20.09.2008 14:54
Rauðamelsheiðin smöluð.
Við Hyrjar lentum í fyrstu og verstu aurbleytunni í Brúnadalnum. Ég hélt á tímabili að klárinn færi ekki lengra því eftir því tveggja metra umbrot stoppaði hann á hnjánum með afturfæturnar á kafi í drullunni. Hann leit á mig eins og ég ætti að gera eitthvað, en ég gerði ekki neitt. Eftir smáslökun sá ég að nú ætlaði hann að reyna og hvatti hann aðeins og upp fór hann.
Við Hyrjar höfum marga fjöruna sopið í gegnum tíðina en aldrei lent í svona mörgum aurbleytuævintýrum og í dag. Eftir fyrstu þrjú skiptin var þetta komið í kerfi hjá okkur. Ef klárinn sökk stoppaði hann, meðan ég kom mér á lappirnar og svo braust hann uppúr.
Það var verið að smala Rauðamelsheiðina. Við vorum 10 ríðandi með 13 hesta og vorum keyrð inn í Litla Langadal á Skógarströnd í morgunsárið. Þaðan var riðið suður dalinn á vatnaskil þar sem skipað var í gönguna. Setbergsáin var í foráttuvexti og í stað þess að sikksakka hana eins og vanalega varð að fara ótroðnar slóðir sem þýddi klukkutíma töf á brottför af Flötunum.
Góða veðrið sem gangnastjórinn ,Jón Odds lofaði mér kvöldið áður hefur trúlega verið sett á annan dag ( gott að eiga það inni) því við riðum á móti rokbeljanda og haglhryðjum inn dalinn og reyndar lungann af deginum.
Éljaklakkarnir gengu yfir okkur allan daginn með alvöru hagléli. Þeim fylgdu stöðugar þrumur og eldingar. Þær voru nýnæmi í göngum fyrir gamla bóndann sem ekki var á fjöllum í fyrsta sinn.
Það voru 3 hundar( allir nothæfir) með hópnum (lélegt) og tveir þeirra með mér. Dóri var því settur efstur í Sátuna en ég í heiðina.
Vandamál dagsins var rokið, því þegar verið er að vinna með óreynda( ekki slípaða í vinnu) hunda, þarfa að vera hægt að segja þeim til . Eftir að ég týndi flautunni minni þá varð þetta dálítið lottó. En vinningshlutfallið í því var samt ágætlega hátt.
Snilld , Assa og Hyrjar í hádegispásunni. Eftir fimmtudagssmölunina var Stíganda og Vaski gefið helgarfrí .
Þessar 3 "kindur "sem ég nennti ekki að sækja upp í Hest voru orðnar að hvítum steinum um það er ég kom til byggða og allar hinar sem sluppu?? Ja, allir góðir smalar þekkja það, að það eru hinir vitleysingarnir sem klúðra öllu í smalamennskum.
Þessar tvær fyrir neðan klettana, já þær verða að bíða eftir seinni leitinni enda nauðsynlegt að hafa eitthvað að gera þá.
Leitinni var svo slúttað með hefðbundnum hætti í kakóveislu og koníaki að Þverá.
Það verður svo ekki fjölyrt um það á netinu, hvað fylgdi heita pottinum í kvöld.
Myndir í albúmi. Flestar í boði Iðunnar.