29.10.2008 09:15
Með oflofi teygður á eyrum hann var!!
Þó mér kæmi í hug vísubrotið hér að ofan þegar ég las athugasemdirnar við síðustu blogg þakka ég hlý orð í minn garð og þátttökuna í könnuninni. Ég þakka ekki síður þeim sem létu könnunina eiga sig, því ég lít að sjálfsögðu svo á, í hógværð minni og lítillæti að þeir hafi einfaldlega verið sammála commentunum. (Velþekkt að menn lesa útúr skoðanakönnunum með ýmsum hætti.) Þó ég muni efalaust halda áfram að setja á skjá það sem mér finnst skemmtilegt og þegar ég nenni því, er ýmsar hugmyndir í farvatninu sem væntanlega koma í ljós ef þær verða inni áður en lýkur.
Það bætti í snjóinn í nótt og getur ekki vetrarlegra orðið í sveitinni. Hér er þó búið að vera góðviðri í nokkra daga, meira að segja logn sem er alltaf velþegið hér á Nesinu.

Ef farið er upp á Dalsmynnisfellið sést mjög vel um stóran hluta þess svæðis sem eftirlegukinda er von í kringum Dalsmynni. Þess ber þó að gæta, að þó Zeissinn minn sé góðu sér hann ekki gegnum holt og hæðir.
Hérna hefur Iðunn zúmmað svo rækilega á Skyrtunnuna að fjórhjólaförin uppi á Dalsmynnisfellinu sjást greinilega í snjónum. Nú er erfitt um fjallaferðir því hvorki er fjórhjóla eða snjósleðafæri. Snjórinn heldur ekki fjórhjólinu og er ekki nægur fyrir sleðann auk þess sem allir lækir eru auðir.
En þetta stendur allt til bóta. Annaðhvort eykst snjórinn eða fer um helgina.

Skrifað af svanur