20.05.2008 04:15
Sauðburður/goðafræði!!
Ég verð óneitanlega var við það að mín heittelskaða lítur mig tortryggnu rannsóknarauga eftir hina ógætilegu spurningu mín úr goðafræðinni. Eftir á að hyggja verður að viðurkennast að spurningin bendir til mjög alvarlegra bilana á harða diski undirritaðs sérstaklega ef haft er í huga að hann er/var sérstakur áhugamaður um málaflokkinn og er ekki ótrúlegt að endað verði í ásatrúaflokknum áður en lýkur.
Það góða við þessa uppákomu er þó það, að frúnni er enn umhugaðra um velferð mína en fyrr (var í góðu lagi) þó hún sé ekki farin að ganga jafn langt í kröfu sinni um hvíldartíma mér til handa og stóri bróðir ríkið gengur gagnvart atvinnubílstjórum þessa lands.
Af sauðburði er það hinsvegar að frétta að með heimkomu heimasætunnar fór allt að gerast og fjölgar nú fénu jafnt og þétt. Stærsta vandamálið í augnablikinu er óhófleg frjósemi og þegar ógæfusöm móðir missti einlembinginn sinn í fæðingu og tók tvö að sér í staðinn var það talsverður léttir. Hún tók upp á arma sína tvílembing undan júgurbólguá og þrílembing undan gamalær. Nú er lifað í stöðugum ótta um að lömbin verð þrjú í stað tveggja því þrílembumetið sem slegið var í fyrra er komið í verulega hættu. Þetta gerist þrátt fyrir að svokallað fengitímaeldi er löngu liðið undir lok í Dalsmynni, kjarnfóður( bygg) ekki gefið nema gemlingum eftir áramót og síðan eftir burð þar sem því verður viðkomið í jötuleysi nútímans.
Það er svo óþarft að taka fram, að nú eru engar spurningar bornar upp við kvöldverðarborðið nema að vel ígrunduðu máli.

Skrifað af svanur