04.09.2008 23:20

Félagsmál og fjárbúskapur.


  Fyrir margt löngu þegar ég var ungur og ábyrgðarfullur var ég stundum kosinn til hinnar ólíklegustu ábyrgðarstarfa. Oftast var ég svo heppinn að uppgötva það á undan kjósendunum að ég væri kannski til lítils gagns í þessum hlutverkum og náði oftast að draga mig útúr þeim áður en illa færi í kosningum. Í nokkur ár mætti ég t.d. á stéttarsambandsfundi þar sem ég skipaði mig umsvifalaust í órólegu deildina með Gústa í Sauðanesi og Dóra heitnum á Laugalandi. Síðan hefur óhemju magn af vatni runnið til sjávar og kjarabaráttan í sauðfénu komin í heila hring. Kvótinn sem settur var á til að koma böndum á framleiðsluna, horfinn yfir móðuna miklu( blessuð sé minning hans) og nú mega rollubændurnir framleiða eins og þeir mögulega geta á ný, en ríkið er hinsvegar hætt að tryggja þeim  fullt verð fyrir útflutninginn.

 Eins og þá, er náttúrulega enn agnúast eins og mögulegt er út í félagsmálatröllin sem af mikilli ósérplægni eru að slíta sér út í félagsmálavafstrinu. Sumir virðast t.d. ekki hafa neinn skilning á því hversvegna fulltrúar bænda í stjórn afurðafyrirtækjanna hækka ekki orðalaust afurðaverðið til sín og hinna bændanna eins og þörf er á.

  Ég skil hinsvegar ákaflega vel að á aðalfundi sauðfjárbænda hafi stjórnarmenn afurðasölufyrirtækjanna góða yfirsýn og fullan skilning á hækkunarþörf afurðanna og greiði öllum tillögum í þá átt atkvæði sitt.
 Ég skil auðvitað líka að þegar þeir eru komnir á stjórnarfund í afurðafyrirtækinu þar sem allt er á heljarþröm og vaxtabyrðarnar og hækkandi kauptaxtar og allt hitt er að kafsigla dæminu, þó þeir greiði atkvæði með því að ekki sé hægt að hækka verðin frá því í fyrra nema um 15 - 20 %.

  Það sem ég skil ekki er hvernig þeir nenna að standa í þessu.



              Við Ingimar á Jaðri nennum þessu ekki lengur.
Flettingar í dag: 769
Gestir í dag: 14
Flettingar í gær: 1220
Gestir í gær: 122
Samtals flettingar: 805902
Samtals gestir: 65278
Tölur uppfærðar: 2.4.2025 09:10:16
clockhere