07.10.2008 21:15
Uppskerulok í Bygginu.
Það kom að því að þreskingu lyki hér í Eyjarhreppnum sáluga. Þar sem ég er neðstur í goggunarröðinni var að sjálfsögðu endað hér. Þetta voru tvær cirka 3 ha. spildur önnur með Skegglu en hin með Lómnum. sem skornar voru í dag. Uppskeran hefur trúlega verið um 3 t. af ha. miðað við 87 % þurrefni sem er ásættanlegt. Af tillitsemi við vini mína (hér og þar) kem ég ekki með nein comment um ræktendur, sem þreskja/vigta byggið blautt og grænt svo þeir geti verið kátir með t/ha.
Við mælum rúmmetrana við móttöku á bygginu inn í stöðina og margra ára nákvæmar vísindarannsóknir segja okkur það að rúmmeterinn við innvigtun skili okkur um 470 kg af þurru byggi. Við félagarnir sem allir eru hver með sína ræktun, leggjum uppskeruna í sameiginlegan pott á ákveðnu verði og þeir okkar sem nota byggið kaupa það síðan eftir að búið er að leggja á það þurrkunarkostnaðinn. Hitt er selt ( ánægðum kaupendum).
Nú á einungis eftir að þreskja akrana okkar í Dölunum og var rennt inneftir í dag að kíkja á ástandið þar. Þessir akrar sem hafa skilað okkur jafnbestu uppskerunni síðustu ár, hafa greinlega orðið fyrir hverju áfallinu á fætur öðru í haust. Gæsir og álftir hafa herjað á þá , hluti þeirra lent í flóði í vatnavöxtunum miklu en aðaltjónið hefur orðið í einhverja suðaustanáhlaupinu og hefur orðið umtalsvert foktjón . Það var samt ákveðið að fara með dótið inneftir og hirða það sem hægt væri.
Ekki veitir af í kreppunni að halda utanum það sem maður hefur.
Byggræktin í sumar hefur verið að gefa okkur jafnbestu og mestu uppskeruna frá upphafi þó nokkrir akrar hafi brugðist og gæsaflotinn rústað öðrum.
Það er búsældarlegt í skemmunni og margra daga verk að ljúka þurruninni á
bygginu sem er í kælingu hér.
Ef einhverjir byggræktendur eru að kíkja hér í heimsókn væri gaman að fá comment um uppskeruna.
Það var svo brugðið sér í eftirleit í dag og hér sést Vaskur koma með síðustu tvílembuna inn í hópinn en þær voru á víð og dreif um austurfjallið og ekkert snjóhrafl að fela sig í. Þegar Móbílda í Kolviðarnesi með bíldóttu lömbin sín, var komin í hús ( í miðið), varð Jón sæll og glaður enda búinn að alheimta þetta haustið.
Já þetta voru vandamálalausar Vesturbakkakindur.