22.10.2008 17:51
Eftirleitir.
Stundum finnst manni með ólíkindum fjöldi kindanna sem eru að koma fram á fjallgarðinum í kringum mig framá vetur. Á þessu eru trúlega þónokkrar skýringar og ein þeirra er sú að vegna fámennis er fjallgarðurinn ekki leitaður í samfelldri leit beggja vegna. Heldur er verið að leita samliggjandi svæði , kannski með viku millibili o.sv. frv. Síðan er veruleg ásókn kinda sunnanað innyfir og náist þær ekki í leitum eru þær dólandi til baka´.
Nú er verið að kíkja á svæðið og fara á þau þeirra sem hafa gefið best liðin haust.
Í Selsfjallið sem hefur verið dauðhreinsað tvisvar í haust voru nú mættar 11 kindur.
Þær voru komnar langleiðina niður að girðingu en um leið og þær urðu varar við bílinn var tekið til fótanna beint upp hlíðina. Sem betur fer er Atli með fluggír á Toyotunni og þó hann væri fjarstaddur var gírinn virkur. Það var brunað uppað girðingunni og Vaskur sendur af stað. Þar sem kindurnar voru hátt uppi kom hann ekki auga á þær strax og þó hann ryki af stað í rétta átt var mér hætt að lítast á blikuna þegar hann loks sá þær og rétti sig af.
Við Vaskur erum komnir á þann aldur að það sem var erfitt í fyrra, er mun erfiðara núna og hann þurfti virkilega að taka á honum stóra sínum í þetta sinn. Hinumegin brúnarinnar er stutt í hundleiðilegt gil sem hefði getað orðið til verulegra vandræða.
Hann fékk svo aðeins að pústa því það var engin hætta á að ballið væri búið þarna.
Meðan Þverárbóndinn gerir allt klárt við bílinn virtum við Vaskur fyrir okkur kindurnar sem voru ekki úr rugldeildinni. þrátt fyrir að 5 þeirra væru frá vinum mínum, umm, hérna í næstu sveit.
Þarna var mætt gimbrin sem ég heimti úr Stóra Langadal í mars sl. ( sjá blogg 31/3 ) með stærðar hrútlambi. Hún setti mig alveg útaf laginu, því þegar ég kvaddi hana í vor var henni gerð grein fyrir því, að yrði hún sótt eftir leitir, í Langadalinn væri hún í mjög vondum málum.
Já , hvað gera bændur nú??
Skrifað af svanur