myndir komnar inn á 123.is/smali.
Skrifað af svanur