06.09.2008 21:36
Um þjóðbraut þvera.
Þeir sem bruna um vegi landsins á löglegum hraða eða ólöglegum velta því örugglega ekki fyrir sér hvernig samgöngukerfið kemur við þessa bændaskarfa sem enn eru að hokrast við búskapinn kvartandi og kveinandi yfir afkomunni.
Hér í Dalsmynni sker þjóðvegurinn sundur tún og beitilönd og þó hann sé nauðsynlegur veldur hann margvíslegum og vaxandi óþægindum. Kýrnar sækja sumarbeitina niður fyrir veg lungann úr sumrinu og lambféð fer niðurfyrir á vorin og til baka í sumarhagana o. sv.frv. Og umferðin er sívaxandi og rétt að vera ekki að tjá sig um hraðann né umburðarlyndi ökuþóranna sem er dálítið mikið misjafnt svo ekki sé fastar að orði kveðið.
Þessa dagana eru við góðbændurnir að rífa niður ónýta veggirðinguna og setja nýja upp. Girðingin var komin vel á aldur og löngu hætt að þjóna hlutverki sínu rétt eins og fjölmargar stallsystur hennar um sveitir landsins. Eitt af því sem blessuð bændaforystan gerði okkur umbjóðendum sínum til miska í den var samningur við ríkið/vegagerðina um að bændurnir tækju yfir viðhald veggirðinganna fyrir" hóflegt" gjald. Ég man enn hvað Ari vinur minn Teitsson varð hissa þegar hann var að lýsa þessum "góða" samningi á bændafundi og ég vissi ekki hvert ég átti að komast af vandlætingu yfir málinu. Ég var þeirrar skoðunar þá og er enn, að veggirðingar séu hluti vegarins og eigi að vera á könnu veghaldara.
Nú er semsagt verið að snara upp tæplega km. langri girðingu ofan vegar en áætlaður kostn.pr.km. er um 800.000 kr.
Girðingin neðan vegar verður að bíða fjárveitinga næsta árs.
Já, alltaf jafn dj. skemmtilegt að girða á góðu landi.

Skrifað af svanur