05.10.2008 17:17

Kexrugluð austurbakkaræktun!!


  Það blés napurt niður Eiríksdalinn þegar við Atli dóluðum innmeð Laxánni með fjórhjólið á kerrunni. Það átti að smala Hafursfellið í dag og skyldi byrjað á Selsfjallinu.
  Þegar sást inná hlíðina innan við Hlíðarhornið var stoppað og svæðið skannað með kíkinum.
Það var eins og mig grunaði að þrátt fyrir snjóhraflið sáust þarna allavega um 15 kindur.

 Undanfarin ár hafa komið þarna niður hópur fjár sem virðist tapast úr leitum norðar/ austar á nesinu og leita þarna niður með varnarlínunni. Þetta er samansafn fjár sem alls ekki rekst með eðlilegum hætti. Þegar það stendur frammi fyrir því að sleppa ekki í kletta, eða bara í burt, en menn og hundar  farnir  að stjórna hlutunum hættir það alltíeinu að geta gengið, þó ég hafi upplifað það hlaupa á fullri ferð fleiri km. telji það sig vera að sleppa.
  Eftir að hafa metið stöðuna var fjórhjólið tekið af kerrunni og við Vaskur brunuðum síðan yfir ána og inn með girðingunni þar til komið var norðurfyrir  féð ,Vaski síðan skutlað yfir girðinguna og sendur í góðan boga upp fyrir hópana. Féð hafði að sjálfsögðu skipt sér í 3 hópa strax og til okkar félaga sást ,einn stefndi í norður ,annar beint upp og sá þriðji í klettagil í sa.átt. Eftir að Vaskur hafði stoppað þetta allt af og komið þessu saman var Assa tekin í vinnu og við Atli settum okkur í stellingar að stýra hópnum í aðhaldið þar sem hann yrði rekinn á kerruna. Þetta fé sem flest hafði verið þarna árinu áður( nema lömbin), var greinilega búið að afvenjast því að láta hunda stjórna sér, því þrátt fyrir að hundarnir héldu sig í góðri fjarlægð og gerðu allt sem þeim hafði verið kennt til að forðast óþarfa átök gerði hópurinn sér lítið fyrir þegar fór að þrengja að því og setti á fulla ferð beint á þá.  BOOMS og ég lýsi þessu ekki nánar.
  Þegar ég leit yfir hópinn eftir að hann kom á kerruna sá ég nú ekki neitt stórkostlegt á þessum alverstu heilabiluðu en eitt gimbralambið hafði hornbrotnað við að láta reyna á traustleika varnarlínunnar. Það verður svo að viðurkennast að mér létti nokkuð við að engin hornskellt var í hópnum, svo allar fengu far heim.  Það kom náttúrulega ekki á óvart heldur, að nokkrar veturgamlar voru í hópnum því svona stofni vilja eigendurnir að sjálfsögðu halda við. Spurning hvað gerist þegar þjónustan minnkar?


                                 Horft austurúr Núpuskarðinu niður Þórarinsdalinn.
Tvílemban sem sést hér á fullri ferð var ofarlega í vestaverðu skarðinu, er trúlega 3-4 ættliður ruglræktunar kinda sem aldrei koma til byggða í hefðbundnum leitum en eru að nást frameftir öllum vetri víðsvegar á fjallgarðinum.
Ég veifaði henni glaðhlakkalega þar sem hún stóð hin ánægðasta í gilinu við Geithellinn eftir um 3. km hlaup á alveg gígannískum hraða. Það er spurning hvort hún hafi verið hornskellt?


Á leiðinni innúr höfðum við séð nokkrar kindur í skógræktargirðingunni sunnar í hlíðinni og skyldu þær nú sóttar..
 Þarna reyndist vera tvílemba og tvö samstæð lömb. Vaskur var kominn suðurfyrir þau áður en varði og kom fénu umsvifalaust að girðingunni og síðan innmeð henni. Þetta gekk vel þartil í aðhaldið kom en þá endurtók sagan sig, um leið og féð sá blindgötuna snéri það að okkur  og á hundana og mátti ekki á milli sjá hvort var ruglaðra rollan eða móðurlausu lömbin.

  Þessi móðurlausu eru af glænýrri rækunarlínu þeirra austurbakkamanna sem ég kynntist fyrst í fyrrahaust. Þetta er illa gert fé, einhverskonar forystublendingsbastarðar og ég er ekki frá því að einhverntímann í ræktunarsögunni hafi verið gripið til þess að blanda geitum í stofninn til að koma að nýju blóði. Sérstaða þess er síðan sú að útúr hausnum á þeim vex fjöldi hnýfla og horna og er síst til að prýða fyrirbærin. Hvort það er þessum höfuðbúnaði að kenna eða ræktendunum eru þessar skepnur alveg kexruglaðar eða bilaðar í hausnum . Um leið og þær koma auga á smala stökkva þær hæð sína í loft upp og eru farnar að spóla í loftinu fyrir lendingu. Svo þjóta þær eitthvað út í loftið.  Ólíkt hinni ræktunarlínunni sem fyrr er lýst, hlýða þessi fyrirbæri hundi ágætlega þar til fer að þrengja að þeim. En vandamálið er það að þær eru alltaf á harðahlaupum í rekstri. Áfram, útá hlið eða bara í hringi, inní í hópnum. Þó ég sé þeirra skoðunar að við svona ræktun eiga  að nota sömu aðferð og tíðkast í laxveiði nú um stundir, veiða/sleppa  og leyfa síðan eigendunum að njóta þess að ná þeim,  hefur ekki orðið úr því enn. 

   Ég velti því hinsvegar fyrir mér hverskonar bilun það sé að koma sér upp svona fé.emoticon

Flettingar í dag: 769
Gestir í dag: 14
Flettingar í gær: 1220
Gestir í gær: 122
Samtals flettingar: 805902
Samtals gestir: 65278
Tölur uppfærðar: 2.4.2025 09:10:16
clockhere