13.11.2008 23:01
sveitarstjórnarmálin.
Sveitarstjórnarmennirnir ala með sér margan drauminn, sérstaklega fyrstu kjörtímabilin meðan þeir eru ferskir og ekki farnir að staðna í málunum.
Einn draumurinn er að lækka álögurnar á samborgarana, annar að auka þjónustuna svo íbúunum líði sem bezt. Þetta fer reyndar ekki vel saman en draumarnir rætast nú heldur ekki alltaf.
Nú standa sveitarstjórnarmennirnir/fólkið frammi fyrir því að þurfa hugsanlega að skerða þjónustuna við borgarana. Sumir komast kannski ekki hjá því að hækka álögurnar líka.
Óvissan í tekjustofnunum er mismikil eftir samsetningu sveitarfélaganna. Það er reiknað með niðurskurði á ríkisframlagi á jöfnunarsjóð, lækkun á útsvarstekjum, auknum vanskilum o.sv. frv.
Og eigna/skuldastaða sveitarfélaganna er svo ákaflega misjöfn.
Þetta er verið að glíma við þessa dagana. Fjárhagsáætlun sveitarfélaganna og grunnskólans.
Eyja- og Miklaholtshreppur er nokkuð brattur, skuldlaus og íbúasamsetningin þannig að kreppan hefur ekki mikil áhrif svona í upphafi. Það verður trúlega niðurskurðurinn á jöfnunarsjóðnum sem mun koma verst við okkur. Samstarfssveitarfélagið um grunnskólann er hinsvegar alvörusveitarfélag, sem mun trúlega finna af þunga fyrir samdrættinum og snarminnkandi útsvarstekjum og hugsanlega talsverðri aukningu á félagslegu þjónustunni, lóðaskilum o.sv. frv.
Það er kannski ekkert stórt farið að gerast í uppsögnum og samdrætti en menn eru samt farnir að bretta upp ermarnar og brýna niðurskurðarhnífinn, því það er nokkuð ljóst hvert stefnir.
Við erum að læra það nokkuð hratt þessa dagana , óbreyttir og sveitarstjórnarmenn og það gengur ekki að líða áfram gegnum lífið og eyða meira (mun meira) en við öflum.
Það er samt talsvert í að við sjáum niðurstöðuna á því, hvað þeir félagarnir, Sigurður Einarsson, Björgólfur og Jón Ásgeir eru búnir að gera okkur.

Skrifað af svanur